Borgin borgaði ekki öryrkjum

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég í vinkonu minni sem sagði sínar farir ekki sléttar í samskiptum við Reykjavíkurborg. Ástæðan var sú að borgin hefur þverskallast við að greiða leigjendum hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, sérstakar húsaleigubætur, þrátt fyrir dóma Hæstaréttar í málinu. Ég ákvað að kynna mér málið.

Um miðjan júní árið 2016 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu áður í máli konu sem er öryrki og glímir við mikinn félagslegan vanda, sem tók íbúð á leigu af Brynju. Árið 2013 synjaði borgin henni um sérstakar húsaleigubætur. Öryrkjabandalagið styrkti málssókn gegn borginni og sem fyrr segir vann skjólstæðingur þess fullkominn sigur í Hæstarétti fyrir tæplega tveimur árum.

Í október 2016 sagði Björn Arn­ar Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Brynju, í samtali við Morgunblaðið að borgin neitaði að borga samkvæmt dómnum:  „Það virðist vera sem svo að það sé verið að búa til girðing­ar enda­laust gagn­vart þess­um hópi.“ Í viðtalinu kemur fram að borgin notaði undarlegustu mótbárur: „[Borgin vísar] til þess að þar sem fólkið er komið í hús­næði hjá okk­ur, þá sé það ekki hús­næðis­laust. Ég veit hins veg­ar ekki hvernig menn fara að þegar þeir sækja um hús­næðis­bæt­ur á al­menn­um leigu­markaði, sækja þeir þá um bæt­urn­ar áður en þeir fá leigt?“

Í samtali mínu við Björn nú í vikunni kom fram að sögurnar eru margar og með miklum ólíkindum. Málið þæfðist í tæplega tvö ár þar sem Reykjavíkurborg taldi sér sæmandi að brjóta rétt á þeim sem hafa litlar tekjur og eiga oft við mikil líkamleg, andleg og félagsleg vandamál.

Nú í vikunni, þremur vikum fyrir kosningar, ákvað borgarráð að hlíta dómnum og borga að hluta til. Í frétt á Vísi er ekkert talað um það af hálfu borgarinnar að borgarar fái rétt sinn í samræmi við lög og dóma. Aðeins sagt að kostnaðurinn sé „umtalsverður“.

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Öryrkjabandalagsins, sagði: „Við fögnum auðvitað þessari ákvörðun en hér er ekki um góðverk af hálfu borgarinnar að ræða heldur er verið að leiðrétta að hluta margra ára brot á réttindum fólks. Brotin ná yfir lengra tímabil en kveðið er á um í ákvörðun borgarráðs.“

Borgaryfirvöld vissu vel hvað þau voru að gera. Í minnisblaði frá borgarritara sagði: „Telja verður að allar líkur séu á að upplýsingagjöf borgarinnar hafi haft þær afleiðingar að einhverjir umbjóðendur ÖBÍ hafi ekki sótt um sérstakar húsaleigubætur.“

Málið hefur velkst um í borgarkerfinu í um áratug. Á þeim tíma hafa allir þeir flokkar sem nú sitja í borgarstjórn komið að stjórn borgarinnar. Réttur borgaranna, að ekki sé talað um rétt þeirra sem verst standa, var fyrir borð borinn allan tímann. Flokkarnir töldu verðmiðann á réttlætinu of háan. Vill einhver þannig borgarfulltrúa?

Birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2018.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.