Vúdú-hagfræði kampavínsstjórnarinnar

Þegar Ronald Reagan bauð sig fram sem forseti Bandaríkjanna setti hann fram þrjú markmið: Lægri skatta, meiri útgjöld til hermála og jöfnuð í ríkisfjármálum. George Bush, sem síðar varð varaforseti Reagans, kallaði þessa stefnu vúdú-hagfræði, enda tvöfölduðust skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna næstu tólf árin.

Sumir hafa líkt nýju ríkisstjórninni við hrunstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks árið 2007, en þeir sem muna lengra aftur sjá mun meiri líkindi með vinstri stjórninni sem tók við af Viðreisnarstjórninni fyrri árið 1971. Þá var efnt til veislu í upphafi kjörtímabils vegna þess að staða ríkissjóðs var talin góð og að erfiðleikaár væru að baki. Veislan varð skammvinn og við tók 20 ára tímabil óðaverðbólgu.

Síðastliðinn vetur setti ég sem fjármálaráðherra fram fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar á fyrsta degi sem þing kom saman eins og lög gera ráð fyrir. Fjármálastefnu er ætlað að auka stöðugleika og gagnsæi í ríkisrekstri. Þess vegna er hún sett fram til fimm ára, þó að kjörtímabil séu aldrei lengri en fjögur ár. Í nágrannalöndum okkar er lögð áhersla á að sem minnst röskun verði á rekstri ríkisins við stjórnarskipti.

Mér varð strax ljóst að til þess að ná markmiðunum á því hagvaxtarskeiði sem nú ríkir væri eðlilegt að afgangur af rekstri hins opinbera yrði að vera á bilinu 1,5 til 2,0% af vergri landsframleiðslu. Niðurstaðan var sú að leggja til 1,6% afgang næstu tvö ár. Þannig yrði hægt að halda áfram að lækka vaxtagreiðslur sem eru með því hæsta í Evrópu, þrátt fyrir að skuldir ríkisins séu lægri en margra nágrannaþjóða.

Sérfræðingar sem um stefnuna fjölluðu töldu að afgangurinn mætti ekki minni vera. Óumdeilt er að ein meginástæðan fyrir því að ekki fór verr í bankahruninu var hve litlar skuldir ríkissjóðs voru á þeim tíma og því rými til lántöku og tímabundins hallareksturs. Við umræður á Alþingi um fjármálastefnu mína féllu eftirfarandi ummæli: „Það er eitt sem við ættum að minnsta kosti að vera sammála um: Ef eitthvað er þá er þessi fjármálastefna mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður.“

Óumdeilt er að ný ríkisstjórn tekur við góðu búi. Horfur eru nú á að afkoma ríkisins á næsta ár yrði að óbreyttu enn betri en gert var ráð fyrir síðastliðið haust. En vúdú-hagfræðin boðar enn og aftur útgjaldaaukningu og skattalækkanir. Nú á að nota lækkun á eiginfé bankanna til þess að bæta tugum milljarða í útgjöld ríkisins. Rétt eins og vinstri stjórnin greip til varasjóða til þess að bjóða til veislu árið 1971 gengur kampavínsstjórnin á eignir og dregur tappa úr stút.

Og hver var það sem taldi á Alþingi að fjármálastefnan væri ekki nægilega aðhaldssöm? Enginn annar en formaður stærsta ríkisstjórnarflokksins, núverandi fjármálaráðherra.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 9.12.2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.