Úr kosningabaráttunni árið 1931

Í dag eru 140 ár frá því að Benedikt Sveinsson, afi minn, fæddist á Húsavík. Hann sat á Alþingi í rúmlega 20 ár og var í fararbroddi í sjálfstæðisbaráttunni. Hér er hann á Þingvöllum árið 1945. Afi dó árið áður en ég fæddist, en ég heyrði börn hans, auðvitað aðallega mömmu og Ólöfu tvíburasystur hennar, alltaf tala um hann af mikilli virðingu.

Í eftirmælum á Alþingi var sagt um afa: „Benedikt Sveinsson drakk snemma af lindum íslenzkrar tungu og bókmennta. Mál hans var rismeira og hreinna en flestra manna annarra. Fáir menn munu hafa verið betur heima í fornsögum vorum en hann, enda var honum falið að sjá um alþýðuútgáfu á fjölmörgum Íslendingasögum á vegum Sigurðar bóksala Kristjánssonar.“

Það var afa örugglega til trafala í lífinu að hann drakk stundum ótæpilega af fleiri lindum en lindum íslenskrar tungu. Samt var það ekki svo að hann hafi fallið af Alþingi þess vegna. Árið 1931 bauð Hriflu-Jónas fram í Norður-Þingeyjarsýslu á móti afa (sem þá var reyndar í Framsóknarflokknum, þó að ég held að hann hafi ekki verið Framsóknarmaður í raun). Ástæðan var sú að Helgi Tómasson geðlæknir, svili afa, varð óvinur Jónasar eftir að Helgi benti á að Jónas væri orðinn geðveikur.

Mótframbjóðandi afa var Björn Kristjánsson, kaupfélagsstóri á Kópaskeri, en hann og afi voru frændur. Í bréfi afa til Guðrúnar ömmu frá árinu 1931 segir hann frá kosningabaráttunni og dulmáli sem hann ætlar að nota:

„Eg síma eftir fundina. Ef eg nefni Benediktsdœtur, þá merkir það, að mér falli heldur í vil, annars aðeins Ólöf Guðrún. Ef eg minnist á veðráttu merkir það harða fundi og rifrildi, gróður merkir að eg telji mér veita betur (hvort sem eg segi mikill eða lítill).-Ef eg segist ,,síma seinna“ merkir, að eg sé alveg vonlaus. [Björn Kristjánsson, mótframbjóðandi afa, var símstöðvarstjóri og sveitasíminn var opinn þannig að allir heyrðu].

-Björn er sagður hinn öruggasti og ætti hann manna bezt að vita um horfur, því að hann hefir símann og stendur allra manna bezt að vígi að afla sér fylgis, og menn hans.“

Svo fór að Björn vann með miklum mun en sat aðeins eitt kjörtímabil. Ég hitti Ástu dóttur hans á Húsavík núna í október og það fór afar vel á með okkur.

Á kommóðu á Víkingavatni, þar sem frændur beggja bjuggu, eru enn þann dag í dag myndir að afa og Birni frænda hans hlið við hlið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.