Sameinumst um heilbrigða skynsemi

Nú er útlit fyrir að erfitt verði að mynda ríkisstjórn með skýra pólitíska stefnu. Þá er lag að flokkarnir sameinist um skynsamlegt markmið sem er öllum í hag: Betur rekið Ísland.

Okkur Íslendingum hættir til að telja að allt sé betra hér á landi en annars staðar. Og ekki að ástæðulausu því á mörgum sviðum er ástandið á Íslandi framúrskarandi. Margt má þó bæta og læra af öðrum þjóðum.

Um margt erum við nýjungagjörn og tileinkum okkur tækniframfarir hratt. Líklega höfum við verið mörgum öðrum fremri í tölvu- og upplýsingabyltingunni á fyrstu árum hennar. Nú bendir margt til þess að þjóðin hafi dregist afturúr í samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar ekki í efstu 25 sætunum og hafa ekki verið undanfarinn áratug. Mörg störf í upplýsingatækni eru á leið úr landi á sama tíma og við flytjum inn vinnuafl til starfa sem krefjast lítillar menntunar.

Líklega misstum við af gullnu tækifæri í hruninu til þess að stórbæta stöðu þjóðarinnar á þessu sviði. Í kreppu þarf að leita tækifæra til þess að auka framleiðni til lengri tíma litið. Það hefði verið hægt að gera með því að fjárfesta í upplýsingakerfum, til dæmis betri rafrænum sjúkraskrám, vegabréfum sem sækja mætti um á netinu og fá afhent samdægurs og einföldun annarra samskipta við hið opinbera.

Um aldamótin hafði nánast hver einasti Íslendingur aðgang að netinu. Maður brosti í kampinn og fannst sem aðrar þjóðir væru fastar á steinöld. Ég heimsótti nýverið fjármálaráðuneytið á Ítalíu. Þar í landi var fimmtungur með aðgang að netinu um aldamótin, en nú hafa Ítalir tekið fram úr okkur á ýmsum sviðum. Sérstaklega getum við lært eitt og annað af þeim í rafrænni stjórnsýslu.

Sumum finnst nóg um þá stefnu að lækka skuldir ríkisins svo Ísland verði skuldlaust eftir áratug. Vissulega þarf að vera jafnvægi á milli uppbyggingar og niðurgreiðslu, en Liechtenstein, bandalagsríki okkar í EFTA, er skuldlaust og borgar þar af leiðandi enga vexti. Ríkið getur veitt öllum útgjöldum til þarfari málefna en vaxtagreiðslna. Litlar skuldir Ríkissjóðs Íslands fyrir hrun eru ein meginástæðan fyrir því að ekki fór enn verr, því að ríkið gat tekið lán á ögurstundu. Þegar hagvöxtur minnkar og atvinnuleysi eykst — og það mun gerast fyrr eða síðar — er lykilatriði að ríkið hafi svigrúm til að taka lán fyrir fjárfestingum. Það geta bæði verið hefðbundu innviðaframkvæmdirnar eins og vegagerð, hafnbætur og lagning raflína, eða þær óáþreifanlegu eins og forritun og uppbygging upplýsingakerfa.

Allir segjast vilja stöðugleika. Nú er lag fyrir flokkana að sameinast um skynsamleg almenn markmið um bættan rekstur ríkisins og hófsamar launahækkanir sem varðveita kaupmátt almennings. Slík stjórn gerir að minnsta kosti ekki ógagn.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2017.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.