Af því að í dag eru 100 ár frá byltingunni í Rússlandi er ekki úr vegi að rifja upp hvernig íslenskir kommúnistar töluðu fyrir 45 árum eða svo.
Stéttabaráttan var aðallega seld fyrir utan ríkið af skeggjuðum mönnum í grænum gæruúlpum. Alþýðubandalagið sem hér er nefnt er forveri Vinstri grænna (og Samfylkingar að hluta til). Í Fylkingunni voru ýmsir sem síðar lögðu stund á hagfræði og fleiri vísindi. Sumir eru kunningjar mínir og enduðu í Samfylkingunni. Þeir töluðu á þeim tíma svipað og KSML kommúnistarnir sem hér er vitnað í. Núna finnst manni þetta skemmtilestur og mér fannst það reyndar líka þá, en þeir töluðu svona í fullri alvöru. Sjúkrahús voru „viðgerðarstofnanir auðvaldsins“ og á Íslandi „háþróað kapítalískt samfélag.“
Hér er bein tilvitnun úr þessu ágæta riti í tilefni dagsins:
Það er hlutverk Stéttabaráttunnar að fletta ofan af þeim „sósíalistum“, sem veifa um sig róttækum slagorðum og þykjast vinna að falli auðvaldsskipulagsins. Þannig verður blaðið að benda á og sýna fram á, að Alþýðubandalagið er brúarsporður borgaranna inn í raðir verkalýðsins, þannig verður blaðið að benda á og sýna fram á, að „starfsemi“ Fylkingarinnar er ekkert annað en orðagjálfur. Blaðið verður að vinna gegn áhrifum smáborgaralegu sósíalistanna á verkalýðsæskuna og sanna henni, að það er aðeins hægt að nýta og virkja stéttarhatur hennar á réttan hátt í skipulögðu starfi fyrir sósíalísku byltinguna. Dagdraumar Fylkingarforkólfanna eru ekki spjót gegn auðvaldinu, þeir geta aðeins leitt öreigaæskuna inn á brautir, sem eru algjörlega meinlausar fyrir borgarana.