Hvers vegna fórstu í framboð hér?

Ég er stundum spurður þessarar spurningar. Margir vita að ég er fæddur og alinn upp í Reykjavík og hef búið þar alla mína tíð, ef undan eru skilin námsár erlendis. Hvaða tiktúrur eru það að þvælast út á land, ég tala nú ekki um að fara í framboð í stærsta kjördæminu? Sumir spyrja mig líka með hluttekningarrómi hvort ég hafi nokkurn tíma til þess að sinna kjördæminu og þegar ég svara með jái, þá er oft spurt hvort það sér ekki afskaplega erfitt.

Sumir svara svona spurningum á þann veg að margir hafi komið að máli við sig. Það get ég ekki sagt. Enginn skoraði á mig að fara í framboð fyrir austan og norðan. Ég bauð mig fram einfaldlega vegna þess að mig langaði til þess að vinna fyrir íbúa þessa svæðis. Pabbi er fæddur á Norðfirði og föðurfólkið mitt býr margt enn á Austurlandi. Þegar Reynir, föðurbróðir minn, kom í heimsókn til pabba ræddu þeir löngum stundum um málefni fjórðungsins. Það voru líflegar umræður, því þeir voru sjaldnast sammála um byggðamál, þótt þeir væru bestu vinir. Líklega hefur áhuginn á málefnum fjórðungsins kviknað þarna þegar ég hlustaði á þá spjalla.

Viðreisn á erindi á landsbyggðinni

Sumir voru vantrúaðir á að frjálslynd málefni Viðreisnar ættu upp á pallborðið í landsbyggðarkjördæmi, en ég verð að segja að um sumt er meiri skilningur í þessu kjördæmi en á höfuðborgarsvæðinu. Til dæmis er mikill áhugi á því að festa gengið í kjördæmi þar sem nær öll stóru fyrirtækin og mörg þau minni byggja á útflutningi eða starfsemi sem tengist honum. Bændur vilja margir skoða breytingar á landbúnaðarstefnunni í þá átt að gera greinina sjálfbærari, þó að forustumenn ríghaldi í aðferðir hins gamla tíma.

Ég er sannfærður um að fólk í hinum dreifðu byggðum þarf að eiga sína fulltrúa á Alþingi. Þess vegna hef ég hafnað hugmyndum um að gera landið að einu kjördæmi.

Sterk tengsl við kjördæmið

Ég hef ekki talið ekki eftir mér að aðstoða fólk, fyrirtæki eða bæjarfélög víðs vegar að í kjördæminu, hvort sem það er frá Djúpavogi, Mývatni eða Dalvík. Mér finnst gaman að hitta fólk og heyra um áhugamál þess, velgengni og vandamál. Skiptir þá engu hvort íbúinn er sex ára eða níutíu og sex ára. Þótt ég segi sjálfur frá hef ég verið mjög virkur sem þingmaður kjördæmisins. Mér telst svo til að á þeim níu mánuðum sem liðnir eru síðan ég tók sæti í ríkisstjórn hafi ég komið 26 sinnum í kjördæmið og heimsótt alla byggðakjarna þess. Ég hef eignast marga vini og kunningja og hef lagt áherslu á að setja mig inn í málefni svæðisins, í samgöngum, fjarskiptum, heilbrigðis- og skólamálum.

Skýr framtíðarsýn fyrir Austurland

Ef við viljum ná stöðugleika til frambúðar á Austurlandi þurfum við framtíðarsýn. Þá sýn setti ég fram hér í blaðinu fyrir skömmu. Þar lagði ég áherslu á góðar samgöngur innan svæðisins, greitt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu með flugi og trausta nærþjónustu, til dæmis í skóla- og heilbrigðismálum. Við þurfum að efla skóla í heimabyggð og tryggja öruggt aðgengi að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Tækifærin eru mörg fyrir Austurland.

Til þess að tryggja hagsmuni Austurlands þarf öfluga þingmenn sem sinna sínu starfi af áhuga og alúð. Það hef ég reynt að gera og vona að kjósendur treysti mér til þess að gera það áfram á næsta kjörtímabili.

Birtist fyrst í Austurlandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.