Fyrir rúmlega þremur árum gerðust þeir atburðir í íslenskri pólitík að mér var misboðið. Þáverandi ríkisstjórnarflokkar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákváðu að ekki væri nóg með að þeir stæðu ekki við kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið heldur slitu beinlínis viðræðunum. Sjaldan hafði ófyrirleitin pólitík komið fram með jafn afgerandi hætti á Íslandi.
Hópur fólks tók höndum saman og vann að stofnun stjórnmálasamtaka sem í fyllingu tímans hlutu nafnið Viðreisn. Ég hef allt frá upphafi unnið kappsamlega að starfi þess flokks og má segja að síðan hafi ég lagt nótt við dag að vinna hugsjónum flokksins framgang. Okkur dreymdi um málefnalega baráttu þar sem almennahagsmunir væru jafnan í fyrirrúmi, við myndum segja úreltum kerfum í landbúnaði, sjávarútvegi og gjaldeyrismálum stríð á hendur.
Hvers vegna þurfa Íslendingar að borga miklu meira í vexti en aðrar þjóðir, hvers vegna þurfum við að hafa krónu sem sveiflast eins og lauf í vindi, hvers vegna þurfum við að hafa stjórnmálamenn sem sífellt hugsa um hag úreltra kerfa í stað hagsmuna almennings?
Í kosningunum í fyrra náði Viðreisn rúmlega 10% fylgi og settist í kjölfarið í ríkisstjórn eftir langar stjórnarmyndunarviðræður. Í stjórnarsamstarfinu hefur ýmislegt bjátað á, en fulltrúar Viðreisnar hafa unnið ötullega í sínum málaflokkum, bæði á Alþingi og í þeim ráðuneytum sem flokknum voru falin. Við höfum afburða frambjóðendur og stefnumál okkar eru góð.
Við getum horft stolt um öxl. Við náðum mörgu fram á skömmum tíma, en alls ekki öllu, enda ekki tilviljun að kjörtímabil eru fjögur ár en ekki eitt. Stóru málin okkar eru nú loksins komin á dagskrá, í fyrsta sinn í Íslandssögunni. Ríkissjóður stendur vel og vaxtabyrði þjóðarinnar fer lækkandi.
Þrátt fyrir það hefur gengi flokksins ekki verið gott í skoðanakönnunum að undanförnu.
Við horfum líka af miklum metnaði fram á veginn. Það má ekki gerast að rödd frjálslyndisins þagni á Alþingi. Þess vegna ákvað ég í gærkvöldi í samráði við fjölskyldu mína að víkja úr embætti formanns. Málefni Viðreisnar eru miklu mikilvægari en mín staða. Í dag var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kjörin formaður í minn stað á fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar. Þorgerður hefur allan minn stuðning og ég vænti þess að kjör hennar verði upphafið að nýrri sókn okkar til verðskuldaðs sigur.
Ég ætla að halda áfram í framboði í Norðausturkjördæmi. Mér finnst mikilvægt að fá umboð til þess að starfa áfram fyrir kjósendur á þessu víðfema svæði sem þekur 38% landsins. Málefni kjördæmisins eru mér hjartkær, en auðvitað njóta íbúar kjördæmisins líka stefnumála okkar á landsvísu, stöðugleika, gegnsæis, jafnréttis, lægri vaxta og hagstæðara húsnæðis- og leiguverðs. Við berjumst fyrir stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og að við getum tekið upp stöðugan gjaldmiðil með lágum vöxtum. Það skiptir kjördæmi sem byggir á útflutningi meginmáli.
Við berjumst áfram fyrir alla – ekki bara suma.