Hvers vegna ertu að segja mér þetta?

Fyrir nokkrum vikum fór ég austur á Norðfjörð til þess að fara í gönguferð handan fjarðarins frá bænum séð, út í Barðsnes. Ég er ekki sá allra kaldasti á sjó, svo að mér leið betur þegar ég vissi að það var frændi minn Sigurður Kári Jónsson Zoega sem ætlaði að ferja okkur yfir.

Við ókum út að safnahúsi, Sigurdur Olafsson göngufélagi minn og ég. Safnahúsið er við bryggju þar sem Gerpir NK, lítil trilla, lá við viðlegukant. „Það er ekki svo slæmt að sigla yfir flóann í þessu“, sagði ég við sjálfan mig, en Sigurður Kári Jónsson, sonur Steinu frænku minnar , var búinn að lofa að sigla með okkur yfir. Hann kom með tvær dætur sínar, Steinunni Maríu og Ragnhildi, líklega 3-6 ára.

Sigurður lagði áherslu á að ég þyrfti að vera í vatnsheldum buxum á leiðinni yfir og þegar ég sá að við áttum að fara yfir í gúmmíbát skildi ég hvers vegna. Við fórum í björgunarvesti og Siggi Kári útskýrði hvað við ættum að gera „þegar við dyttum út í“.

Ferðin sjálf var ekki svo slæm, en skipstjórinn sagði sögu af því þegar hann var með félaga sínum á leið frá Seyðisfirði til Norðfjarðar. Þegar þeir eru rétt komnir út úr firðinum, út á reginhaf, stoppar mótórinn. Einmitt það sem ég þurfti að heyra á gúmmíbát þegar við sleiktum öldurnar og aðeins pusaði á okkur.

Báðir spyrja samtímis: „Tókst þú ekki bensín?“ og svarið var því augljóst. Báturinn flýtur á leið til Færeyja.

Talstöðin er dregin fram og í ljós kemur að hún er biluð. Áttin er af landi og öldurnar hækka eftir því sem bátinn ber lengra. Ekkert að gera nema varpa út akkerinu.

Þeir komast að því að dýpið er meira en 100 metrar, því að svo löng var akkerisfestin. Færeyjar nálgast enn. Þegar hér var komið sögu hugsaði ég: „Hvers vegna ertu að segja mér þetta?“

Það vill svo til að þeir vissu talsvert í sinn haus um talstöðvar og eftir hálftíma fikt ná þeir sambandi við umheiminn og í fyllingu tímans berst þeim hjálp.

Þessi saga jók ekki endilega ánægjuna af bátsferðinni, en hún var reyndar ekki mjög löng, líklega 15-20 mínútur. Við komumst í land í einhverju skeri sem Siggi sigldi að og hélt bátnum þar. Reyndar gekk þetta vel og við komumst auðveldlega upp á skerið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.