Systurnar dótturdætur mínar voru í heimsókn. Við eldhúsborðið er talað fagurt mál og líka talað tungum. Og svo er auðvitað rökrætt.
Vigdís (7 ára): Þetta vínarbrauð er ljúffengt.
Anna Lilja (4 ára): Delicious. [Alltaf öruggara að láta enska þýðingu fylgja því alls ekki víst að afinn þekki flókin orð eins og ljúffengt.]
Afi: Mikið talið þið fullorðinslega systur. Þið eruð líka orðnar svo stórar.
Steinunn María (2 ára): Ég er líka stór.
Afi: Já auðvitað, en systur þínar eru orðnar stærri.
Steinunn María: Ég er líka stærri.
Afinn gafst upp.