Allt gekk slysalaust til borgarinnar, en þegar þangað var komið tóku við venjulegar mjóar og kræklóttar götur. Þegar komið var að strandveginum sagði ég við Vigdísi:
„Þú manst að borgin er lokuð fyrir bílum.“
Ekkert svar.
Þegar skiltið við veginn sagði 2,20 metrar, spurði ég:
B: „Ertu viss um að við komumst þetta?“
Svar: „Þú sérð að það er bíll á undan.“
B: „En það er leigubíll, þeir hafa kannski sérstök réttindi.“
V: „Gúgúll segir áfram.“
B: „En nú er þrenging á veginum, hann er bara tveir metrar.“
V: „Gúgúll segir áfram.“
Leigubíllinn beygði inn á torg þar sem voru mörg hundruð manns.
V: „Þú sérð að hér er strax auðveldara að aka.“
Leigubíllinn skilaði af sér farþeganum og sneri við.
B: „Heldurðu að við ættum ekki að snúa við?“
V: „Nei, hér ferðu út af torginu til hægri.“
Ég gerði eins og mér var sagt. Hitinn var 33° samkvæmt bílmælinum og engin kæling.
B: „Við komumst varla milli húsanna, hér er varla bílbreidd.“
V: „Opnaðu gluggann og legðu spegilinn að bílnum.“
Hún var búin að opna sín megin og ég gerði auðvitað eins. Fyrir framan okkur var skelfingu lostið fólk sem mundi eftir því að bílar höfðu verið notaðir sem vopn í stórborgum undanfarið ár. Þegar gömul kona leit inn í bílinn og sá að við stýrið var fölleitur maður með grátt hár hvarf þó skelfingarsvipurinn og hún kreppti hnefann í staðinn. Annað fólk flúði til beggja hliða og forðaði sér inn í húsasund.
V: „Gúgúll segir áfram.“
Svitinn lak af mér og konur með barnakerrur gripu afkvæmin og felldu kerrurnar saman.
B: „Þetta er ekkert sniðugt lengur.“
V: „Þetta er að styttast.“
Strætin eru öll frá tímum Rómverja og ekki hönnuð fyrir nútímabifreiðar. Auk þess að vera allt of þröng, þannig að ég fór að óttast um að rispa bakhliðina á speglunum. Það var engin leið að flýja, það voru engin hliðarstræti og þau fáu port sem birtust lágu inn á kaffihús eða bari.
Loks kom brekka til hægri. Ég beygði þrátt fyrir að Vigdís segði hátt og skýrt: „Beint áfram.“ Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um hvert þessi leið lá, en hún lá að minnsta kosti út úr götunum sem voru fullar af fólki.
V: „Gúgúll sagði áfram.“
Ég var kominn nærri taugaáfalli og óskaði einskis eins heitt eins og að við mættum ekki bíl. Skyndilega blasti við veggur framundan, en sem betur fer var skörp beygja á veginum, svo kröpp að ég drap á bílnum. Hann rann hægt aftur á bak, en ég þreif í handbremsuna og upp gaus gúmmífnykur mikill, en bíllinn stoppaði. Ég svissaði á aftur og reyndi að muna hvernig maður átti að starta bíl í brekku. Það gekk og við fundum bílastæðahús utan göngustígakerfisins.
Það var með mikilli ánægju sem ég bar tvær tuttugu og fimm kílóa ferðatöskur þennan hálfa kílómetra að hótelinu. Þar skipti ég um föt og setti upp dökk sólgleraugu til þess að enginn þeirra sem forðaði sér frá bílnum í svaðilförinni myndi þekkja ökuníðinginn á götu.