Fjallgöngur eru fíkn. Þó að maður sé ekki í toppformi verður maður að fara. Á leiðinni upp hugsar maður samt oft: „Hvers vegna í fjandanum var ég að þessu?“ Svo nær maður á tindinn og fær svarið. Það fylgir því einhver unaður að ná á toppinn. Ganga á jökli í sólskini er alsæla, ef alsæla er til.
Í þetta sinn voru það Kverkfjöll sem kölluðu. Fyrir nokkrum árum vorum við á ferð í Öskju með vinum okkar. Þá fékk ég upphringingu frá félaga mínum sem spurði: „Hvers vegna skellið þið ykkur ekki í Kverkfjöll, fyrst þið eruð komin svona langt?“ Svarið var að við höfðum önnur plön, en þennan dag komust Kverkfjöll á langtímaplanið.
Kverkfjöll eru ekki sérlega vel þekkt. Þau eru í norðanverðum Vatnajökli og fjögra tíma akstur af hringveginum austan Mývatns. Meira að segja síminn minn þekkti þau ekki og kann hann þó ýmislegt fyrir sér. Á leiðinni sendi ég einhverjum sms um að ég væri á leið út úr bænum í Kverkfjöll. Ekki tókst betur til en það endaði svona: „Er á leið í kvenfólk“. Síminn þykist þekkja mig svona vel og autocorrect [sjálfsritskoðun?] er hættuleg aukaverkun. Það er eins gott að engir fjölmiðlar fái veður af þessum skilaboðum (og ekki Vigdís).
Leiðin norður í land var greið og á Akureyri fórum við í sund. Á Akureyri er gaman að koma vegna þess að ég hitti marga vini og kunningja á þessum tæplega tveimur tímum sem ég kom við í þetta sinn, meðal annars Jón Óskar Ísleifsson ljósmyndara, vin minn, og stuðningsmann. Hann sagði öllum þeim sem heyra vildu og fleirum að ég væri Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Þessi dagur endaði við Grímsstaði þar sem við fengum fyrst dýrindis máltíð og svo gistingu sem ekki var lakari í Hólsseli.
Daginn eftir fórum við af alfaraleið, suður á bóginn. Fyrst stoppuðum við hjá kofa Fjalla-Bensa nafna míns. Af honum var lesin saga fyrir mig fyrir allmörgum árum og virkaði sem fínasta svefnmeðal. Í Herðubreiðarlindum skoðuðum að venju greni Fjalla-Eyvindar, sem hefur verið ósköp kuldalegt þó að þar renni kalt vatn.
Næsta stopp var Öskjuvatn, en frá bílastæði er þangað um hálftíma gangur. Víti er gígur með heitu vatni þar sem Þjóðverjar baða sig berrassaðir og syngja ættjarðarlög, en þar var lokað vegna þess að enn var klaki í hlíðum. Þannig að við fórum ekki sund eins og þó var ætlunin, en rauluðum að sjálfsögðu nokkur germönsk stef á gígbarminum.
Þó að Askja sé eitt þekktasta fjall Íslands og eitt þeirra skipa sem Skipaútgerð ríkisins hafði siglandi um landið, þá er hún eiginlega ekki fjall heldur gígur. Umhverfis gíginn (og vatnið sem í honum er) eru Dyngjufjöll, en þau þekkir enginn svo að við getum kallað þau Öskju. Síðast þegar ég var þarna á ferð láðist mér að ganga upp á efstu brún, en nú var ég staðráðinn í því að klikka ekki á því aftur. Gangan virtist heldur ekki vera nema 10 mínútur neðanfrá séð, svo að við skelltum okkur á tindinn. En á fjöllum er sjaldnast allt sem sýnist, tindur var á bakvið þann tind sem við sáum og gangan upp tók alls rúman hálftíma, sem er auðvitað engin goðgá. Allt gekk vel þangað til á toppinn var komið. Þar hrasaði ég um stein og hruflaði mig, en meiddist ekki að ráði og staulaðist aftur á fætur. Gengum svo niður skáhallt niður hlíðina í átt að bílastæðinu, skárum nokkra skafla, sem ekki var alltaf auðvelt því að víða var klaki á endanum og auðvelt að skrika fótur.
Í Drekagili er árspræna sem var óvenju vatnsmikil í þetta sinn og þar þurftum við að stilka á steinum. Inn við foss innst í gljúfrinu sat gúrú (alvöru maður) uppi á steini og hugleiddi. Hann virtist ekki verða var við okkur og mér hugkvæmdist hvorki að spyrja hann um tilgang lífsins eða taka af honum mynd, þannig að eftir á að hyggja er spurning hvort hann var raunverulegri en drekarnir sem nú eru orðnir að steini.
Skáli Ferðafélagsins í Kverkfjöllum er glæsilegur og hýsir á áttunda tug gesta þegar fullt er. Fyrstu nóttina nauðaði og hvein í kofanum í vindrokunum af jöklinum. Ferðafélagar mínir fóru flestir á fætur fyrir átta og klukkan hálfníu gaf Smári félagi minn sig líka. Ég hugsaði: „Þú líka Brútus!“ og rölti tregur á eftir honum niður. Undir morgunverði var ákveðið að ekki væri nokkurt vit að halda út í þessum hryðjum. Niðurstaðan var að leggja af stað upp úr hádegi í ferð að upptökum Jökulsár á Fjöllum.
Ég var enn þreyttur eftir byltuna í Öskju, fagnaði þessari góðu ákvörðun og mætti vel hvíldur í gönguna um 12.30. Við gengum framhjá íshelli sem myndast þar sem eru upptök Volgu, ár sem kemur undan jöklinum og jarðhiti í. Alltaf hrynur úr loftinu og maður sá í gættinni klump á stærð við lítinn kofa og ofan við hann gat í jöklinum. Sá sem þarna fer inn gæti flast út á augabragði.
Undir stórum kletti á leiðinni var lítill hellisskúti eða glufa. Þar voru beinagrindur af kind og tveimur lömbum sem hafa leitað þar skjóls í vetur. Áður höfðu þar fundist tvær hauskúpur (af kindum) þannig að þetta er þekktur staður til þess að bera beinin. Heldur nöturleg sýn, en fyrir framan skútann var smá gróðurbleðill, sem líklega hefur myndast af því sem upp og niður úr kindunum hefur gengið. Annars er þarna eyðimörk.
Loks komum við að jökulá, kvísl sem fellur í þá stóru, og þurftum að vaða upp að hnjám. Skálinn bjó svo vel að bjóða upp á vaðskó sem komu sér vel. Vatnið var ískalt og við Vigdís gengum saman, öxl í öxl, supum hveljur en komumst yfir eftir rúmlega mínútu göngu. Á bakkanum hinum megin sátum við skjálfandi og nötrandi og komum okkur aftur í sokka og skó og leiðsögumaðurinn sagði: „Jæja, þá er ferðin á enda og við getum snúið við.“
Þessi húmor olli augnabliks skelfingu hjá sumum, en þeir sem höfðu kraft til hlógu dátt eins og til var ætlast.
Þá var stutt í upptök Jökulsár, sem eru undarleg. Litlar sprænur koma úr jöklinum að sunnan, en straumurinn undan Dyngjujökli, mikill vatnsflaumur sem sagður er sá mesti á Íslandi. Jökullinn er rákóttur og svartur. Víða eru svartir, litlir þríhyrningar sem standa upp úr jöklinum, sérkennilegar strýtur. Þetta eru jökulstrýtur eða drýli. Strýturnar geta víst verið litlar þúfur og allt upp í mannhæðarháar.
Við jökultunguna er lítill foss og neðan við hann stór ísflykki sem hafa brotnað úr sporðinum. Aðeins eru örfá ár sína þarna voru upptök árinnar, en nú gengum við eftir gili sem þar farvegur Jökulsár var áður. Í gljúfrinu hefur verið myndarlegur foss þar sem nú er eftir tær hylur neðan við snarbratta kletta, líklega um 10 metra háa.
Við röltum til baka og þá hafði rofað mjög til svo að á stöku stað vorum við í sólskini. Vaðið til baka var mun skaplegra en á fyrri leiðinni. Svo má illu venjast að gott þyki, en því höfðum við ekki náð enn. Gangan var um fimm og hálfur til sex tímar í allt.
Daginn eftir var rjómablíða og þá hófst hin eiginlega ganga upp á jökulinn, gangan sem var markmiðið með ferðinni. Þetta er alvöru jökulganga með mannbrodda frá fyrsta skrefi og auk þess vorum við með betli til þess að fara í línu. Eftir um klukkutíma vorum við komin yfir skriðjökulinn og hófum göngu upp Löngufönn (sem bar nafn með rentu) sem leiðsögumaðurinn taldi að tæki um klukkutíma að klífa en eftir einn og hálfan tíma, þegar við áttum kannski eftir tvær þrjár mínútur eftir upp á áningarstað, var ég alveg búinn að vera, gekk á vegg eins og maraþonhlaupari. hafði tapað allri orku og þurfti að stoppa. Ég hugsaði með mér eins og í ljóðinu dýra: Ég veit ekki hvort eða hvernig, eða hvenær ég kemst heim.
Einn ferðafélaginn greip til sinna ráða, skipti um sólgleraugu við mig og gaf mér orkudrykk, en ég afþakkaði sviðasultu (svo máttlaus var ég ekki). Á tíu mínútum náði ég aftur þokkalegum krafti. Svo gengum við áfram þessa fáu metra sem eftir voru upp á brún og þá tók við löng brekka með tiltölulega litlum halla. Ég lifði það af og eftir um klukkutíma vorum við komin á stað þar sem við sáum yfir Hveradal, sem er hverasvæði á miðjum jökli.
Leiðsögumaðurinn vildi ganga niður að lóni sem er kallað Gengissig. Einhverjum hefur þótt það fyndið á sínum tíma. Lónið er reyndar mjög glæsilegt, en við tveir félagarnir ákváðum þó að halda okkur efst í brekkunni og horfa yfir það. Allt í einu heyrðist dynjandi hávaði og ég hélt að gos væri að byrja, en þá var smáísblokk að brotna úr ísnum, en ég sá ekkert. Þar er heitur hver við ströndina og þarna mætast eldur og ís.
Vigdís sagðist eftir á að hyggja hafa verið svo þreytt að hún hefði ekki komist upp nema vegna þess að leiðsögumaðurinn hjó spor upp fyrir hana. Það hefði verið gaman ef hún hefði verið eftir. Maður sér fyrir sér fyrirsagnirnar: Fjármálaráðherra skilur eftir eiginkonu sína í Gengissigi.
Áfram hélt gangan, en nú niður á við að mestu leyti. Næsti áfangastaður var stakt hverasvæði þar sem upp stíga eitraðar strókar. Í fönninni við svæðið er íshellir, aðgengilegur öllum, en fullur af brennisteinsgufum. Sagan segir að franskir vísindamenn hafi farið inn í hann með súrefniskúta á baki til þess að kanna hve djúpur hann er, en engar sögur fara af niðurstöðum. Við biðum stundarkorn til þess að vita hvort þeir kæmu ekki út aftur, en ekki var það meðan við stöldruðum við.
Skáhallt niður hlíðina mjökuðumst við öll í taumi og varð nokkrum sinnum fótaskortur því við sukkum sífellt í snjóinn, en engum varð meint af. Legghlífin mín var ónýt og flettist fram og ég hnaut nokkrum sinnum um hana, síðast þegar við áttum örstutt eftir að bílnum. Þá féll ég með slíkum glæsibrag að leðjan slettist framan í mig, en jafnaði mig þegar ég náði að skyrpa og skola munninn.
Þúsund metra hækkun og önnur eins lækkun eru ágætt dagsverk. Vökvatapið var miklu meira en þessi eini og hálfi lítri sem ég drakk á leiðinni, en dagleið á fjöllum í 1.799 metra hæð er vel þess virði. Ég hefði jafnvel verið til í að leggja aðeins meira á mig fyrir metra í viðbót. Höfuðið komst að minnsta kosti í 1.800 metra yfir sjávarmál.