Þegar hatrið nær yfirhöndinni

Ég er að lesa óvenjulega bók. Eða líklega ætti ég að segja að ég væri að blaða í henni, ég á erfitt með að lesa nema mjög stutta kafla í einu. Bókin heitir Stríðsbörn eða Children of War og er birting á dagbókum rússneskra barna í stríðinu 1941 til 1945. Í stríði eru mörg fórnarlömb og fáar hetjur. Sovétríkin voru á þessum tíma undir stjórn Stalíns, einhvers versta harðstjóra allra tíma. En flest börn urðu lítið vör við það. Þó að þær fjölskyldur skiptu milljónum sem misstu einhvern í aftökuklefann eða gúlagið þá voru hinar miklu fleiri sem einfaldlega lifðu sínu lífi. Ríkið og Stalín einfaldlega voru. Flestir Sovétmenn hafa eflaust fagnað þegar Stalín og Hitler, annar ömurlegur illvirki mannkynssögunnar, gerðu með sér griðasáttmála í ágúst 1939. Sáttin sú var um að skipta Póllandi milli stórveldanna og leyfa Rússum að ráðast á Finnland. Fáir fylgismenn leiðtogans mikla hafa haft áhyggjur af því að saklausir borgarar lentu í ólýsanlegum þrautum þegar Rauði herinn flæddi yfir landamærin.

En í stríði eru börnin ekki spurð álits. Að minnsta kosti örugglega ekki börnin sem ráðist er á.

Yura Ryabinkin var 15 ára sumarið 1941 og þann 22. júní fór hann í skákklúbbinn sinn í Leníngrad eins og venjulega. Það var eitthvað skrítið í gangi. Lögregluþjónar voru með gasgrímur og margar leiðir voru lokaðar. Allt í einu sá hann að hópur hafði safnast saman í kringum strák sem sagði fréttir. Klukkan fjögur um morguninn höfðu þýskar herflugvélar hafið árásir á margar borgir. Molotov utanríkisráðherra lýsti því yfir að Sovétríkin væru í stríði við Þýskaland.

Yura, sem líklega var svolítill nörd, trúði ekki sínum eigin eyrum. Þýskaland hafði ráðist á Sovétríkin. Samt tefldi hann þrjár skákir og vann þær allar. Lífið hélt áfram.

Smám saman fór lífið að breytast. Fleiri og fleiri færslur snerust um mat. Yura kaupir sér samt skákbækur og lærir hvernig á að máta með riddara og biskup. En hann þarf að rífast um matinn. Mamma hans skiptir á tveimur bjórflöskum og 400 grömmum af brauði. Daginn eftir fer hann í bíó og les. „Heima er kalt og ekkert til að borða. Á sama tíma.“

Systir hans fær bauga undir augun og verkjar í síðuna. Þjóðverjar varpa niður flugritum þar sem þeir segjast ætla að jafna Leníngrad við jörðu. Alls staðar eru biðraðir eftir mat. Sérstaklega salti.

5. nóvember Fólk segir að 24. byltingarafmælið [7. nóvember] muni breyta öllu!

Hvað er maðurinn, líf einstaklingsins? Hvað er það þegar allt kemur til alls? Gamalt máltæki segir „Lífið er ekki eins kópeka virði.“ Hve margir hafa lifað á undan okkur og hve margir dáið á undan okkur? En það er allt í lagi að deyja ef maður veit og finnur að maður hefur náð því takmarki sem maður setti sér í æsku eða þegar maður var barn. … Hvað vill Hitler? Vill hann skapa sitt eigið stórveldi, þar sem framtíðarkynslóðir munu bölva honum? Vegna örfárra ævintýramanna láta núna milljónir manna lífið! Fólk!!! Alvöru fólk!!!

Byltingarafmælið breytti engu.

Yura kveður æskudraumana og minnist þess hvernig hann var einu sinni hamingjusamur og þurfti ekki að hugsa um hvers virði brauð og spægipylsa væru í raun og veru.

Í desember er hann farinn að velta því fyrir sér að fyrirfara sér. „Mun ég raunverulega drepa mig? Geri ég það? Ef ég bara gæti borðað! Ég vil mat! Mat!

3. janúar 1942 „Þetta verður næstum síðasta færslan í dagbókina. Ég er hræddur um að ég geti hvorki klárað þessa færslu eða dagbókina, að ég nái ekki að skrifa „Endir“ á síðust blaðsíðuna. Einhver annar skrifar „Dauði“. … Mamma er orðin svo hörkuleg núna. Stundum lemur hún mig og hún er alltaf að öskra. Samt get ég ekki áfellst hana. Ég er sníkjudýr, byrði fyrir hana og Iru. Dauðinn, dauðinn blasir við mér. Og ég á enga von, bara óttann um að móðir mín og systir deyi með mér.“

6. janúar. „Ég er eiginlega ófær um að ganga eða vinna, á nánast engan mátt eftir. Mamma getur varla gengið heldur. Núna skil ég varla hvernig hún kemst nokkurt. Hún er alltaf að berja mig, skamma mig og hrópa. Hún fær þessi reiðiköst og þá þolir hún varla að sjá mig, þessa gagnslausu manneskju, orkulausa, hungraða og þjáða, sem varla kemst frá einum stað í annan, alltaf fyrir henni og „þykist“ vera veikur og bjargarlaus. En bjargarleysið er enginn leikur. Alls ekki! Það eru engin látalæti, ég er að missa allan mátt, hann fjarar út, hverfur. Og tíminn líður, áfram og áfram, svo lengi, svo lengi … Ó Guð, hvað er er að verða um mig?“

Dagbókin endaði þarna og það skrifaði enginn Endir eða Dauði. Mamman og Ira komust í burtu frá Leníngrad og skildu Yuri eftir ósjálfbjarga. Nokkrum dögum seinna dó móðir hans, sem var orðin rugluð, en Ira, litla systirin átta ár, lifði af og varð seinna kennari í Leníngrad. Hún var enn á lífi árið 2015.

Sagt er frá þriggja til fjögra ára dreng, Igor Khitsun. Igor var á barnaheimili í Leníngrad þar sem ein fóstran hafði saumað litla kisu úr klútum. Lítið var um leikföng og kisan í miklu uppáhaldi. Einhvern tíma gall við loftvarnarflauta og hópurinn flýtti sér í næsta loftvarnarbirgi. Igor litli fékk að halda á kisunni.

Á leiðinni féll sprengja nálægt hópnum og brot úr henni skaust í fótinn á Igor og tætti hann af fyrir neðan hné. Barnið leit á stúfinn og sagði við fóstruna: „Fröken, þeir verða fljótir að sauma fótinn á aftur, manstu hvað þú varst snögg að sauma kisuna?“

Roma Kravchenko var 15 ára Úkraínubúi. Hann átti kærustu sem var gyðingur og kallar hana F. Þjóðverjar hafa hernumið bæinn sem þau búa í og hann þarf að hitta F. á laun.

17. júlí 1941. Í morgun fór ég að hitta F. Nú hefur verið gefin út skipun um að allir Gyðingar þurfi að vera með hvítt armband með Davíðsstjörnunni á. Þeir verða þrælar Þýskalands. Aumingja F. Hvað verður um hana? Lifir hún af? Og hvernig ætli þetta sé fyrir Gyðingana, fyrir F? Hún segist vona að þeir drepi hana. …

21. ágúst. Frá og með 20. ágúst mega Gyðingar ekki lengur ganga á gangstéttinni vegna þrengsla. Gatan er nógu góð fyrir þá. Og meira til. Ef Gyðingur og Þjóðverji mætast verður Gyðingurinn að víkja í fjögra metra fjarlægð frá Þjóðverjanum. Sekt við brotum á þessari reglu er 10.000 rúblur.

8. ágúst 1942 Allir búast við útrýmingu Gyðinganna í bænum. … Gestapo mennirnir eru komnir aftur. Þeir hafa tekið hundrað skóflur úr verksmiðjum og víðar. Það virðist nægilega skýrt. …

Þessi úrþvætti eru svo ósvífin að kalla sig kristna. Á beltissylgjunni stendur meira að segja: „Gott mit uns“.

19. ágúst. Í dag tóku þeir F. í burtu.

Ég á erfitt með að skilja tilfinningar mínar. Ég finn hræðilega til og skammast mín. Skammast mín fyrir þá sem horfa á svipbrigðalausir eða með illgirnisglýju í augum. „Jæja svo hann vorkennir Gyðingunum. Meiri vitleysingurinn.“ …

Meðan ég er að skrifa þetta heyri ég skothvelli frá fangelsinu. Aftur! Kannski var einn þeirra ætlaður F. Æi, nú er betur komið fyrir henni. En nei, það er rangt. Nú er hún ekkert og hvergi.

Kannski er sorglegasta dagbókin sú stysta. Tanya Savicheva bjó í Leníngrad. Hún skrifaði bara níu færslur í dagbókina sína:

Zhenya dó 28. des. klukkan 12 á hádegi. 1941

Amma dó 25. jan. klukkan 3 e.h. 1942

Lyoka dó 17. mars klukkan 5 f.h. 1942

Vasya frændi dó 13. apríl klukkan 2 að nóttu 1942

Lyosha frændi 10. maí klukkan 4 e.h. 1942

Mamma 13 maí 7.30 f.h. 1942

Savichev fjölskyldan er dáin.

Allir eru dánir.

Tanya er ein eftir.

Enginn Þjóðverji þekkti neitt af þessu fólki fyrir stríðið. Hitler vissi aldrei að Tanya og fjölskylda hennar væri til. Þeir sem hentu sprengjunum áttu sjálfir mæður, systur og ömmur heima í Þýskalandi. Samt unnu þeir sitt verk fyrir flokkinn, foringjann og föðurlandið.

Einhvern tíma hefði einhver gefið út svona bók til þess að sýna að Þjóðverjar væru villimenn. Núna eru gefnar út svona bækur til þess að sanna að Arabar og Múhameðstrúarmenn séu illmenni.

Á fyrstu dögum Flórída, áður en ríkið varð hluti af Bandaríkjunum vildu margir eigna sér það. Um tíma var einkennisorð Flórída: Leave us alone! Flest venjulegt fólk vill vera í friði fyrir stjórnmálum sem þau hafa engan áhuga á þangað til …

Í dag var sagt frá stofnun Íslensku þjóðfylkingarinnar, flokks sem byggir á fordómum. Skiptir engu, segja margir. Örfáir vitleysingar.

Í Bandaríkjunum talar Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana niðrandi uml íslamista, konur, Kínverja. Nánast hvern sem honum dettur í hug þegar hann opnar munninn. Milljónir munu kjósa hann forseta.

Árið 1922 talaði New York Times um að Gyðingahatur Hitlers væri í raun bara leið til þess að fá fylgi.

Við sáum hvernig fór. Hatur, fordómar og lygar breyttu menningarþjóð í mestu glæpamenn sögunnar. Það gerðist þá og getur gerst aftur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.