Ég var á landsfundi um helgina og hann var líflegur. Það er gaman að sjá hve flokkurinn er skiptur. Vegna þess að fundurinn var sendur út á Netinu halda margir að uppstaðan af flokknum sé sérstæðir karakterar. Það er ekki rétt, en þeir tala meira en aðrir. Þeir virðast líka flestir hafa svipaðar skoðanir, hvers vegna sem það nú er.
Bjarni flutti flotta ræðu í upphafi fundar. Hafi verið vafi á úrslitum fyrirfram tryggði hann sér formennskuna með þessari ræðu. Tveimur dögum seinna töluðu þau bæði. Hanna Birna var þá með líflegri ræðu, en það spillti fyrir henni hve lengi hún talaði. Svo var hún líka svolítið væmin. Bjarni flutti stutta ræðu sem hann hefði mátt búa sig betur undir. Líklega hafði allt púðrið farið í fyrri ræðuna.
Svo var auglýst að Geir Haarde myndi tala. Það var skiljanlegt að hann vildi fjalla um Landsdómsmálið, sem er auðvitað fáheyrt hneyksli. Áður en Geir talaði var sagt frá því að Davíð Oddsson myndi líka ávarpa fundinn. Satt að segja er það svolítið hallærislegt ef það á að vera fastur liður á dagskránni að fyrrverandi formenn haldi aðalræður.
Davíð talaði fremur stutt. Hann var þreytulegur að sjá. Byrjaði ræðuna á Hannesi Hafstein, jafna sínum, og sagði svo nokkrar skopsögur í Staksteinastíl. Hann sagði ekkert sem ýfði upp sár eins og fyrir tveimur árum. Hann minntist ekki á Evrópusambandið en heldur ekki á málshöfðunina gegn Geir. Margir flokksmenn eru mjög hrifnir af honum, en þó held ég að það sé ofmat að hann hefði verið kosinn formaður hefði hann viljað.
Í leiðara Morgunblaðsins á mánudag segir: „En landsfundur ákvað engu að síður að gefa honum [Bjarna] annað tækifæri sem formaður í Sjálfstæðisflokknum. Áhrif Icesave-málsins munu smám saman verða þýðingarminni í mati flokksins á formanni sínum. Framganga hans í öðrum mikilvægum málum mun hafa meira að segja um traust og trúnað flokksmanna við hann. Framganga hans á landsfundinum gefur til kynna að hann gerir sér fulla grein fyrir þessari staðreynd og tekur mið af henni.“ Bjarni var sem sé ekki endurkjörinn heldur fær hann einn séns enn. Og hann mun haga sér í samræmi við það.
Geir talaði lengur. Ræðan var athyglisverð. Í henni rakti hann gang Landsdómsmálsins og mat margra á hans framgöngu í aðdraganda Hrunsins og eftir það. Hann upplýsti að einhverjir þingmenn segðust nú sjá eftir því að hafa stutt ákæruna. Ekki veit ég hverjir það eru, amk ekki Jón Bjarnason, Vigdís Hauksdóttir og aðrir hollvinir. Í lok ræðunnar stóðu allir fulltrúar upp og klöppuðu honum lof í lófa.
Bjarni vann sem sama fylgi og ég hafði spáð. Það varpaði svolitlum skugga á lok fundarins hve greinilegt það var að Hanna Birna var spæld. Hún hefur greinilega verið viss um að vinna og ekki búið sig undir tap. Hana vantaði yfirvegun á réttum tíma.
Ég vann í efnahagsnefnd og stýrði þar fundum. Þar komu fram fjölmargar breytingartillögur í nefndinni en á endanum var niðurstaðan einróma samþykkt. Landsfundur samþykkti hana líka einróma.
Fundurinn var að mörgu leyti hagstæðari í Evrópumálum en hægt var að búast við. Fyrirfram var vitað að meirihluti er á móti inngöngu og að það kæmi fram í niðurstöðum fundarins. Aftur á móti var það ákvæði sem mér og mörgum öðrum fannst erfiðast í ályktuninni 2010 fellt út. Mikill meirihluti felldi tillögu Tómasar Inga Olrich um að slíta viðræðum í skriflegri atkvæðagreiðslu. Svipuð tillaga frá Elliða Vignissyni var líka felld með miklum mun.
Mörgum finnst ályktun um hlé á samningum vera svipuð því að slíta viðræðum. Á þessu tvennu er þó grundvallarmunur. Ef viðræðum er slitið þarf að byrja þær aftur frá grunni. Ríki hafa hins vegar sett viðræður í salt áður. Malta gerði til dæmis fjögra ára hlé á samningaviðræðum meðan sósíaldemókratar (Samfylking) var við völd. Eftir að hægri menn tóku aftur við landsstjórn var málið klárað og samningur svo lagður fyrir þjóðina.
Rétt er að minna líka á orð formannsins í setningarræðu þar sem hann sagði: „Ef ríkisstjórnin þráast við, og heldur viðræðunum til streitu, er það að sjálfsögðu skylda okkar að beita okkur af alefli fyrir því að hagsmuna Íslands verði gætt í hvívetna í viðræðuferlinu.“
Með nýrri ályktun er það ekki lengur krafa meirihluta landsfundarfulltrúa að viðræðum sé slitið.
Í efnahags- og skattanefnd var eftirfarandi samþykkt::
„Peninga- og gjaldmiðilsstefnan er ein af grunnstoðum efnahagslífsins. Þjóðin kallar eftir agaðri efnahagsstjórn. Allsherjar þjóðarsátt og samræmd stefna í opinberum fjármálum og peningastefnu þarf að vera um hliðstæð skilyrði og Maastricht-skilyrðin þar sem verðbólga, langtímavextir, afkoma ríkissjóðs og heildarskuldir eiga að vera sambærileg og þekkist í helstu viðskiptalöndum Íslands. Með agaðri efnahagsstjórn er unnt að draga úr vægi verðtryggingar. Íslendingar verða að geta skipt um gjaldmiðil eftir 3– 5 ár ef þeim sýnist svo. Sjálfstæðisflokkurinn setji á fót nefnd sem kanni framtíðarskipan gjaldmiðilsmála á Íslandi.“
Flokkurinn er því að færa sig frá því að hér sé króna um alla framtíð og að slíta skuli viðræðum yfir í að álykta að menn skuli stefna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin og geta skipt um gjaldmiðil og að viðræðum skuli ekki slitið, heldur gert á þeim hlé.
Það sjá allir að ferlið er í vanda vegna þess hve ósamstæð stjórnin er. Þess vegna er best að ljúka málum sem ekki er ágreiningur um og geyma hin þar sem þörf er á átökum og samstöðu fram yfir kosningar. Það er engin ástæða til þess að þjóðin stöðvi samningaferlið þó að efnt verði til kosninga. Það er greinilegt að ferlið er svo erfitt að það getur reynst stjórnmálamönnum ofviða ef ekki liggur fyrir umboð frá þjóðinni.
Nú er að minnsta kosti fengin niðurstaða sem bindur ekki hendur forystu flokksins með jafnafdráttarlausum hætti og gert var sumarið 2011. Gagnvart Evrópusinnum er að sjálfsögðu enginn viðsnúningur en mikilvæg áherslubreyting.