Árna hef ég stiginn stikað (BJ)

Ég vaknaði við það á  árla að morgni sunnudags að formaður stjórnmálaflokks hringdi og spurði hvort við ættum ekki að ganga Árnastíg. Þó að ég þekki ekki öll ný hverfi í Reykjavík var ég býsna viss um að Árnastíg er þar ekki að finna, en gat ekki útilokað Hafnarfjörð sem býr yfir ýmsum undarlegheitum. Stíginn þann er þó heldur ekki að finna í kratabælinu heldur liggur hann frá Grindavík yfir Reykjanesskagann.
Ekki áttum við samt að ganga alla leið yfir skagann heldur aðeins að einhvers konar hlöðnu byrgi í hrauninu. Fyrst þurftum við að finna upphaf stígsins og það er skammt vestan Grindavíkur, rétt við golfvöllinn. Þar eru tvö skilti og annað segir Árnastígur 12 km. og hitt Prestastígur 16 km, ef ég man rétt. Þann stíg sá ég þó aldrei, kannski er hann falinn þessa dagana.
Við lögðum af stað rétt fyrir hádegi, innblásnir af Þorsteini Pálssyni og Guðna Th. Jóhannessyni sem rifjuðu upp skemmtilegustu stundirnar úr hruninu. Af því að við ætluðum bara að ganga í klukkutíma og snúa svo við höfðum við lítið nesti. Ég tók eina flösku af sódavatni og tvö Elitesse súkkulaðistykki, en sérfræðingar segja mér að þetta súkkulaði sé miklu nær gamla Prins pólóinu en það hrat sem nú er selt undir því heiti.
Ekki er margt af göngunni að segja framan af nema ekkert fundum við byrgið. Eftir hálftíma vorum við mjög mæddir og var farið að sundla, auk þess sem mér var mjög kalt því að ég hafði gleymt húfu og týnt vettlingum á leiðinni. Á næsta korteri varð samt það undur að af mér rann bæði mæðin og kuldinn. Að vísu náði ég treflinum upp fyrir eyru og var því farinn að minna á pólska fiskverkakonu, en sem betur fer voru engir til frásagnar um ferð okkar og búnað nema við sjálfir og sórum við þess dýran eið að segja engum frá ferðalaginu.
Þessi leið er vel merkt með rauðum stikum en ég veitti þeim ekki athygli fyrr en við gengum framhjá stiku númer 37. Vegurinn er víðast greinilegur Grindavíkurmegin og sums staðar breiður en hvergi beinn. Af því að ég var nú með stjórnmálaforingjanum breyttum við oft um stefnu og markmið.
Nýr vegur sker leiðina við stikur númer 70 til 80. Líklega liggur hann að borholu, þó að við könnuðum það ekki frekar. Mér fannst ég sjá rústir úti í hrauni en félagi minn fullyrti að þar væri ekki byrgið fræga. Skömmu síðar rauk hann út af stígnum að hraunjaðrinum en sú ferð var tilgangslaus. Nú var klukkutíminn liðinn en við ákváðum að ganga að stiku númer 100 sem var skammt undan. Þegar við komum að henni var stutt á milli stika, landslag fremur fallegt og við heitir, þannig að enn örkuðum við.
Af því að við giskuðum á það að við gengjum fimm kílómetra á klukkutíma og þeir voru liðnir tveir þegar hér var komið sögu tókum við afdrifaríka ákvörðun. Af Árnastíg gætu ekki verið nema tveir kílómetrar eftir og þá værum við komnir til Njarðvíkur. Var ekki tilvalið að biðja eiginkonu félaga míns (því ekki vildi ég fara að snúa Vigdísi um Suðurnesin) að sækja okkur.
Við gegnum út úr hrauninu og niður slóða sem liggur ofan í dal þar sem leiðin liggur milli tveggja lágra fjalla. Þá sáum við í sandnámu og fljótlega líka í rafmagnslínur. Allt fannst okkur þetta styðja kenninguna um að við ættu stutt eftir í menninguna.
Úr námunni hringdum við og það var auðsótt að skjótast eftir okkur. Við töldum líklegast að eftir væru um þrjú kortér af ferðinni (og reiknuðum þá með drjúgri stund fyrir okkur á bensínstöðinni). Einmitt þarna gerðum við okkar fyrsta feil. Við fylgdum stikunum framhjá malarnáminu, en auðveldara og fljótlegra hefði verið að fara þvert í gegnum hana. Þannig hefur leiðin líklega legið upphaflega þó að lögregluþjónarnir sem settu niður stikurnar (en vegurinn er merktur af vöskum hópi leynilögreglumanna sem segja frá starfi sínu á vefnum www.ferlir.is.
Skömmu síðar fannst okkur einkennilegt að stikurnar sem stundum lágu undarlega hlykkjótt virtust líka ná út í hraun, langt úrleiðis. Ég hélt að þarna væri kannski einhver merk þúst en það var ekki heldur vorum við komnir að öðrum stíg, Skipstíg. Það truflaði okkur ekki, en hitt þó meira að við vorum komnir á stiku númer 215 og klukkan farin að nálgast þrjú.
En nú bar vel í veiði, því að við komum þá einmitt að skilti sem því miður vísaði í þá átt sem við komum úr. Þar stóð einmitt Árnastígur, 12 km, 220 stikur.
Smám saman rann upp fyrir okkur að Árnastígur, sem við töldum víst að endaði í byggð, kláraðist úti í miðju hrauni. Ef við ætluðum að ná bílfarinu urðum við að arka áfram Skipstíginn, sem við töldum að væri 4 kílómetrar enn. Miðað við það og venjulega þríliðu töldum við að við ættum tæpan klukkutíma gang eftir.
Þyngdust nú mjög sporin þó að nú værum við farnir að sjá í blokkirnar á vellinum. Fljótlega fórum við yfir malbikaða braut, en við gáfum okkur ekki og fylgdum slóð leynilögreglunnar. Að því leið að við komum að hitaveituleiðslunni, sem þó hafði nálgast okkur hræðilega hægt. Þar var hins vegar girðing sem hafði átt að halda kommum frá verndurum Íslands í gamla daga. Ég var hreint ekki viss um að við kæmumst yfir hana svona þrekaðir.
Sem betur fer var búið að klippa skarð í girðinguna, hvort sem það nú var Félag herstöðvarandstæðinga eða Hitaveita Suðurnesja sem vann það þarfaverk.
Lappirnar gegnu hins vegar sitt á hvað í mosagrónu hrauninu og ég þóttist ekki hafa komist í slíka þrekraun lengi því að klukkuvísarnir fóru yfir hálf fjögur án þess að nokkur sjoppa væri í nánd. Lögreglumennirnir bættu um betur og lögðu stikurnar út í hraun á ný, af ágætri braut við hitaveitupípuna. Þar villtumst við aftur af réttri braut yfir á vegi lögreglunnar sem eru órannsakanlegir. Það voru villuspor.
Þegar við komum að háspennulínunum ákváðum við að nóg væri komið af leiðsögn lögreglunnar og fetuðum línuveginn það sem eftir var. Ekki get ég sagt að við höfum hlaðist orku, en þegar hér var komið sögu skipti ég milli okkar seinna Elitessinu. Sódavatnið drukkum við skömmu áður, en krampinn í lærunum var mig lifandi að drepa.
En nú sáum við bílinn með konu og dóttur formannsins og það gaf okkur aukinn kraft. Síðustu sporin stigum við um klukkan 16.15 og höfðum þá gengið án þess að stoppa í fjóra tíma og tuttugu mínútur tæpar.
Skipstígurinn endar við rörið, þannig að við hefðum aldrei þurft að fara út í hraunið aftur. Á því skilti stendur Skipstígur, 18 km, 280 stikur. Þetta var okkar afrek þessa helgi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.