Nú er ég búinn að vera tæpa viku í útlöndum. Ef einhver spyr mig að því hvort ég hafi verið að slaka á þá hefur sá hinn sami ekki góðan skilning á ferðalögum. Markmiðið hjá mér var nefnilega að skemmta mér og það er ekki tekið út með sældinni. Fyrst var hótelbruninn í London.
Nú er líklegt að einhver staldri við og hugsi. Jæja, lenti Benedikt í hótelbrunanum í London? Svo gætu aðrir klórað sér í hausnum og ekki munað eftir neinum slíkum bruna nýlega. Það var mikli bruninn 1796 og svo hafa örugglega brunnið nokkur hótel í loftárásunum í seinni heimsstyrjöldinni.
Aðrir brunar hafa ekki komist í fréttirnar nýlega. Þessi bruni fór samt ekki framhjá mér. Ég bjó á 9. hæð í Cavandish hótelinu í hjarta Lundúna og steinsvaf þegar brunabjallan fór í gang.
„Nú hefur einhver kerlingin laumast inn á klósett til þess að reykja í reyklausu herbergi,“ hugsaði ég. Stökk samt framúr vegna þess að ég er gamall tryggingamaður og veit að maður á alltaf að taka brunabjöllur alvarlega. Beið aðeins til þess að heyra hvort ekki slokknaði á vælinu. Á meðan leiddi ég hugann að því hvort ég ætti að fara niður á náttfötunum, sem ég ákvað að gera ekki því að þetta voru ekki bestu náttfötin mín og aldrei að vita nema sjónvarpsstöðvarnar biðu fyrir utan með myndavélarnar.
Fötin lágu öll vandlega samanbrotin og aðgengileg á sínum stað nema sokkarnir sem ég sá hvergi. Mundi þó hvar sokkarnir frá því deginum áður voru og smeygði mér í þá nauðugur viljugur (þeir voru reyndar nákvæmlega jafnmikið notaðir og hinir). Sem ég fór í skóna fann ég sokkana þar.
Daginn áður hafði ég verið að hugsa um bók eftir Jeffery Archer, þar sem hann segir frá því þegar fólk gengur niður úr öðrum tvíburaturninum. Allir fóru hljóðlega og stillilega og enginn asi á neinum. Þetta var eins hjá okkur. Enginn fann brunalykt þannig að eflaust héldu aðrir það sama og ég, að um æfingu væri að ræða. (Skemmtilegt að velja henni tíma klukkan fimm að morgni.) En við gerðum sem sé eins og okkur var sagt.
Neðst var eitthvert fát á fólki. Þar var þvaga og enginn komst út. Áfram hélt ég þar sem stóð Staff emergency exit. „Þeir vilja náttúrlega fyrst og fremst bjarga starfsfólkinu,“ hugsaði ég. En þarna hefur líklega ekki unnið mjög verðmætt staff því að ég fann enga undankomuleið þar. Sem ég hörfaði aftur úr þessari sjálfheldu var búið að opna út í port.
Það var svalt. Morgunúðinn var ekki beinlínis eins og rigning og kannski hefði ég ekki tekið eftir honum ef maður hefði haft um eitthvað annað að hugsa. Ég var með þeim fyrstu út. Smám saman tíndist fólkið niður, æðrulaust og þögult. Flestir höfðu klætt sig, en ekki verið jafnskipulegir og ég . Einhverjir höfðu líka greitt sér, en það hafði ég ekki gert (guði sé lof að engar myndavélar biðu okkar). Ein kona var berfætt í hvítum bómullarnáttkjól. Seinna sá ég þrjár í viðbót á hvítum sloppum Þær stóðu allar í röð, af hverju sem það var. Kannski höfðu þær allar keypt þessa sloppa á útsölu í Marks og Spenser.
Enginn sást reykurinn. Eftir um kortér kom slökkviliðsbíll. Einhver hafði það eftir hótelstarfsmanni að hringt hefði verið úr herbergi og tilkynnt um eld. Brunabjallan vældi áfram.
Eftir hálftíma komu tveir slökkvibílar í viðbót. Slöngurnar voru tengdar við vatnshana slökkviliðsins (þegar ég lærði á bíl sagði kennarinn mér að þeir hétu ekki brunahanar heldur „vatnshanar slökkviliðsins.“) Fyrsti bíllinn var kominn inn í port. Fólk talaði ekki mikið saman. Einn starfsmaður hótelsins kom í gulu vesti og reyndi að taka manntal. Það gekk erfiðlega vegna þess að blaðið sem hann skrifaði á varð rennblautt í úðanum.
Eftir einn og hálfan tíma var okkur hleypt inn. Hvergi sót að sjá.
Allir þurftu að ganga upp. Ég þrammaði upp á 9. hæð aftur. Þegar ég kom inn á hæðina örlaði fyrir lykt. Þegar ég kom inn á ganginn leist mér ekkert á blikuna. Fyrir framan lyftuna var greinilega reykjarslæða og lyktin svipuð og á gamlárskvöldsbrennu. Ég spurði fólkið fyrir aftan mig hvort þau teldu að óhætt væri að vera á hæðinni. Þau geispuðu og drifu sig inn á herbergið sitt.
Á eftir mér var kona sem var skynsamari. Hún hringdi á afgreiðsluna og kallaði svo fram: „Þetta er allt í lagi. Það er reykur um allt hótelið.“ Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti að róast við þetta, en staulaðist samt inn í herbergið.
Átti ég að hátta mig aftur? Jú líklega var það rétt.
Í því að ég skreiddist aftur undir sængina ýlfraði bjallan aftur. Ég setti koddann yfir höfuðið.
—
Við höfðum pantað mat á Cinq. Tveggja stjörnu veitingastað í París. Inni á Four Seasons hótelinu. Líklega Quatre saisonnes á frönsku. Mér þykir það leitt að bjóða lesendum síðunnar upp á þetta, en stundum verður maður að slaka á gæðunum.
Borðið var frátekið klukkan sjö og 19.00 gengum við í salinn. „Jónsdóttir“ sagði ég við sætavísuna. „Ah, Mussju Jónsdóttir. Dobri dén“. sagði konan og horfði á mig eins og á að líta á höfðingja sem lætur svo lítið að snæða öðru hvoru á látlausu veitingahúsi hennar.
Hún gekk að borði í miðjum salnum (sem var tómur) og sagði „Pasjalsta“
„Hvers vegna talar þú við okkur á rússnesku?“ spurði ég.
Andlitið datt af konunni og henni tókst með naumindum að bjarga því áður en það lenti á gólfinu. „Hvaðan eruð þið?“ spurði hún mjög sakbitin.
Ég sagði henni að við værum íslensk, en af því að ég kenndi í brjósti um konuna sagði ég henni að við værum samt öll mafíósar. Henni létti greinilega. Enda ekki einkennilegt að hún hefði ruglast. Hún hefur náttúrlega talið að ég væri óligarki með tvær vinkonur mínar og lífvörð.
Við fórum í dýra átta rétta matseðilinn.
Svo fékk ég þykka skinnbók í hendurnar. Hún reyndist innihalda vínseðilinn. Hófst nú lesturinn. Eftir fjórðung stundar var ég búinn að lesa næstum tíunda hluta bókarinnar og gafst upp og kallaði á vínþjóninn.
Mistök.
Hann þuldi hvert vínið öðru betra en það fór allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér því að ég einbeitti mér að aftasta dálknum. Þar voru bara fjögra stafa tölur. Í evrum.
Allt í einu kom sætisvísan hlaupandi og hvíslaði einhverju í eyra hans. Hann kinkaði kolli og starði alvarlegur á mig. Svo sagði hann: „Það má náttúrlega sætta sig við þetta.“ Og fór í þriggja tölustafa vín. Konan hafði sagt honum að ég væri ekki Rússi.
Réttirnir streymdu inn hver á fætur öðrum. „Síðasti aspasinn var bestur“, sagði sessunautur minn. Hver fjárinn. Ég hafði alls ekki áttað mig á því að maður ætti að borða þá í ákveðinni röð. Kvöldið virtist ónýtt.
Nú var fólk tekið að streyma inn á hin borðin. Á bakvið okkur var Rússi. Hann minnti á þekkta íslenska flagara og fyllibyttur sem ekki verða nafngreindir hér. Í hálsinn var hneppt frá tveimur ef ekki þremur hnöppum. Hann var með tveimur milliþungavigtarkonum. Hann var greinilega stamkúnni (fastagestur) því að þjónarnir voru mjög kammó við hann. Önnur stúlkan var í einhverjum litríkum fötum, móðins sirka 95. Hún var þreytuleg. Hin, sem var ekki nema um einn og fimmtíu á hæð og hafði hækkað við að leggjast á hliðina, hafði greinilega komið við í vefnaðarvörubúð og konurnar vafið um hana svörtum stranga. Sem betur fer hafði hún fengið marga vafninga um sig.
Í horninu var Japani sem borðaði einn. Ég vorkenndi honum svolítið.
Fyrir aftan mig var fólk sem ekki stökk bros allt kvöldið. Hjón sem líklega hafa verið að reyna að hressa upp á sambandið. Þetta var full dýr tilraun til þess að klúðra.
Á næsta borði við okkur var enginn. En þar var blómvöndur á disknum.
Matseðillinn sagði að við værum komin í rækjuna en við sáum glöggt að hér var um humar að ræða. Ég losaði hann varlega úr halanum með vinstri hendi. Umsvifalaust var mér borin skál með sítrónuvatni til þess að þvo af mér slorið.
Nú voru ekki lengur nógu margir þjónar til þess að bera okkur diskana samtímis. Aftan við borðið okkar var aðalþjónninn. Hann fylgdist með því að ávallt væri skenkt í glösin ef borðið fór niður fyrir ímyndaða línu neðarlega í glasinu. (Á fínum frönskum stöðum eru glösin ekki fyllt, heldur rétt rúmlega þrír sopar settir í botninn.)
Loks kom fólkið á næsta borð. Miðaldra maður með talsvert yngri konu (þó ekki ósiðlega ferskri). Hún var í þeim flegnasta kjól sem ég hef séð og olli mér talsverðum heilabrotum hvernig hann héldist upp. Kom þá í ljós að band sem hélt herlegheitunum saman hafði slitnað en því tókst að koma saman áður en í óefni stefndi.
Smám saman gekk á réttina. Japaninn úti í horni var farinn að brosa út undir eyru. Nú var hann að hugsa um hvað hann gæti sagt vinum sínum þegar hann kæmi heim.
Konan í flegna kjólnum fékk köku með einu kerti. Búin að vera heilt ár saman.
Þjónninn hellti flötu vatni í glasið mitt og ég skildi hvers vegna þessi staður fékk bara tvær stjörnur. Ég stóð upp og við strunsuðum út.
Á leiðinni fannst mér eins og smábjarmi væri kominn í augun á döpru konunni. Karlinn var jafnfúll og áður.
Þegar við þrömmuðum framhjá sætavísunni kallaði ég „Da svedania.“