Ráðherranum berst aldrei bréf

Á sínum tíma hreykti pósturinn í Englandi sér af því að vildi hefðarfólk bjóða vinum sínum í síðdegiste gæti það póstlagt boðið að morgni sama dags og allir fengju boðið í tæka tíð. Um víða veröld skipti pósturinn sköpum í samskiptum manna á milli. 

Enn þann dag í dag er hægt að senda skilaboð til vina sinna og boða þá fyrirvaralítið í til tedrykkju, en nú er komin tækni sem er miklu hraðvirkari en pósturinn. Bréfasendingum fækkaði um að minnsta kosti 80% á skömmum tíma og ekkert lát virðist á.

Eðlilega hefur Íslandspóstur orðið fyrir miklu tekjutapi vegna þessa, en á sama tíma og venjulegt fólk þarf ekki að skrifa bréf missti fyrirtækið einkarétt til þjónustu. Mikill taprekstur loðir við fyrirtækið flest undanfarin ár. Pakkaflutningar eru, ólíkt bréfburði, grein þar sem fjölmargir aðilar bjóða þjónustu sína. Nýlega fékk ég sendingu frá útlöndum með hraðþjónustufyrirtæki sem tilkynnti mér með sms-skeyti að pakkinn yrði borinn heim að dyrum um klukkan átta um kvöld. Íslandspóstur bauð mér um svipað leyti að sækja annan böggul á næsta pósthús.

Þeir sem helst senda bréf eru opinberir aðilar sem ekki hafa tileinkað sér samskiptamáta nútímans. Í liðinni viku fékk ég tilkynningu um að mánaðarlegar greiðslur til skattsins utan staðgreiðslu, sem engar voru, yrðu héðan í frá núll krónur. Ríkið leggur sig fram um að skapa atvinnu, bæði hjá Skattinum og Póstinum.

Samkeppni kemur neytendum til góða, en ríkið virðist telja það sérstaka skyldu sína að viðhalda úreltum kerfum og starfsemi. Í fréttum af Íslandspósti kemur fram að mikið tap hafi verið af pakkasendingum hjá fyrirtækinu. Brugðist var við því tapi með því að lækka gjaldskrána (þetta kann að vera torskilið, en svona er nýja rekstrarhagfræðin).

Skýringin er sú að með breytingunni ætli Pósturinn að ná sér í stærri sneið af markaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Gott og vel, nema lækkunin kallar á 500 milljón króna meðgjöf frá ríkinu. Ríkið, sem telur sig auðvitað vel aflögu fært á Covid-tímum, niðurgreiðir með öðrum orðum kostnað fyrirtækja við að koma vörum út á land. Fyrir utan það hve vitlaust það er, þá er það líka lögbrot.

„Ómöguleiki“ að fylgja lögum?

Í lögum segir: „Gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.“ Augljóst er að þessi lög eru brotin þegar verðlagning tekur mið af ríkisstyrk.

Þegar ofangreint lagaákvæði var borið undir samgönguráðuneytið svaraði það að ákvæðið væri „ekki að öllu leyti virkt“.

Hörður Felix Harðarson lögmaður taldi þessa túlkun athyglisverða í samtali við Moggann:

„Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir. Ég veit ekki til þess að það sé eitthvað til sem heitir óvirkt lagaákvæði. Þetta er einfaldlega ákvæði í lögum sem stendur eins og það er. Og ber þá að virða eftir því sem unnt er hverju sinni. Það getur vel verið að menn geti haldið því fram að það séu ákveðnir vankantar eða erfiðleikar við að framfylgja því. En auðvitað hljóta menn að þurfa að gera það að því marki sem mögulegt er og ég sé ekki að það sé einhver ómöguleiki í þessu tilviki fyrir því. Því ákvæðið er svo sem ósköp einfalt og afar skýrt að því er varðar þessa tilvísun til kostnaðar og hæfilegs hagnaðar.“

Þórhildur Ólafsdóttir, sem nýlega varð forstjóri Íslandspósts, er heldur ekki ánægð með fyrirkomulagið og segir í viðtali við sama blað: „Við teljum að það sé í höndum stjórnvalda að ákvarða hvernig þau vilja hafa þetta. Þetta er falleg hugsun, að hafa sama verð um allt land, en ég held að fólk hafi kannski ekki gert sér grein fyrir áhrifunum sem þetta myndi hafa á alþjónustuveitandann eða kostnað ríkisins. Þetta setur okkur gríðarleg mörk,“ segir Þórhildur. Varðandi gagnrýni einkafyrirtækja á að verð á pakkasendingum út á land feli í sér niðurgreiðslur segist hún vona að stjórnvöld endurhugsi þessa lagasetningu.

Aðför að einkarekstri á landsbyggðinni

Einkaaðilar á þessum markaði njóta ekki þess munaðar að fá tapið greitt af ríkinu. Enda væri það óþarfi ef ríkið færi að lögum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi mismunun komi landsbyggðinni ekki til góða þegar til framtíðar er litið. Í Morgunblaðinu er haft eftir honum að „hafa verði í huga að flutningaþjónusta með pakkasendingar úti á landi muni skerðast ef einkafyrirtæki þurfa að óbreyttu að rifa seglin vegna undirverðlagningar Póstsins. Sá tekjubrestur kunni aftur að neyða einkafyrirtækin til að hækka gjöld vegna flutninga á stærri sendingum.“

Að auki nefndi Andrés að niðurgreiðslurnar styrktu samkeppnisstöðu verslana á höfuðborgarsvæðinu á kostnað verslana úti á landi, sem veiki rekstrarforsendur þeirra síðarnefndu.

Þessi ójafna samkeppni kemur ekki bara niður á sjálfstæðum verslunum á landsbyggðinni heldur er hún smám saman að drepa lítil einkafyrirtæki í flutningastarfsemi utan höfuðborgarsvæðisins. Engum dettur í hug að Íslandspóstur muni knésetja erlenda flutningarisa, en öðru máli gegnir um íslenskt framtak víða um land.

Andrés nefnir dæmi um hve vitlaust kerfið sé. Það kosti aðeins 800 krónur að senda helluborð frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal meðan á höfuðborgarsvæðinu sé hins vegar algengt að það kosti að minnsta kosti fimm þúsund krónur að fá raftæki send heim.

Þegar fulltrúar SVÞ reyndu að skýra málið fyrir þingmönnum kom það þeim á óvart hvað landsbyggðarþingmenn sýndu því lítinn áhuga. Með rangri verðlagningu styrkir Íslandspóstur verslanir á höfuðborgarsvæðinu gagnvart búðum á landsbyggðinni með niðurgreiddum flutningskostnaði.

Haltu kjafti og vertu sætur

Á Alþingi sitja fulltrúar átta stjórnmálaflokka. Ætla mætti að einhverjir þeirra hefðu áhuga á því að efla frjálsa samkeppni og bæta þannig hag neytenda. En samkvæmt framangreindri frásögn voru fulltrúar flestra flokka áhugalitlir. Sem betur fer er þó einn flokkur sem enn berst fyrir einkaframtakinu og heiðarlegri samkeppni, neytendum til góða.

Thomas Möller, fulltrúi Viðreisnar í stjórn Póstsins, útskýrði málið í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði: „Gjaldskrárbreyting Póstsins er andstæð stefnu Viðreisnar enda erum við talsmenn einkaframtaks og samkeppni. Þá styður Viðreisn eigendastefnu ríkisins sem segir að ríkisfyrirtæki ættu að styðja við og efla samkeppni og að ríkið ætti að draga úr starfsemi þar sem næg samkeppni sé fyrir á markaðnum.“

Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem Thomas gagnrýndi undarlegar ákvarðanir í rekstri fyrirtækisins. Viðbrögð vinstri stjórnarinnar, sem vill allt framtak kæfa í alltumlykjandi faðmi ríkisins, létu heldur ekki á sér standa. Á vef Viðskiptablaðsins vb.is sagði: Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kallað hafi verið eftir því að stjórnarmönnum í Póstinum verði skipt út fyrir aðra „þægari“.

Daginn eftir, þann 5. mars, kom svo fram á sama vef í fyrirsögn: „Fulltrúa Viðreisnar hent úr stjórn“.

Auðvitað þarf að losa sig við stjórnarmenn sem spyrja spurninga og vilja hagræða. Stjórnarmenn undir vinstri stjórn eiga ekki að hafa skoðanir eða vilja að farið sé að sanngjörnum leikreglum. Þeir eiga að vera upp á punt, stilltir og þægir. Segja svo að fundi loknum: „Guðlaun fyrir kaffið og kleinurnar“.


Birtist fyrst á Kjarnanum 8.3.21.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.