Nýtum allar vinnufúsar hendur og heila

Heilinn er undarlegt líffæri. Hann fer í gang þegar við fæðumst og stoppar ekki fyrr en daginn sem við verðum sjötug.

Þetta virðast að minnsta kosti vera skilaboðin sem opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög senda starfsmönnum sínum. Þeir mega vinna á fullu og gegna ábyrgðarstöðum á sínum vinnustað þegar þeir eru 69 ára og ellefu mánaða gamlir, en mánuði seinna eru þeir kvaddir með kurt og pí, en svo ekki söguna meir.

Stöldrum aðeins við. Það sem hefur gert Ísland ríkt nútímasamfélag eru auðlindirnar landsins. Þjóðin á kraft fallvatna, jarðhita og gjöful fiskimið, fallegt landslag og sagnaarf sem gera Ísland að því sem það er núna.

Ónýtt auðlind til lítils gagns. Ef enginn rennir fyrir fisk veiðist hann ekki. Öldum saman féllu árnar til sjávar án þess að nokkur beislaði kraftinn sem í þeim býr. Það var ekki fyrr en við gátum nýtt auðlindirnar að Ísland breyttust úr einhæfu landbúnaðarsamfélagi í eitt af best settu þjóðfélögum heims.

Aftur og aftur erum við samt minnt á það að auðlindirnar geta brugðist. Síldin kemur og síldin fer. Ferðamenn halda sig heima í heimsfaraldri. Fyrir örfáum árum ætluðum við að gera bankastarfsemi að einni af meginstoðum efnahagslífsins. Allir muna hvernig það ævintýri fór.

Ein er þó sú auðlind sem aldrei þrýtur.  Hugkvæmni, þekking og reynsla búa til miklu meiri peninga en stritið. Allir vilja nú nýta sköpunargáfu frumkvöðla. Engum dettur í hug að láta hugvitið óvirkjað. Þó að við séum rík, vitum við vel að við sérhvern nýjan snilling verðum við enn ríkari. Þess vegna reynum við að búa til þjóðfélag þar sem allir fá störf við hæfi. Við vitum að þegar einstaklingum gengur best, gengur þjóðfélagið best.

Samt er einum verðmætasta hópnum í þjóðfélaginu beint út af vinnumarkaði. Þau sem eðli málsins samkvæmt hafa mesta reynslu eru ekki nýtt sem skyldi. Hér á landi er eftirlaunaaldur 67 til 70 ár og fólki er heimilt að láta af störfum fyrr. Talað er um að 67 ára einstaklingar séu löggilt gamalmenni.

Löggilt gamalmenni. Þeirri nafnbót fylgir ekki sérstök virðing í hugum margra.

Hugurinn leitar aftur í tímann. Ég var nýbyrjaður að vinna hjá einkafyrirtæki, tryggingafélagi sem varð til við samruna tveggja rótgróinna félaga. Í minn hlut hafði komið að stýra tjónadeildinni, sem var fjölmenn þjónustudeild.

Einn daginn kallaði forstjórinn mig inn til sín og við ræddum ýmis mál sem viðkomu rekstrinum. Allt í einu segir hann: „Ég hef áhyggjur af honum nafna mínum. Mér finnst hann vera að linast.“ Ég var ekki alveg viss hvern hann ætti við, því að hann átti að minnsta kosti fimm nafna í fyrirtækinu.

Jú, hann var að tala um Ólaf Árnason. Ég mótmælti harðlega. „Ólafur er alltaf mættur fyrstur á morgnana, hann ræðst á bunkana af tjónaskýrslum og úrskurðar af mikilli þekkingu og ef þörf krefur býðst hann til þess að vinna lengur. Ég vildi að allir starfsmennirnir væru svona röskir.“

Forstjórinn hugsaði sig aðeins um og sagði svo: „Já, líklega er þetta rétt hjá þér, en það eru bara örfá ár síðan Ólafur var uppi á þaki á húsum í vitlausum veðrum, í stígvélunum, með hamar og kúbein til þess að bjarga því sem bjargað varð.“

Þegar þetta samtal átti sér stað var Ólafur Árnason áttræður. Hann var gersemi fyrir bæði viðskiptavini, samstarfsmenn og eigendur fyrirtækisins.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að í stað þess að miða við ákveðinn eftirlaunaaldur, einn afmælisdag sem breytir öllu í lífi fólks, eigum við að miða við vilja og getu hvers og eins.

Vilja, því margir kjósa að sinna fjölskyldu eða öðrum hugðarefnum á efri árum og finnst því gott að hafa meiri tíma en áður fyrir sjálfa sig fremur en að vera í fastri vinnu.

Aðrir una sér best með störfum, sem þeir hafa yndi af og kraft til þess að vinna. Það er allt of algengt að fólk sitji heima og finnist það skyndilega orðið tilgangslítið. Maður er manns gaman og þau sem heima sitja hitta kannski ekki marga og fá því ekki þá uppörvun sem skyldi.

Getu því engum er greiði gerður með því að sinna störfum sem þau ráða ekki lengur við, óháð aldri.

Í nágrannalöndum okkar hafa stjórnvöld sums staðar ýtt eldri starfsmönnum út af vinnumarkaði til þess að búa til pláss fyrir yngri kynslóðina. „Fortidspension“ er þetta nefnt. Svipuð sjónarmið hafa heyrst í stórfyrirtækjum hér á landi. Mér kemur það alltaf jafnmikið á óvart hve lítil viðbrögð þessi tilfærsla af vinnumarkaði vekur. Engum með fullum mjalla dytti í alvöru í hug að búa til pláss á vinnumarkaði með því að ýta konum út. Aðgerðin gagnvart eldri borgurum er álíka greindarleg.

Vandinn byrjar reyndar ekki þegar fólk kemst á sjötugsaldurinn. Fjölmargir lenda í vandræðum með að fá vinnu við hæfi strax og þeir nálgast fimmtugt. Í bönkum gilti sú regla fyrir hrun að enginn mætti vera í stjórnunarstöðu sem væri orðinn sextugur. Æskudýrkunin var ráðandi á þeim árum. Svo fór sem fór. Við hefðum betur nýtt nokkra gamaldags bankamenn lengur á þeim árum.

Vandamálið nær jafnvel enn lengra niður í aldri. Fyrir nokkrum dögum sagði afrekskona í handbolta að hún hefði engan áhuga á því að hætta, en lýsti viðhorfinu svona: „Umræðan er oft á þann veg að þegar maður er orðinn 35 ára þá eigi maður bara að vera kominn á elliheimili, sem er galið.“

Við brosum, en lögmálið er það sama. Engan á að stoppa sem hefur vilja og getu til þess að sinna sínu áhugamáli eða starfi.

Margir sjálfstæðir atvinnurekendur vinna eins lengi og þeir kjósa. Fyrir ári gerði 85 ára gamall úrsmiður við gömlu klukkuna mína sem hafði verið stopp árum saman, klukkuna ég erfði frá ömmu. Nú slær hún nákvæmlega á réttum tíma, viku eftir viku.

Norður í landi er ekki langt síðan læknir lét af störfum, áttræður að aldri. Sumir göntuðust með það að hann væri farinn að taka við fólki á elliheimilið sem hann hefði tekið á móti þegar þau fæddust á sínum tíma. Allir voru sammála um að missirinn var mikill þegar hann hætti.

Það er ekki bara gott fyrir einstaklinginn að hann fái að vinna eins lengi og hann getur og vill. Þjóðfélagið allt græðir.

Fyrir hvern árgang sem hverfur af vinnumarkaði tapar þjóðfélagið um 30 milljörðum króna. Nýjum Landspítala á þremur til fjórum árum.

Við vitum líka að heilsan er betri hjá þeim sem eru ánægðir. Við spörum í sjúkrahúskostnaði og þess vegna er það beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt að aldraðir fái að vinna störf við hæfi eins lengi og þeir kjósa og geta.

Einhver sagði, bæði í gamni og alvöru, að best væri að fá að skipta um kennitölu. En ég segi: Vandinn liggur ekki í kennitölunni, vandinn liggur í samfélagi sem áttar sig ekki á því hvílíkur fjársjóður fólk með reynslu, þekkingu og húsbóndahollustu er fyrir sérhvern vinnustað. Konur og karlar sem hafa gríðarlega reynslu og nægan tíma til að sinna vinnu eftir að börnin eru flogin úr hreiðrinu.

Gleymum kennitölunni og horfum á einstaklinginn, vilja hans og getu.

Heilinn stoppar nefnilega ekki við sjötugt.

Umfram allt. Gleymum því ekki að aldur er auðlind.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.