Á eilífa jarðaberjaakrinum

Það eru áttatíu ár í dag síðan John Lennon söng sitt fyrsta lag. Listamaður sem var snillingur og gallagripur, samdi grípandi laglínur, stóð glaðlegur á sviðinu og fékk alla til þess að brosa með hnyttnum tilsvörum. Þegar hann var lítill strákur heima í Liverpool sagði mamma hans honum að hann væri frábær. Var hann frábær?

Sjálfur sagði Lennon að öllum þætti vænt um þá sem væru komnir undir græna torfu, sem er auðvitað ekki rétt. Hann var óneitanlega virtur og dáður á sinni stuttu ævi. Bítlarnir sömdu hundruð frábærra laga og hættu aldrei að reyna eitthvað nýtt. Margir listamenn semja sífellt sama lagið eða skrifa aftur og aftur sömu bókina. Í hvert skipti sem John og Paul náðu nýjum hæðum datt þeim ekki í hug að hvílast þar heldur héldu ótrauðir áfram.

Lennon var enginn venjulegur rokkari. Lögin eiga eftir að lifa í margar aldir, en hann hafði líka eitthvað að segja. En það var ekki allt flókið: All you need is love. Boðskapur sem er svo einfaldur að einhverjir hlæja að honum og telja slíka speki í besta falli duga fyrir blómabörn, fólk sem þorir að beita ímyndunaraflinu.

Hugsaðu þér hvergi
nein landamæri lögð
að drepa og deyja fyrir
né deilt um trúarbrögð.

Já, hugsaðu þér heiminn
halda grið og frið. 
Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki einn um það.

         Þýðing Þórarins Eldjárns.

John Lennon spurði: Hver er ég? Enginn veit það nema ég. Hver ætli hann hafi verið? Slagsmálahundur sem var vondur við konur fram eftir ævinni? Eða femínisti sem söng um ást og frið? Þann Lennon viljum við muna. Þann sem söng: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Enn í dag – alveg eins og fyrir hálfri öld – þrífast hópar á hatri. Stjórnmálamenn, trúarleiðtogar, ritstjórar og svo miklu fleiri gera lítið úr öðrum – hinum – meðan „við“ erum borin til betra lífs af því að við erum betri. Falsfréttir og matreiðsla á sannleikanum eru lýðskrumurum eiginleg meðan venjulegt fólk segir eins og skáldið: Við viljum bara sannleikann, segið okkur bara satt.

Skömmu fyrir andlátið raulaði Lennon: Fólk spyr spurninga og veit ekkert í sinn haus. Og ég segi þeim að það séu engin vandamál, bara lausnir. Svo skruppu þau John og Yoko í stúdíóið að kvöldi 8. desember 1980. Hann kom aldrei heim aftur.

Ég bjó í Bandaríkjunum og var að horfa á amerískan fótbolta þetta kvöld. Ég man það eins og það hefði gerst í dag þegar þulurinn sagði: „Vinsælasti Bítillinn er dáinn.“ Oh boy.


Birtist í Morgunblaðinu 9. október 2020.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.