Hvaða fúlmenni er best?

„Skyldu Sovétríkin hafa verið betri staður ef Trotsky hefði tekið við af Lenín en ekki Stalín?“

Svona byrjar FB færsla frá Ásgeiri Jónssyni, sagnfræðingi með meiru. Í ljós kemur að það er ekki hagfræðingurinn sem veltir fyrir sér þessari áleitnu spurningu heldur sonur hans í skólaritgerð.

Líklega hafa fáar bækur haft jafnslæm áhrif á skoðanir manna á Sovétríkjunum eins og Dýrabær eftir George Orwell (eða Félagi Napóleon eins og hún hét í fyrstu útgáfu á íslensku). Þar eru svínin misgóð. Napóleon (Stalín) er vondur en Snækollur (Trotský) er góður. Þeir taka við af gamla vitra geltinum (Lenín) sem stjórnaði Dýrabæ eftir uppreisn dýranna.

Margir lásu þessa bók í menntaskóla eða annars staðar og héldu að Sovétríkin hefðu orðið miklu betri ef Lenín hefði lifað lengur eða Trotský ekki sendur í útlegð. Í raun og sann voru þeir báðir miskunnarlausir bandittar sem hikuðu ekki við að berja niður sérhvern mótþróa, raunverulegan eða ímyndaðan. Aftökur, vinnubúðir og gúlagið voru daglegt brauð á fyrstu dögum Sovétríkjanna þegar þessi tvö „góðu“ svín réðu ríkjum.

Ásgeir heldur áfram: „Sú spurning hvaða máli einstakar persónur skipta fyrir rás sögunnar er þó áhugaverð. Hagfræðin kennir að það séu fyrst og fremst tækniframfarir sem reki söguna áfram. Það er einnig kjarni Marxismans – um hina sögulegu þróun.“

Eflaust er þetta að mestu leyti rétt. Rangir menn á röngum stað á röngum tíma hafa samt haft áhrif. Sumir verða hetjur eins og Napóleon, aðrir skúrkar eins og Hitler. Maó, sem kannski var verstur allra illmenna, er enn í heiðri hafður og ferðalangar á Torgi hins himneska friðar í Bejing drúpa höfði í grafhýsi meistarans.

Við höfum að mestu sloppið við slíkar sendingar, en Kristján X Danakóngur sagði þó við Hriflu-Jónas Alþingishátíðarárið 1930: „Så det er Dem spiller den lille Mussolini her í landet?“ Jónas hefur líklega átt slíkan titil skilið framar öðrum Íslendingum.

Vissulega hefur Ísland alltaf verið undir áhrifum frá alþjóðastraumum. Fátt af því sem mest áhrif hefur haft er upprunnið hér á landi. Tungumálið, trúarbrögðin og þjóðin sjálf, komu að utan. Ásgeir orðar þetta svo: „En líkt og allir Íslendingar sem koma til Ítalíu taka eftir – þá eru öll íslensk jólalög þarlend popplög að stofni til. Það sem gerist á Íslandi er að miklu leyti endurspil á því sem hefur áður gerst erlendis.“

Í meira en heila öld hafa íslensk stjórnmál snúist um það öðru fremur hvort þjóðin eigi að fylgja útlöndum í framþróun eða miða afturábak. Hvort hér eigi að vera svarthvítt sjónvarp eða í lit, hvort við eigum að syngja ítalska slagara eða spila á langspil, svo myndmálið sé notað áfram.

Ásgeir nefnir svo nokkra Íslendinga sem hann telur hafa haft raunveruleg áhrif á Íslandssöguna. Þeir voru: „Sæmundur fróði, Snorri Sturluson, Jón Arason biskup, Skúli Magnússon fógeti, Jón Sigurðsson forseti og téður Jónas Jónsson frá Hriflu eru þó – að mínu áliti – dæmi um persónur sem raunverulega höfðu áhrif á gang Íslandssögunnar.“

Hann tekur fram að hann vilji ekki draga samtímafólk sitt inn í málið (hann nefnir sem sé ekki Davíð forvera sinn). En ég er ósammála Ásgeiri.

Sæmundur fróði gekk að vísu í Svartaskóla og var svo fróður að hann hafði kölska í vasanum, hinn merkasti maður og átrúnaðargoð mitt þegar ég var strákur. En áþreifanleg og varanleg áhrif á gang sögunnar held ég hann hafi ekki haft fremur en Snorri Sturluson, sem líklega hefur verið hinn merkasti rithöfundur og fræðimaður, en alls ekki sá sem hafði mest áhrif til lengdar á stjórnarfar landsins. Jón Arason kom með prentsmiðju til landsins, sem vissulega var gott, var gott skáld og var djarfur og hraustur við Dani. En hann var fyrst og fremst í vörn fyrir gamla tíma, rétt eins og Hriflu-Jónas síðar. Guðbrandur Þorláksson hefði eflaust komið með prentsmiðju hingað líka.

Skúli Magnússon var kannski fyrsti frjálshyggjumaðurinn á Íslandi, maður sem reyndi að breyta landinu úr landbúnaðarsamfélagi í nútímaþjóðfélag. Hann barðist fyrir verslunarfrelsi og framförum, en hafði ekki erindi sem erfiði. Jón Sigurðsson var vissulega sómi Íslands, sverð og skjöldur, rökfast glæsimenni og fæddur foringi. En Ísland hefði fengið sjálfstæði þótt hans hefði ekki notið við.

Ég er hrifinn af öllum þessum mönnum, en ég held að sagan hefði orðið svipuð þótt þeirra hefði ekki notið við. Eitthvað hefði gerst aðeins síðar, annað aðeins fyrr, en það hefði verið hliðrun um áratugi, ekki aldir.

Hriflu-Jónas var einskonar spegilmynd (í merkingunni andhverfa) af Skúla fógeta. Hann barðist einarðlega gegn því að Ísland breyttist úr óhagkvæmu bændasamfélagi í nútíma ríki. Hann kom reyndar að stofnun flokkakerfisins og vildi að hér yrði verkamannaflokkur og íhaldsflokkur eins og í útlöndum (flutti inn ítölsk jólalög), en stofnaði svo bændaflokk sem hefur unnið þjóðinni meira ógagn en nokkur annar stjórnmálaflokkur. Sá er að vísu ekki stór lengur, en það eru að minnsta kosti þrír aðrir framsóknarflokkar á þingi, ef ekki fleiri. Flokkar sem berjast fyrir viðhaldi á óréttlátu samfélagi, með fráleitum búvörusamningum, málamynda auðlindagjaldi og ónýtri mynt sem sveiflast eins og lauf í vindi, hvor sem er í meðbyr eða andstreymi.

Svo enginn haldi að Ásgeir hneigist að Trotskýisma eins og ýmsir aðrir seðlabankamenn er rétt að vitna í lokaorð hans: „Og já. Stalín var siðblindur glæpamaður. Það var Trotsky að vísu líka. Stalín var hins vegar gæddur óvenjulegri þrautseigju, ósvífni og skipulaghæfileikum – og mig grunar að enginn úr forystusveit Bolshevikka hefði getað haldið Sovétríkjunum saman fyrstu 30 árin nema einmitt hann. Það kostaði ólýsanlegt ofbeldi.“

En hér á landi héldu margir að til hinstu stundar hefði Stalín verið „sami góði félaginn. sem mat manngildið ofar öllu öðru“ eins og Einar Olgeirsson skrifaði í leiðara Þjóðviljans við andlát foringjans „sem var elskaður og dáður meira en flestir menn í mannkynssögunni.“

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.