Þegar ég var strákur var Eimskipafélagið eitt af þeim fyrirtækjum sem mér fannst allir bera virðingu fyrir. Virðulegt húsið við höfnina var eins og virki utan um óskabarn þjóðarinnar, fyrirtæki sem tugþúsundir Íslendinga höfðu keypt hlutabréf í, ekki til þess að efnast, heldur til þess að tryggja siglingar til landsins. Tólf ára gamall sendill sem kom inn í þetta hús fylltist lotningu fyrir félaginu og þeim sem hjá því unnu.
Áratugum síðar var Eimskipafélagið enn í fararbroddi í atvinnulífinu. Hópur ungra stjórnenda undir forystu Harðar Sigurgestssonar hafði tekið við stjórnartaumunum. Ferskir vindar blésu, nýtt vín á gömlum belg mætti segja, því að hjá Eimskipafélaginu var þess gætt að tengingin við upprunann rofnaði aldrei. Það var mér mikilvægur skóli að kynnast fyrirtækinu enn betur þegar ég var valinn í stjórn þess um aldamótin.
Allmargir starfsmenn áttu þar afar langan starfsaldur, en í mínum huga var Sigurlaugur Þorkelsson, sem þá var nýhættur störfum, tákngerfingur festunnar sem lengi vel einkenndi félagið og rekstur þess. Þegar hann stóð upp úr Eimskipafélagsstólnum í síðasta sinn hafði hann unnið þar í 57 ár.
Sigurlaugur hóf sinn farsæla feril er hann hafði nýlokið prófi úr Verslunarskólanum, en Vilhjálmur Þ. Gíslason skólastjóri benti á hann sem einn af efnilegustu nemendum skólans. Á starfstíma hans fór félagið í gegnum miklar breytingar, m.a. þrjár kynslóðir skipa. Fyrst eftir stríð, næst endurnýjaði Óttarr Möller skipastóllinn og loks kom Hörður sem keypti enn ný skip. En það komu ekki bara ný skip. Allt samfélagið gjörbreyttist á þeim áratugum sem Sigurlaugur vann hjá Eimskipafélaginu. Félagið og þjóðin losnuðu úr höftum og ný hugsun frjálsrar samkeppni tók við.
Oft var það ef leysa þurfti vandasamt verkefni að Sigurlaugur var beðinn að taka það að sér. Hann var launafulltrúi, blaðafulltrúi, deildarstjóri farþegadeildar og hlutabréfadeildar og í fleiri störfum en ég kann að nefna. Hann var ávallt í miklum tengslum við forstjóra og stjórnarmenn og naut trausts þeirra. Engar móttökur, hluthafafundir, kynningarátök eða annað var haldið án hans þátttöku. Forstjórar höfðu mikið traust á honum og nýttu starfskrafta hans í fjölmörg vandasöm verkefni. Viðskiptavinir og eigendur litu líka á hann sem fastan punkt sem hægt var að treysta að væri á sínum stað og stæði sína plikt. Svo skemmtilega hagaði til að Þorkell, sonur Sigurlaugs, var einn þeirra framkvæmdastjóra sem færðu Eimskip inn í nútímann.
Nú á þjóðin ekki lengur nein óskabörn eins og Eimskipafélagið var. Mér er til efs að enn finnist starfsmenn eins og Sigurlaugur. Þeir eru að minnsta kosti fáir, ef nokkrir, sem ná að vinna af trúmennsku á sama stað frá 18 ára aldri þangað til þeir verða 75 ára. Það er gæfa og forréttindi að hafa náð í endalokin á þessu einstaka tímabili. Við minnumst Sigurlaugs með virðingu. Höllu, sambýliskonu hans, afkomendum og öðrum vandamönnum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.
Birtist í Morgunblaðinu 4.2. 2020.