Tvö tíðindalítil ár í stjórnarráðinu

26. nóvember 2017 Fulltrúar flokka með sameiginlega fortíðarsýn skáluðu í kampavíni í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu að loknum árekstralausum stjórnarmyndunarviðræðum.

1. desember 2017 Formenn stjórnarflokkanna mættu til Gísla Marteins sem sagði eftir þáttinn: „Þau voru reyndar alls ekki drukkin, heldur bara afslöppuð“. Þetta mun vera í síðasta sinn sem slík yfirlýsing hefur verið gefin.

22. desember 2017 Samþykkt tillaga formanns Sjálfstæðismanna um að hækka fjármagnstekjuskatt um 10%. Á sama tíma var ákveðið að falla frá ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um hækkun á kolefnisgjöldum, enda umhverfismálin undir forystu VG.

10. apríl 2018 Ljósmæður og BHM „lýsa undrun og vanþóknun á ummælum heilbrigðisráðherra“ sem „benda til þess að hún telji kjör ljósmæðra þeim sjálfum að kenna“.

18. júlí 2018 Hátíðafundur á Þingvöllum að viðstöddum hátt í 200 manns, að meðtöldum ferðalöngum, ljósamönnum og Piu Kjærsgaard, sérstökum gesti forseta Alþingis. Engu var til sparað í ljóskösturum á þessum sumardegi og talið að þingmenn hafi aldrei verið eins vel upplýstir. Lýsingin, sem kostaði 22 milljónir króna, er talin dýrasta þinglýsing sögunnar.

8. september 2018 Heilbrigðisráðherra lýsir því yfir að það „hjálpaði ekki parkinsonssjúklingi á Þórshöfn ef opnuð yrði ein stofa taugalæknis í Reykjavík.“

1. desember 2018 Af því að búið var að eyða 86.985.415 kr. í lýsingu og fleira við þingfundinn á Þingvöllum var enginn peningur eftir í hitalampa fyrir dönsku drottninguna við stjórnarráðið. Hún fékk þó ullarteppi.

5. desember 2018 Fram komu upplýsingar um greiðslur til þingmanna, meðal annars fyrir flug- og akstur, ágæt nálgun við kolefnisspor þeirra. Þingmenn VG náðu þremur af fimm efstu sætum þetta ár, en í ljós kom að margir þingmenn eru sífellt úti að aka.

11. desember 2018 Að frumkvæði VG var samþykkt að lækka veiðigjöld á útgerðarmenn.

19. ágúst 2019 Forsætisráðherra lýsti því yfir að hún geti ekki hitt varaforseta Bandaríkjanna vegna þess að hún hefði lofað að flytja ávarp á þriggja daga fundi Norræna verkalýðssambandsins og „sæi ekki ástæðu til þess að breyta því.“ Varaforsetinn var ekki jafn upptekinn og átti auðvelt með að breyta sinni dagskrá.

13. nóvember 2019 Fjármálaráðherra: „Auðvitað er rót vandans í kannski þessu tiltekna máli veikt stjórnkerfi og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar undirrót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“

Á afmælinu er við hæfi að yrkja til stjórnarinnar í anda listaskáldsins góða:

Stjórnin er hvorki sterk né góð
stundum lin og ekki beitt.
Hún er hvorki hress né móð.
Hún er svo sem ekki neitt.


Birtist í Morgunblaðinu 26.11.2019.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.