Heiðarleg misnotkun valds

Furstinn eftir Machiavelli er eitt af þekktustu ritum stjórnmálasögunnar. Bókin var skrifuð á 16. öld sem kennslubók í því hvernig ætti að sölsa undir sig völd á tímum aðals og smákónga. Bókin er enn í dag lesin af áhugamönnum um sögu, stjórnmál og stjórnun. Segja má að fræg setning sem höfð var eftir olíujöfrinum JR í þáttunum um Dallas byggi á hugsun Furstans: „Power is not what you are given. Power is what you take.“

Fjórum öldum seinna höfðu stjórnmálin breyst og lýðræði hafði tekið við af klækjabrögðum og hernaði furstanna. Í New York borg réðu demókratar lögum og lofum undir leiðsögn félagsskapar sem kenndur var við Tammany Hall, þar sem höfuðstöðvarnar voru. Tammany var þekkt fyrir að sjá um sína, hvort sem það voru stuðningsmenn eða stjórnmálamennirnir sjálfir.

Flestir stjórnmálamenn eru ekki mikið fyrir að tala um það opinberlega hvaða vinnubrögð þeir nota. Einn af demókrötunum í New York og innsti koppur í búri hjá Tammany hét George Washington Plunkitt. Hann skrifaði opinskáar greinar um hvernig hann og félagar hans störfuðu.

george_washington_plunkitt_4525453219_2ff5c45597_o

Ljóst er að þegar hann skrifar þetta, upp úr aldamótunum 1900, eru menn þegar farnir að hafa horn í síðu vinnubragða demókratanna. Repúblikanar eru greinilega sterkari í norðurhluta New York-ríkis og þeir eru fulltrúar bænda. Upp úr 1930 fóru völd Tammany að minnka og samtökin hurfu alveg milli 1950-60. Hér á eftir eru tilvitnanir í Plunkitt úr safni af greinum og viðtölum við hann. Textinn er styttur og sums staðar endursagður.

Heiðarleg og óheiðarleg spilling

„Allir eru að tala um að Tammany menn hafi grætt á því að nýta sér aðstöðu sína, en enginn hugsar um muninn á heiðarlegri og óheiðarlegri aðstöðunotkun. Það er himinn og haf þar á milli. Víst hafa margir auðgast á stjórnmálum. Ég er einn þeirra sem hefur grætt vel á þeim leik og verð ríkari á hverjum degi. En ég hef aldrei nýtt mér aðstöðuna á óheiðarlegan hátt með því að kúga fé út úr fjárhættuspilurum, bareigendum eða óróaseggjum. Og það hefur heldur enginn þeirra sem hafa grætt vel á stjórnmálum.

Maður getur nýtt aðstöðuna á heiðarlegan hátt og ég er dæmi um hvernig það virkar. Ég get sagt það í einni setningu: „Ég sá tækifærin og nýtti mér þau.“

Ég skal skýra mál mitt með dæmum. Minn flokkur stjórnar borginni og ætlar að fara í framkvæmdir. Jæja, ég frétti að það eigi að gera skemmtigarð á ákveðnum stað. Ég sé tækifærið og nýti mér það. Ég fer á staðinn og kaupi allt það land sem ég get náð í á svæðinu. Svo gerir skipulagsnefndin áætlunina opinbera og allir vilja eignast mitt land sem enginn hafði sérstakan áhuga á áður.

Er það ekki algerlega heiðarlegt að krefjast þess að fá gott verð fyrir og að ég græði á fjárfestingunni? Auðvitað! Þetta er dæmi um heiðarlega notkun á aðstöðunni.

Tammany tapaði kosningunum árið 1901 vegna þess að fólk var blekkt til þess að halda að við stunduðum óheiðarlega spillingu. Kjósendur sáu ekki muninn á heiðarlegri og óheiðarlegri aðstöðunotkun, en þeir sáu að sumir Tammany menn urðu ríkir og gerðu ráð fyrir því að þeir hefðu tæmt borgarsjóð eða kúgað eigendur vændishúsa eða fjárhættuspilara.

Tammany hefur það sem grundvallarreglu að taka ekki þátt í neinu slíku. Af hverju ættu þeir að gera það þegar það er svona mikið til af heiðarlegum tækifærum sem þeir geta nýtt þegar þeir eru við völd? Hugsaðir þú nokkurn tíma um það?

Að lokum þetta: Ég á ekki einn einasta óheiðarlega dollara. Ef versti óvinur minn ætti að skrifa grafskrift mína gæti hann ekki skrifað neitt verra en: „George W. Plunkitt. Hann sá tækifærin og nýtti sér þau.“

Að fara í stjórnmál

Af því að ég er sérfræðingur ætla ég að gefa ungum mönnum sem eru að fara að kjósa í fyrsta sinn ókeypis ráð ef þeir vilja ná frama í stjórnmálum og miklum auð. Sumir ungir menn halda að þeir geti lært að ná árangri í pólitík af bókum og fylla höfuðið af alls kyns háskóla kjaftæði. Þeir gætu ekki gert stærri mistök. Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti háskólum. Þeir þurfa örugglega að vera til fyrir bókaorma og ég geri ráð fyrir því að þeir geri gagn með sínu lagi, en þeir hjálpa mönnum ekki í pólitík. Satt að segja er ungur maður sem hefur farið í gegnum háskóla fatlaður frá upphafi. Kannski nær hann pólitískum frama en líkurnar á því eru einn á móti hundrað.

Önnur mistök sem sumir ungir menn gera er að halda að besta leiðin til þess að búa sig undir stjórnmál og verða mælskumenn. Það er fráleitt. Við erum með nokkra mælskukónga í Tammany Hall, en þeir eru bara til skrauts. [Aðalleiðtogar] okkar æfa sig í því að halda munninum lokuðum, ekki opna hann. Þannig að þú skalt gleyma því að verða mælskur nema þú viljir halda flugeldasýningar.

Til þess að ná eyrum stjórnmálamanna þarftu að sýna að þú getir náð atkvæðum. Þá munu þeir hafa samband og spyrja: „Hvað vantar þig?“ Þannig náði ég fótfestu í stjórnmálum með því að lofa atkvæðum vina, ættingja og kunningja.

En ekki reyna að segja stjórnmálamanni sem þú vilt komast innundir hjá að þú hafir dúxað í skóla og hafir silfurtungu eða flauelskjaft. Þá segir hann: „Það er eflaust ekki við þig að sakast, en við höfum ekkert gagn af þér hér.“

Lög um opinbera starfsmenn

Greinilegt er að samþykkt hafa verið ný lög um opinbera starfsmenn, þar með með talið borgarstarfsmenn, þannig að demókratar geta ekki lengur skipað í störf að vild. Þeir höfðu áður notað borgarkerfið til þess að verðlauna vini sína. Plunkitt er ekki ánægður með breytingarnar:

„Nýju starfsmannalögin eru mesta bull samtímans. Þau eru þjóðarböl. Meðan þau eru í gildi verður aldrei sönn föðurlandsást. Hvernig á að fá unga menn til þess að fara í stjórnmál ef það eru engin störf sem hægt er að nota til þess að verðlauna þá sem vinna fyrir flokkinn sinn? Horfið bara á borgina okkar í dag. Það eru tíu þúsund góð störf, en við getum ekki ráðstafað nema nokkur hundruð þeirra. Hvernig eigum við þá að sjá fyrir þúsundum stuðningsmanna okkar? Það er ekki hægt. Þessir menn voru fullir föðurlandsástar fyrir örskömmu.

Þegar fólk kaus okkur vissi það vel hvað það var að gera. Við sigldum ekki undir fölsku flaggi. Við vorum ekkert að fela hvernig við notum borgarapparatið sem verðlaun fyrir mennina sem unnu sigur.

Menn geta kallað það misnotkun. Allt í lagi, Tammany vill misnota kerfið og þegar við komumst til valda rekum við alla þá sem eru á móti okkur, ef það er löglegt að reka þá. Eins og Tim Campbell sagði: „Hvað er stjórnarskráin á milli vina?“

Umbætur takast aldrei

Háskólaprófessorar og heimspekingar sem þurfa að hugsa úr fílabeinsturnum eru alltaf að ræða hvers vegna umbótastjórnir ná aldrei markmiðum sínum. Ástæðan er einföld: Þeir sjálfir! Það sjá allir sem hafa lært stafróf stjórnmálanna. Ég hef ekki tölu á hve margar slíkar hreyfingar hafa komið upp í New York á fjörutíu ára stjórnmálaferli mínum, en ég get sagt ykkur hve margar hafa náð árangri: Engin!

Staðreyndin er sú að umbótamenn endast ekki í pólitík. Þeir geta spriklað um stund, en svo sökkva þeir eins og steinar. Stjórnmálin eru eins og hver önnur atvinnugrein, kaupmennska eða lyfsala. Allir þurfa þjálfun, annars mistekst þeim.

Ég hef stúderað pólitík í fjörutíu ár og kann hana ekki alla enn. Ég er alltaf að læra. Hvernig getur maður ætlast til þess að „athafnamenn“ geti allt í einu stokkið inn í stjórnmálin og náð árangri? Það væri rétt eins og ég færi upp í Columbia háskólann og færi að kenna grísku. Þeir myndu endast jafnlengi í stjórnmálum og ég í háskólanum.

Maður er aldrei of ungur til þess að byrja í stjórnmálum, ef maður vill ná árangri. Ég byrjaði nokkrum árum áður en ég mátti kjósa og það sama má segja um alla sem hafa náð árangri í Tammany Hall. Þegar ég var tólf ára fór ég að mæta á kosningaskrifstofur og vann af dugnaði á kjördag.

Skilurðu nú hvers vegna endurbótamaður er sleginn út í fyrstu eða annarri lotu meðan stjórnmálamaðurinn kemur alltaf aftur inn í boxhringinn? Það er vegna þess að sá fyrrnefndi æfði sig ekki neitt meðan hinn er stöðugt í þjálfun og þekkir leikinn í smáatriðum.

Oft er sagt að Tammany foringjarnir séu ómenntaðir. Ef átt er við að við höfum „heilbrigða skynsemi“ þá erum við sekir. En ef sagt er að við kunnum ekki neitt þá er það hreint bull. Auðvitað erum við ekki allir bókaormar og háskólaprófessorar. Ef við værum það myndi Tammany kannski vinna á þúsund ára fresti. Við höfum nokkra menntamenn í samtökunum sem við notum til skrauts á tyllidögum.

Ég get alveg talað rétt þegar ég þarf þess. Bankamaður sagði við mig: „George, þú talar kjarnbestu ensku sem ég hef heyrt. En þannig tala ég ekki við venjulegt fólk í kjördæminu. Þá dettur mér ekki í hug að sýna að ég kunni málfræði eða spjalla um stjórnarskrána til þess að sýna að ég sé betur menntaður en þau. Það myndu menn ekki þola. Þannig að ég er margir menn á hverjum degi, breytist á einu augnabliki úr einum í annan.

Maður á heldur ekki að klæða sig upp á í stjórnmálum. Fólk þolir það ekki. Búðu og klæddu þig eins og nágrannarnir, jafnvel þó að þú hafir efni á meiru. Láttu fátækasta manninn í kjördæminu halda að þið séuð jafnir eða hann jafnvel skör hærra en þú. Umfram allt, ekki vera í jakkafötum. Það er ekki jafnslæmt fyrir stjórnmálamann eins og að hafa verið opinber starfsmaður eða fyllibytta, en það hafa margir fallið á því að vera of flottir í tauinu.

Einu sinni dreifðu menn kjaftasögum um að ég hefði pantað rándýran bíl og glæsileg jakkaföt. Þó að ég reyndi að leiðrétta þetta tapaði ég atkvæðum í kosningunum. Fólki hefði verið meira sama um að ég hefði tæmt borgarsjóð, því að þannig slúður heyrist alltaf í kosningum, en bíll og jakkaföt voru of mikið.

Ef þú kannt grísku og latínu og vilt sýna einhverjum hvað þú er menntaður skaltu ráða einhvern til þess að heimsækja þig til þess að hlusta á þig. Úti á akrinum þarftu að tala mál venjulegs fólks. Ég veit að það er mikil freisting að sýna hversu menntaður maður er, ég hef fundið fyrir því sjálfur, en mér tekst alltaf að berja þá hvöt niður. Ég veit nefnilega að afleiðingarnar eru skelfilegar.

Þekktu kjósandann

Eina leiðin til þess að halda sínu sæti í kjördæminu er að kynna sér eðli fólks og haga sér í samræmi við það. Maður lærir ekki um mannlegt eðli af bókum. Bækur eru til trafala ef eitthvað er. Þeir sem hafa farið í háskóla eru verr settir en aðrir. Þá þarftu að gleyma öllu sem þú hefur lært áður en þú ferð að skilja eðli mannanna. Það lærir maður bara með því að vera meðal fólksins, sjá það og gæta þess að það sjái þig. Ég veit hvað fólk vill og vill ekki. Ég þekki alla karla, konur og börn í mínu kjördæmi nema þau sem fæddust í sumar – og jafnvel sum þeirra þekki ég.

Eldra fólkið hitti ég líka. Nei, ég sendi þeim ekki kosningapésa. Það er rugl. Fólk fær alla þá pólitík sem það vill lesa í blöðunum og meira til. Hver les ræður nú á dögum hvort sem er? Það er nógu slæmt að hlusta á þær. Enginn verður kosinn með því að fylla pósthólf af bæklingum. Það verður bara til þess að menn tapa atkvæðum því að fólk þolir ekki að þurfa að fara með bæklinga út í öskutunnu. Ég hitti mann í morgun sem sagði mér að hann hefði kostið demókrata vegna þess að repúblikanar væru alltaf að fylla pósthólfið hans af áróðurspésum.

Ef hús brennur ofan af einhverjum í kjördæminu er ég kominn á staðinn um leið og slökkviliðið. Ég býðst til þess að útvega fólkinu gistingu. Það er manngæska, en það er líka góð pólitík. Hver veit hve mörg atkvæði þessir eldsvoðar skaffa mér? Fátækt fólk er þakklátast af öllum og það á líka miklu fleiri vini en þeir ríku. Ef ég geri fólki greiða gleymir það mér ekki á kjördag.

Ég gleymi heldur ekki börnunum. Þau þekkja mig öll og vita að þegar Georg frændi nálgast er von á sælgæti.

Svona vinna Tammany menn. Við förum heim til allra í kjördæminu og þekkjum alla, þarfir þeirra og hvað þeir vilja ekki. Við þekkjum vonir þeirra og vanda og nýtum þessa þekkingu fyrir flokkinn og þau. Það er ekkert skrítið að hneykslismál hafa aldrei varanleg áhrif á Tammany og við rísum allaf upp aftur frá því sem virðast vera skelfileg áföll.

Birtist í Vísbendingu 24. júní 2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.