Mörgum varð hugsað til þess vorið 2009 hvort þeim sem sitji í ábyrgðarstöðum sé hættara við veikindum en öðrum eftir að margir ráðamenn hér á landi hafa fengið alvarlega sjúkdóma. Almennt er vitað að álag og streita eru óholl en ekki eru til afgerandi niðurstöður um að stjórnmálamönnum sé meiri hætta búin en öðrum. Viðfangsefnið er þó vissulega heillandi. Meðal þeirra sem hafa skrifað um það eru David Owen fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands. Owen er læknir að mennt og hefur í stjórnmálalífi sínu kynnst mörgum ráðamönnum. Hann situr nú í Lávarðadeildinni. Því hefur hann náð meiri nálgun við viðfangsefnið en margir aðrir.
Andleg eða líkamleg veikindi?
Í bók sinni In Sickness and Power segir Owen frá því hvernig líkamleg veikindi ýmissa manna höfðu áhrif á þá þegar þeir glímdu við erfið verkefni. Meðal þeirra sem hann fjallar um eru Anthony Eden, forsætisráðherra Breta, sem var fársjúkur á tímum Súez-deilunnar árið 1956 og Kennedy Bandaríkjaforseti sem glímdi við margvíslega kvilla þegar heimurinn var á heljarþröm vegna Svínaflóaárásarinnar árið 1961. Flest tilvikin virðast þó ekki snúast um veikindi af völdum ábyrgðar heldur fremur áhrif veikindanna á ákvarðanatöku. Öllum er ljóst að þegar taka þarf ákvarðanir sem hafa áhrif á velferð heillar þjóðar, hvað þá heimsbyggðarinnar allrar, hlýtur það að taka á. Þau átök geta ekki verið minni þegar sá sem ákvörðunina tekur er fársjúkur. Þá aukast líka líkurnar á því að teknar séu rangar ákvarðanir.
Áhugaverðari er umfjöllun Owens lávarðar um valdhroka. Í bókinni The Hubris Syndrome eða Hrokaheilkennið ræðir hann um ákvörðun Bush og Blairs að ráðast á Írak. Hann segir: „En það er viðurkennt af mörgum álitsgjöfum sem mark er á takandi að samband er á milli hroka og óhæfis í Íraksmálinu. Hrokinn leiðir til þess að menn verða fullir af orku án allra upplýsinga sem máli skipta. Sjálfsöryggið leiðir til þess að menn leita ekki ráða eða hlusta á aðra, gera alvarleg mistök og hætta að hugsa málin niður í kjölinn en einbeita sér að stóru dráttunum. Allt leiðir þetta til samblands af hroka, getuleysi og lélegri dómgreind.“
Ofan á þetta segir hann að Blair og Bush hafi verið sannfærðir um að þeir væru örlagavaldar, til þess kjörnir að æðri máttarvöldum. Hann vitnar í samtal þar sem Blair líkti sjálfum sér við Churchill sem var leiðtogi Breta á stríðsárunum og átti stærstan þátt í að efla kraft þeirra gegn Þjóðverjum þegar allt virtist tapað.
Hvað um Ísland?
Hér á landi hefur ekki verið fjallað um veikindi ráðamanna með svipuðum hætti. Vitað er að Björn Jónsson sem var ráðherra á árunum 1909-11 hegðaði sér mjög einkennilega í mörgum af stjórnarathöfnum sínum. Hann talaði líka með sérkennilegum hætti við danska blaðamenn. Áður hafði ekki annað verið vitað en hann væri í andlegu jafnvægi. Andlegt ástand Hriflu-Jónasar hefur orðið mörgum til umhugsunar en hér verða þær deilur ekki rifjaðar sérstaklega upp. Þó voru flestir á því að hegðun hans hefði í versta falli ágerst meðan hann var ráðherra.
Margir ráðherrar hafa breyst í augum samferðamanna sinna við það að fá völd. Algengt er að kvartað sé yfir því að þeir verði skapstyggir og taki öllum ábendingum illa. Síst af öllu vilja þeir láta leiðrétta sig. Þessi hegðun er afar óheppileg því að enginn þarf meira á aðhaldi og ráðum að halda en sá sem ræður.
Þessi grein birtist upprunalega í 13. tbl. Vísbendingar árið 2009.
Viðbót: Þegar ég skrifaði þessa grein sá ég það ekki fyrir að ég ætti sjálfur eftir að verða ráðherra, en eftir þetta tók ég meira en áður eftir ummælum ráðherra um „hlutverk sitt í sögunni“ eða myndlíkingar sem benda til þess að þeir hafi ekki lengur talið sig venjulega menn.
Það var Jónas Haralz hagfræðingur sem benti mér á umfjöllun Owens lávarðar. Jónas fylgdist í návígi með íslenskum stjórnmálamönnum í meira en sex áratugi og hafði upplifað ýmislegt ekki síst hrokaheilkennið.