Fyrsta og eina Velvakandabréfið

Þann 11. júlí 1973 varð merkur viðburður í Íslandssögunni. Að minnsta kosti í menningarsögu minni og vina minna. Við fengum þrír birt bréf í Velvakanda, lesandadálki Moggans. Við vorum 17 og 18 ára gamlir og vildum láta ljós okkar skína, um leið og við reyndum að finna eitthvað nógu tilgangslaust og bjánalegt til þess að hæðast að þeim sem þar skrifuðu. En eins og oft þegar kaldhæðni er beitt eiga ekki allir gott með að skilja hana.

Ástæðan fyrir því að þetta varð efnið var að við höfðum ætlað að fá okkur ís í Dairy Queen ísbúðinni við Hjarðarhaga. Eitthvað kannaðist einhver okkar, eða við allir, við eina afgreiðslustúlkuna, en ekki man ég hver hún var eða hvernig þau kynni voru. Af efni bréfsins má ráða að ísbúðin hafi fyllst rétt fyrir lokun, en okkur hefði eflaust ekki getað verið meira sama, en höfðum ekkert tilgangslausara að skrifa um.

Smári vinur okkar vildi ekki taka þátt í svona kjánalátum, en Stefán, Þorgeir og ég lögðum til efni af miklum móð þar sem við sátum inni í bókaherbergi heima hjá mér. Einni setningu vorum við afar hreyknir af. Bréfið birtist í Mogganum von bráðar og við urðum ódauðlegir þar sem spekin birtist ofan við auglýsingu um sokkabuxur þar sem spurt var: Eruð þér leiðar á lykkjuföllum? Ekki veit ég hvort auglýsingin átti að höfða til „afgreiðslumeyja“ í ísbúðum.

Árar á kreik kl. 22:15

Kæri Velvakandi.

Við höfum nú ekki skrifað þér áður, Velvakandi góður, en nú finnum við okkur knúða til þess að benda á mikilsvert atriði í réttindabaráttu afgreiðslufólks í verzlunum, en eins og skáldið sagði „Oft var þörf, en nú er nauðsyn.“ Nú, að nýliðnum 1. maí, er minnzt var hinna merku sigra, sem verkalýðshreyfingin hefur unnið á undanförnum áratugum er vert að drepa á eitt atriði. Þar eigum við við hina bágu aðstöðu afgreiðslumeyja í mjólkur- og rjómaísbúðum. Svo er mál með vexti, að mjólkur- og rjómaísbúðir skulu vera opnar Viðskiptavinum um til kl. 23.30 á kvöldin og er afgreiðslustúlkum greitt kaup samkvæmt því. Ágæti þessarar þjónustu mjólkur- og rjómaísbúða er augljóst, en hins vegar er hin landlæga óstundvísi Íslendinga mjög til baga á þessu sviði sem öðrum.

Oft vill það brenna við, að búðirnar séu tómar á tímabilinu frá 22.30 þar til stundarfjórðungur er til lokunar. En þá er eins og allir árar losni úr viðjum og verzlanirnar yfirfyllast af viðskiptavinum. Veldur þetta því, að afgreiðslumeyjarnar þurfa oft að sinna þessum síðbúnu viðskiptavinum langt fram yfir réttan lokunartíma. Þetta er ekki einungis sök hinna siðbúnu kvöldrápara, heldur virðist hluti viðskiptavinanna kom inn í þeim tilgangi einum að tefja afgreiðslu með fíflalátum. Skapraunar þetta mjög bæði öðrum viðskiptavin um og afgreiðslumeyjum. Loks þegar síðasti viðskiptavinurinn drattast út, löngu eftir lokun, eiga afgreiðslumeyjarnar margt eftir ógert; hreinsa vélarnar, þvo gólf, gera upp og svo framvegis. Það er hverjum manni ljóst, að hér verður að koma til samstillt átak, ef raunveruleg bót á að verða.

Tökum höndum saman um það að vera komin i ísbúðina fyrir kl. 23.00! Á þann hátt einan er hægt að veita afgreiðslumeyjum mjólkur- og rjómaísbúða mannsæmandi vinnuskilyrði.

Með vinsemd og í einlægni,

Benedikt Jóhannesson, Laugarásvegi 49.

Stefán Jón Hafstein, Skeiðarvogi 113.

Þorgeir Rúnar Kjartansson, Karfavogi 34.

Velvakandi bætti við þönkum út frá eigin brjósti. Hann hafði reyndar breytt bestu setningunni okkar úr „Það er hverjum manni ljóst, að hér verður að koma til sameiginlegt einstaklingsframtak hins almenna borgara, ef raunveruleg bót á að verða“ í „Það er hverjum manni ljóst, að hér verður að koma til samstillt átak, ef raunveruleg bót á að verða.“ Ekki veit ég hvort hann hefur haldið að þessir ungu sveinar væru svona vitlausir eða hann hefur séð að við vorum að fíflast, en hann vitnar sérstaklega í breytingu sína innan gæsalappa í eftirfarandi athugasemd.

„Ja, þær eru ekki á flæðiskeri staddar, stúlkurnar, að eiga sér slíka stuðningsmenn í stéttabaráttunni. Það hefur lengi verið til siðs, að þeir, sem eru komnir inn i sölubúðir fyrir lokum fái afgreiðslu og ætlar Velvakandi ekki að mæla með neinni breytingu á því. Hins vegar yrði sjálfsagt mikil bót að því, að fólk lærði að raða sér upp í biðraðir í verzlunum hér, eins og alsiða er erlendis. Hvað viðkemur ólátum í ísbúðum, er sjálfsagt ekki annað ráð vænna en að henda fíflunum út. Þar gæti „samstillt átak“ afgreiðslustúlkna og friðelskandi viðskiptavina komið að góðu gagni.“

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.