Ég væri að skrökva ef ég segðist ekki vera leiður yfir útkomunni. Ef maður keppir að einhverju vill maður vinna. Í kjördæminu var fylgið talsvert minna en ég bjóst við og það eru vonbrigði. En ég er ánægður að fjórir af félögum mínum komust á þing. Þau áttu það öll skilið.
Mér finnst leiðinlegt að þau Pawel og Jóna Sólveig náðu ekki kjöri. Þau eru bæði afburðafólk, greind, vinnusöm og sjarmerandi og það er missir að þeim af Alþingi fyrir þjóðina, en það kemur dagur eftir þennan dag. Gylfi Ólafsson á líka fullt erindi á þing, þó að það tækist ekki í þetta sinn. Það sama má segja um miklu fleiri af frambjóðendum Viðreisnar.
Það þýðir ekki að leggjast í depurð. Maður verður ekki aftur þingmaður með því heldur bara þunglyndur. Ég er mjög sáttur með sjálfan mig, því að ég lagði mig fram eins og ég gat sem ráðherra og þingmaður Norðausturlands og gerði það gagn sem ég frekast mátti. Þetta hefur verið gaman.
Í kosningabaráttunni fannst mér að okkur væri vel tekið, ég hafði margt gott fólk með mér og við unnum eins best við kunnum. Við Jóhannes minn vorum margar vikur í kjördæminu og það var mjög skemmtilegt, þó að útkoman væri rýr.
Í morgun komu Vigdís (7) og Anna Lilja (5) í heimsókn og spjölluðu við afa sinn.
Þær höfðu báðar óskað sér. Anna Lilja óskaði sér að Viðreisn myndi vinna, en Vigdís óskaði sér bara að heimurinn yrði betri. Það er umdeilanlegt hvort óskirnar hafi ræst, en þær sáu samt björtu hliðarnar á hlutunum.
Vigdís sagði: „Nú getur þú verið meira með okkur.“
Og Anna Lilja bætti við: „Já, þú þarft ekki lengur að vera á fundinum.“