Virðisaukinn í ferðaþjónustu

Í lok mars lagði ég fram fjár­mála­á­ætlun til næstu fimm ára, þar sem meðal ann­ars kemur fram sú stefnu­breyt­ing að afnema und­an­þágu ferða­þjón­ustu frá almennu þrepi virð­is­auka­skatts. Í kjöl­farið er ráð­gert að lækka almennt þrep virð­is­auka­skatts um 1,5% svo það verði 22,5% frá 1. jan­úar 2019.

Ferða­þjón­usta hefur vaxið mikið á und­an­förnum árum. Hún hefur á þró­un­ar­skeiði sínu notið þess að vera í lægra skatt­þrepi virð­is­auka­skatts. Skatta­hag­ræði vegna þessa hefur verið metið um 16 millj­arðar króna ef litið er á gist­ingu, fólks­flutn­inga og afþr­ey­ingu, en auk þess milli fimm og sex millj­arðar króna í veit­inga­rekstri. Nú þegar greinin er orðin stærsta gjald­eyr­is­aflandi grein lands­ins og vex um tugi pró­senta á hverju ári er eðli­legt að virð­is­auka­skattur sé sá sami í grein­inni og í öðrum geir­um.

Hér á eftir geri ég grein fyrir efna­hags­legum bak­grunni aðgerð­anna, skatta­legum rökum og þeim grein­ingum sem gerðar hafa verið á áhrifum breyt­ing­anna. Í grein­inni er að stórum hluta byggt á grein­ingum sem unnar hafa verið í fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu.

1. Stöðugt efna­hags­líf

Ferða­þjón­usta var lengi fremur lítil atvinnu­grein hér á landi, en er nú orðin ein af þeim veiga­mestu í land­inu. Sam­setn­ing lands­fram­leiðsl­unnar hefur breyst með til­færslu á vinnu­afli og öðrum fram­leiðslu­þátt­um. Fjölgun ferða­manna hefur raunar farið vax­andi en hún var á bil­inu 18-24% á árunum 2011-2014, milli áranna 2014 og 2015 var fjölg­unin nærri 30% og ferða­mönnum fjölg­aði ennþá meira árið 2016, eða um 40%. Sam­kvæmt spám grein­ing­ar­að­ila er gert ráð fyrir að fjölg­unin verði nálægt 30% til árs­ins 2017 og að ferða­menn verði þar með orðnir yfir 2,3 millj­ónir tals­ins. Þurfi frek­ari vitn­anna við, þá flugu árið 2002 tvö flug­fé­lög til lands­ins. Í fyrra voru þau 26 tals­ins, þar af 11 með flug allt árið.

Vægi ferða­þjón­ust­unnar í vergri lands­fram­leiðslu (VLF) er orðið mjög hátt í sam­an­burði við önnur lönd. Greinin stóð með beinum hætti fyrir 8,1% af VLF árið 2015 og með óbeinum og afleiddum áhrifum hækkar talan upp í um 27%.

Nýt­ing á gisti­rými og fólks­flutn­inga­bílum hefur stór­batnað og því eðli­legt að afkoma fyr­ir­tækja í grein­inni hafi færst betra horf. Nýt­ingin er orðin betri en víð­ast hvar í nágranna­lönd­um. Á það hefur rétti­lega verið bent að gengi krón­unnar hafi styrkst mikið og það geti valdið erf­ið­leikum í rekstri þeirra sem hafi selt þjón­ustu sína með löngum fyr­ir­vara. Verð­mæl­ingar Hag­stof­unnar sýna að verð á ferða­þjón­ustu hafi hækkað í íslenskum krónum um 11% árið 2016 og greinin virð­ist því hafa getað brugð­ist við auk­inni eft­ir­spurn með verð­hækk­un­um. Benda má á að verð hót­elgist­ingar í Reykja­vík hefur hækkað um 40% á síð­ustu þremur árum.

Vöxtur ferða­þjón­ustu átti sér stað á heppi­legum tíma fyrir Ísland eftir banka­hrunið haustið 2008. Atvinnu­leysi er nú afar lít­ið. Hag­vöxtur síð­ustu ára hefur verið drif­inn áfram af ferða­þjón­ustu og hún er nú grunn­stoð undir hag­kerfið sem of fábreytt fyr­ir. Þá er ljóst að Íslend­ingar fagna fleiri kaffi­húsum og veit­inga­húsum og betri flug­sam­göngum við útlönd sem allt eru beinar afleið­ingar af vext­in­um.

Blikur á lofti

Nú er svo komið að vöxtur í ferða­þjón­ust­unni er orð­inn mjög mik­ill og far­inn að hafa nei­kvæðar afleið­ing­ar. Nær allir grein­endur og stefnusmiðir sem fjallað hafa um ferða­mennsku vara við því að svo ör vöxtur geti leitt til efna­hags­legs og umhverf­is­legs ófarn­að­ar.

Stór þáttur er stór­hækkun á raun­gengi krón­unn­ar. Hún hefur aftur í för með sér að sam­keppn­is­staða ann­arra greina versnar sem því nem­ur. Nefna má sjáv­ar­út­veg og ýmis þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki í fram­leiðslu, hönnun og hug­bún­aði. En áhrifin eru víð­tækari, því þau ná einnig til fyr­ir­tækja sem keppa við inn­fluttan varn­ing, fyr­ir­tækja eins og inn­rétt­inga­smiði og mat­væla­vinnsl­ur.

Gjald­eyr­is­forða­söfnun Seðla­bank­ans er dýr og getur ekki gengið enda­laust. Sam­keppni um vinnu­afl og fjár­magn harðn­ar. Inn­viðir ýmsir eru þand­ir, og margir þeirra þarfn­ast fram­laga rík­is­ins til við­halds og fram­kvæmda. Hús­næð­is­mark­að­ur­inn á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er þan­inn.

Helstu hag­stjórn­ar­tæki rík­is­ins eru ann­ars vegar vaxta­á­kvarð­anir Seðla­bank­ans og hins vegar afgangur á rík­is­fjár­mál­um. Spenna í efna­hags­kerf­inu veldur því að skila þarf auknum afgangi af rík­is­sjóð­i.

Fram­kvæmdir verða dýr­ari þegar verk­takar hafa um mörg verk­efni að velja. Þetta ger­ist á sama tíma og krafa er uppi um aukin útgjöld til inn­viða­upp­bygg­ingar og vel­ferð­ar­mála. Við bæt­ast margra millj­arða fram­úr­keyrslur á fjár­lögum ófjár­magn­aðar og sam­göngu­á­ætl­un, að hluta ófjár­mögn­uð.

Á sama tíma nýtur þjón­usta við ferða­menn skatta­legrar íviln­unar gagn­vart öðrum atvinnu­grein­um. Obb­inn af þjón­ustu sem ferða­menn kaupa er í lægra virð­is­auka­skatts­þrep­inu, þrep­inu sem almennt hefur verið notað fyrir brýn­ustu nauð­synjar og hluti sem sér­stök ástæða telst til að njóti sér­kjara, eins og mat­ur, menn­ing­ar­starf­semi, smokkar og bleyj­ur. Áætlað hefur verið að þessi ívilnun jafn­gildi um 22 millj­örðum króna árlega. Skattaí­viln­unin er hlut­falls­lega mikil og kostn­að­ar­söm sam­an­borið við önnur lönd sökum þess hversu þungt greinin vegur í lands­fram­leiðsl­unni. Þessi meg­in­grein atvinnu­lífs­ins, grein sem er yfir 8% af hag­kerf­inu, skil­aði árið 2016 um 3% af tekjum rík­is­ins af virð­is­auka­skatt­i.

Staðan er því snú­in. Stjórn­völdum ber skylda til að bregð­ast við efna­hags­legum áhrifum af stig­vaxt­andi vexti ferða­þjón­ust­unnar og afla tekna til að fjár­magna inn­viða­fjár­fest­ingar og aðra þjón­ustu rík­is­ins.

2. Ein­faldir skattar

Ein mót­væg­is­ráð­stöfun sem stjórn­völd hafa nú afráðið í þessu skyni er að færa sölu á þjón­ustu við ferða­menn í almennt þrep virð­is­auka­skatts­kerfs­ins úr lægra þrep­inu. Áfram verði þó veit­inga­sala í neðra þrepi, til sam­ræmis við aðra mat­vöru. Grein­arnar sem fær­ast á milli skatt­þrepa eru gist­ing, fólks­flutn­ingar í afþrey­ing­ar­skyni, þjón­usta ferða­skrif­stofa, ferða­skipu­leggj­enda og ferða­fé­laga, ferða­leið­sögn og bað­að­staða og heilsu­lind­ir.

Fimm flugur

Breyt­ingin hefur marg­þættan til­gang. Í fyrsta lagi leit­ast hún við að hægja á vexti ferða­þjón­ust­unnar og draga þannig úr þrýst­ingi til hækk­unar á gengi krón­unn­ar. Hátt gengi krón­unnar skerðir við­gang ann­arra útflutn­ings­greina. Eins og grein­ingar okkar sýna (sjá neð­ar) mun vöxt­ur­inn halda áfram að vera rösk­ur. Að því marki sem þetta hefur áhrif á til fækk­unar veldur það minni þrýst­ingi á geng­is­styrk­ing­u.

Í öðru lagi jafnar aðgerðin rekstr­ar­grund­völl atvinnu­greina í land­inu og horfið er frá því að sér­stök skatta­leg ívilnun bjagi afkomu og sam­keppni um vinnu­afl og fjár­magn. Þetta felur í sér að aðgerðin stuðlar að hag­kvæm­ari nýt­ingu fram­leiðslu­þátta til hags­bóta fyrir þjóð­ar­búið með sam­ræmdri skatt­á­lagn­ing­u.

Í þriðja lagi gerir aðgerðin það að verkum að einn af höf­uða­tvinnu­veg­unum skilar ekki til­tölu­lega litlum tekjum til að standa undir bæði kostn­aði hins opin­bera við hana og almennri sam­neyslu heldur tekur sama þátt í því og aðrar grein­ar.

Í fjórða lagi gerir aðgerðin skatt­kerfið skil­virkara og ein­fald­ara með því að fækka und­an­þág­um. Íslenskt skatt­kerfi hefur raunar legið undir ámæli fyrir að vera óskil­virkt að þessu leyti, meðal ann­ars í skýrslum OECD.

Í fimmta og síð­asta lagi aflar aðgerðin rík­inu tekna. Til að byrja með, frá 1. júlí 2018, munu þær tekjur renna í rík­is­sjóð, en hálfu ári seinna, þegar gert er ráð fyrir að byrjað sé að slakna á spenn­unni í hag­kerf­inu, verður almennt þrep virð­is­auka­skatts lækkað um 1,5% niður í 22,5%. Bilið milli þrepanna tveggja þreng­ist þar með úr 13% í 11,5%. Með lækkun almenna þreps­ins verður þörf fyrir verð­hækk­anir í ferða­þjón­ust­unni vegna til­færslu starf­sem­innar á milli virð­is­auka­skatts­þrepa minni en ella hefði orð­ið. Útgangs­punkt­ur­inn er að skatt­stig sé að mestu óbreytt, en að stefna að skil­virkni í skatt­heimtu.

Dreif­ing ferða­manna enn úrlausn­ar­efni

Ákvörð­unin er ekki tekin úr lausu lofti heldur byggir hún meðal ann­ars á vinnu sem fram fór meðal ann­ars á vegum sam­ráðs­vett­vangs um aukna hag­sæld og sam­kvæmt ráð­legg­ingum AGS og OECD. Þær hug­myndir gengu raunar út á að fella allan virð­is­auka­skatt undir eitt þrep sem þá gæti verið 19,7%, en það er ekki ætl­unin í bili meðal ann­ars vegna áhrifa á kostnað við mat­ar­inn­kaup. Þar liggur þó ástæðan fyrir því að ekki hefur verið talið fært að setja ferða­þjón­ust­una í milli­þrep eins og hug­myndir hafa verið um; þegar mark­miðið er öðrum þræði ein­földun skatt­kerfis er úr ekki skyn­sam­legt að bæta þriðja þrep­inu við.

Þessi ákvörðun er til­kynnt með 15 og 21 mán­aða fyr­ir­vara. Hún markar stóru lín­urn­ar. Fram að þeim tíma gefst færi til að taka ákvarð­anir um önnur tengd atriði. Þannig er nauð­syn­legt að efla með ráðum og dáð eft­ir­lit í ferða­þjón­ustu, svo sem skatt­skilum og upp­lýs­inga­skrán­ingu. Breyt­ingar á skatt­kerf­inu verða að auð­velda fyr­ir­tækjum að skila skatti. Þá er það ljóst að aðgerðin felur ekki beina stýr­ingu eða dreif­ingu ferða­manna, hvorki innan árs eða milli lands­hluta. Til þess þarf önnur verk­færi sem áfram verður að skoða vel.

Stundum hefur því verið haldið fram að þetta sé í ósam­ræmi við aðrar útflutn­ings­greinar eins og sjáv­ar­út­veg og áliðn­að, sem ekki greiða virð­is­auka­skatt af seldri vöru en geta fengið skatt­inn end­ur­greiddan af öllum aðföng­um. Þetta byggir á þeim mis­skiln­ingi að almenna reglan er að virð­is­auka­skattur greið­ist þar sem vara eða þjón­usta er not­uð. Á sama hátt og inn­fluttar vörur borga virð­is­auka­skatt til íslenska rík­is­ins þegar þær lenda á Sunda­bakka, borga útfluttar vörur virð­is­auka­skatt þegar þær koma á áfanga­stað.

3. Lík­leg áhrif aðgerða

Í aðdrag­anda fram­lagn­ingar fjár­mála­á­ætl­unar var unnið tölu­vert starf innan bæði fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins og atvinnu- og nýsköp­una­ráðu­neyt­is­ins til að kort­leggja ferða­þjón­ust­una og skatt­greiðslur henn­ar, hvaða skatta­breyt­ingar skyn­sam­legt væri að fara út í og að greina hvaða lík­legu áhrif þær gætu haft. Nið­ur­stöður grein­ing­ar­innar má meðal ann­ars sjá á vef fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins.

Í stuttu máli er nið­ur­staðan sú, að afnám skatta­legrar íviln­unar grein­ar­innar hafi fremur lítil áhrif á kostnað við með­al­ferð til Íslands og muni því ein og sér ekki hafa veru­leg áhrif á fjölda eða fjölgun þeirra. Að því marki sem breyt­ingin hefur áhrif, er það til að hægja á örum breyt­ingum í hag­kerf­inu með mik­illi geng­is­styrk­ing­u.

Allar spár um fram­tíð­ina eru erf­iðar í þessu sam­hengi, enda hafa breyt­ing­arnar á gengi, fjölda ferða­manna og öðrum þáttum verið á fleygi­ferð síð­ustu ár. Ein stór for­senda sem skoða þarf í þessu sam­hengi er að hversu miklu leyti ferða­menn bera skatt­inn og hversu mikið fyr­ir­tækin gera það sjálf. Senni­leg­ast er að neyt­endur beri bróð­ur­part­inn. Önnur for­senda sem er óljós er verð­teygni, sem er mæli­kvarði á það hvernig neysla breyt­ist þegar verð hækkar eða lækk­ar.

Sé miðað við að breyt­ing­unni verði velt að fullu út í verð­lagn­ingu ferða­þjón­ust­unnar þá er ljóst að hækk­unin verður ekki umtals­verð. Útreikn­ingar sýna að um 40% af neyslu ferða­manna er í þeim flokkum sem munu falla undir hærra skatt­þrep. Að með­al­tali væri þá um að ræða tæp­lega 5% hækkun á heild­ar­kostn­aði við Íslands­ferð.

Þegar þetta er sett í sam­hengi við verð­teygni sést að áhrif á fjölda ferða­manna eru fremur lít­il. Í sviðs­mynd sem gerði ráð fyrir að með­al­tals­vöxtur ferða­manna síðan 1980 héld­ist áfram (7,7% á ári) verði vöxt­ur­inn þess í stað 5,9% á ári, og með vöxt síð­ustu fimm ára (26% á ári) yrði hann 23,7%, að gef­inni verð­teygni upp á -0,4. Nýleg grein­ing Arion banka bendir til þess að fyrri talan sé senni­lega nær lagi (enda aukn­ing upp á tugi pró­senta ekki sjálf­bær), en að vöxt­ur­inn muni halda áfram.

Á sama tíma hefur breyt­ingin hverf­andi áhrif á kostnað við neyslu lands­manna þar sem vísi­tala neyslu­verðs mundi ein­ungis hækka um 0,06%. Þau áhrif drukkna í áhrif­unum af lækkun almenna þreps­ins niður í 22,5% en þau eru áætluð 0,46% til lækk­un­ar. Sam­tals er gert ráð fyrir að verð­lag lækki um 0,4%.

Föt og far­símar, lyf og leikja­tölv­ur, bílar og bók­halds­þjón­usta; allt er þetta í almennu þrepi virð­is­auka­skatts og lækkar um 1,5% í jan­úar 2019.

Breyt­ingin hefur þau áhrif þá, að tíma­bundnir gestir greiða hærri skatt, almenn­ingur á Íslandi lægri. Meg­in­n­eysla beggja hópa verður í sama skatt­þrepi, en útlend­ing­arnir njóta ekki lægri skatt­greiðslna en Íslend­ing­ar. Rétt er að benda á að mikil áhersla hefur verið lögð á gildi þess fyrir Ísland að byggja ekki upp ferða­þjón­ustu á fjöld­anum heldur leggja áherslu á þá sem til­búnir eru að eyða meira fé. Lík­legt er að þessi aðgerð stuðli einmitt að því að svo miklu leyti sem hún hefur áhrif á ákvörðun um kaup á ferð­um.

Styttri dval­ar­tími

Rætt hefur verið um að dval­ar­tími ferða­manna hafi styst á Íslandi eftir að gengi krón­unnar hækk­aði. Þar er nefnt að með­al­lengd dval­ar­tím­ans hafi styst úr 4,5 nóttum í 3,8. Það er vissu­lega ekki frá­leitt að ætla að dval­ar­lengdin hafi styst þegar verð hækk­ar. Hér kann þó fleira að koma til. Und­an­farin ár hefur nýt­ing hót­ela verið með allra hæsta móti, sér­stak­lega á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og sér­stak­lega yfir sum­ar­tím­ann.

Nýt­ing hót­el­her­bergja í Reykja­vík og nágrenni var. 94,3% í júlí 2016 sam­an­borið við 90,4% árið áður. Á sama tíma­bili fjölg­aði ferða­mönnum um 31% en gistin­óttum aðeins um 7%. Því virð­ist blasa við að styttri dval­ar­lengd erlendra ferða­manna megi að stórum hluta rekja til styttri dval­ar­tíma yfir sum­ar­tím­ann, þegar skortur á fram­boði hót­el­her­bergja gerir það að verkum að ekki er hægt að dvelja jafn­lengi. Einnig hefur sú til­gáta verið studd rökum að umfang óskráðra gist­inga hafi auk­ist.

Einnig má benda á að hlut­fall þeirra sem koma að vetr­ar­lagi hefur stór­aukist, en ferða­menn dvelj­ast að jafn­aði skemur á Íslandi á vet­urna en sumr­in.

Nokkrar grein­ingar voru gerðar árið 2012 í tengslum við fyr­ir­hug­aðar breyt­ingar þá, meðal ann­ars af Hag­fræði­stofnun Háskóla Íslands. Þá voru að vísu uppi að nokkru leyti aðrar for­send­ur, einkum þegar litið er til þess hve ör vöxt­ur­inn hefur verið síð­an. Í grein­ingu Seðla­bank­ans í Fjár­mála­stöð­ug­leika í októ­ber 2016 er birt áfalla­sviðs­mynd þar sem metin eru áhrif þess að erlendum ferða­mönnum fækk­aði og yrðu jafn­margir og árið 2012. Við slíkar aðstæður er metið að verg lands­fram­leiðsla drag­ist saman um 3,9% fyrsta árið og 1,3% á öðru ári.

Aðeins um gisti­þjón­ustu í Dan­mörku

Aðilar í ferða­þjón­ustu hafa und­an­farið gagn­rýnt áform stjórn­valda um hækkun virð­is­auka­skatts á ferða­þjón­ustu, þá sér­stak­lega gist­ingu. Bent hefur verið á að Danir hafi hækkað vask á gist­ingu og fjölda gistin­átta fækkað veru­lega í kjöl­far­ið.

Virð­is­auka­skatt­ur­inn var hækk­aður í Dan­mörku árið 1992 og hækk­unin var úr 22% í 25%. Spyrja má hvort það komi ekki á óvart að slík hækkun hafi jafn geig­væn­leg áhrif á ferða­þjón­ustu í Dan­mörku og sumir hafa látið í veðri vaka. Þegar nánar er litið á málið kemur í ljós að hnignun danskrar ferða­þjón­ustu á sér ekki stað fyrr en um 1997-1998. Árið 1992 voru 69% gistin­átta erlendra ferða­manna til komin vegna Þjóð­verja. Eftir því sem Evr­ópa opn­að­ist á tíunda ára­tug síð­ustu aldar fór Þjóð­verjum að bjóð­ast aðrir val­mögu­leikar um áfanga­staði. Færri fóru þá til Dan­merk­ur. Í ljósi þess hve hlut­deild Þjóð­verja var mikil í danskri ferða­þjón­ustu náði aukn­ing ferða­manna ann­ars staðar frá ekki að vega upp á móti þeim sam­drætti.

Grein­ing AGS: Vöxtur heldur áfram

Eins og áður sagði er erfitt að nota fyrri ár sem grund­völl á spá um fram­tíð­ina, enda margar for­sendur á fleygi­ferð. Því var sér­stak­lega litið til rann­sóknar Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins sem birt var 2014 og fjall­aði meðal ann­ars um afdrif ferða­þjón­ustu í löndum þar sem gengi hafði stór­breyst eða fjöldi ferða­manna auk­ist mjög mikið.

Meg­in­nið­ur­stöð­urnar sem við eiga hér á landi eru helstar tvær. Ann­ars vegar er það svo að í löndum þar sem fjöldi erlendra ferða­manna hefur auk­ist meira en 200% á 5 árum (217% á Íslandi) helst vöxt­ur­inn yfir­leitt áfram kröft­ug­ur, eða 100 – 200% næstu 5 ár, í sam­an­burði við önnur lönd – þótt það hægi eitt­hvað á vext­in­um.

Í öðru lagi: Í löndum þar sem raun­gengi hefur styrkst meira en 20% á tveimur árum (svipað og á Íslandi) jókst fjöldi ferða­manna að jafn­aði um 20% næstu tvö árin eftir sam­an­borið við 35% tvö ár á und­an. Sá þáttur sem hefur mest áhrif á fjölda ferða­manna í smærri ríkjum og eyjum frekar en breyt­ingar á raun­gengi er tíðni og kostn­aður flug­ferða til stað­ar­ins.

Í skýrslu sinni frá því fyrr í mán­uð­inum sagði Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn raunar að ferða­menn væru ekki síld; ekki væru ástæður til að halda að hrun í komum ferða­manna væri í kort­unum.

Ytri aðstæð­ur

Sam­kvæmt tölum Alþjóða ferða­mála­stofn­un­ar­inn­ar, UNWTO, ferð­uð­ust um 1,2 millj­arðar manna yfir landa­mæri í heim­inum árið 2015. Þar af ferð­uð­ust 608 millj­ónir yfir landa­mæri í Evr­ópu sem er 5% meira en árið áður. Þar af var námu ferða­menn í Norður Evr­ópu 76 millj­ónum sem gerir 6,4% mark­aðs­hlut­deild. Hlut­deild Íslands í ferða­manna­straumnum í Evr­ópu er þannig um 0,4%.

Eftir mörg ár efna­hags­þreng­inga og lít­ils hag­vaxtar á Vest­ur­löndum í kjöl­far fjár­málakrepp­unnar sem hófst árið 2008 er útlit fyrir að hag­vöxtur í Evr­ópu og Banda­ríkj­unum glæð­ist á næstu miss­er­um. Rann­sóknir sýna að ferða­mennska eykst jafnan í takt við auk­inn hag­vöxt og kaup­mátt og má því búast við að þessi jákvæða efna­hags­þróun í helstu mark­aðs­löndum ferða­þjón­ust­unnar hér á landi muni stuðla að auk­inni eft­ir­spurn og vega á móti áhrifum af kostn­að­ar­hækk­un­um.

Er nóg gert?

Þannig eru ýmsar for­sendur til þess að áfram muni ferða­þjón­ustan vaxa hratt. Verði áhrifin af hærri virð­is­auka­skatt­á­lagn­ingu á ferða­menn fremur lít­il, eins og ýmis­legt bendir til, þannig að vöxtur atvinnu­grein­ar­innar heldur áfram að mæl­ast í tveggja stafa tölu, og raun­gengi krón­unnar heldur áfram að stíga, munu stjórn­völd þurfa að taka til skoð­unar fleiri úrræði til að hægja á þró­un­inni og varna ójafn­vægi í hag­kerf­inu.

Gangi þetta í hina átt­ina, og ferða­þjón­ustan dregst saman vegna skatt­kerf­is­breyt­ing­anna, má benda á að þær eru aft­ur­kræf­ar. Skatt­inum er hægt að breyta aftur eða fara í aðrar aðgerðir til að styðja grein­ina. Verð­breyt­ingar árið 2016 benda ekki til þess að verð­teygni sé mik­il, eða að á móti nei­kvæðum áhrifum af hækkun inn­lends verð­lags og styrk­ingu krón­unnar vegi gott orð­spor Íslands, mark­aðs­starf og mikil aukn­ing á flug­þjón­ustu til lands­ins.

Áhrifin á lands­byggð­ina

Á það hefur verið bent að áhrif skatt­breyt­ing­anna gætu verið verri á lands­byggð­inni en á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Það má til sanns vegar færa að á lands­byggð­inni eru fyr­ir­tæki minni og meira veik­burða en þau eru á suð­vest­ur­horn­in­u.

Meðal ann­ars vegna þessa höfum við Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir ráð­herra ferða­mála og nýsköp­unar rætt um að sér­stak­lega þurfi að skoða mark­aðsá­tak fyrir lands­byggð­ina og beina kröftum opin­berra aðila meira í þá átt. Þar hefur margt verið vel gert en áfram þarf að halda á þeirri braut.

Ferða­þjón­usta er ekki eina greinin á lands­byggð­inni. Þar eru útgerð­ar­fyr­ir­tæki sem berj­ast við hækk­andi krónu og fyr­ir­tæki sem selja vörur sínar í almennu þrepi virð­is­auka­skatts. Þau njóta góðs af breyt­ing­unum nái þær til­gangi sínum að sporna við styrk­ingu krón­unn­ar.

Þá er mik­il­vægt að tala um flug­leið­ir, en fram­boð flugs er einn af stóru áhrifa­þátt­unum í dreif­ingu ferða­manna. Nú er beint flug milli Kefla­víkur og Akur­eyrar í boði og er það mikil bót. Til­raunin hefur gengið vel fyrstu mán­uð­ina, en hug­myndin er að á vet­urna verði flug fimm daga í viku og stuðla þannig að meiri dreif­ingu ferða­manna um land­ið. Miklir pen­ingar sem fara í Flug­þró­un­ar­sjóð þurfa að nýt­ast betur til að ná þeim mark­miðum sem honum eru ætl­uð.

Kjarni máls­ins

En fjár­mála­á­ætl­unin og virð­is­auka­skattur er ekki upp­haf og endir alls. Þannig er unnið að því að auka stöð­ug­leika gengis íslensku krón­unnar til skemmri og lengri tíma. Spár benda til þess að þessar aðgerðir hafi fjöl­þætt jákvæð áhrif, en þegar hið óvænta kemur upp, verða stjórn­völd að vera á tánum á sama hátt og fyr­ir­tækin í land­inu verða að aðlaga sig að breyttum ytri aðstæð­u­m.

Virð­is­auk­inn í ferða­þjón­ustu er afar mik­ill. Það er gleði­legt. Því er eðli­legt að hún sé í sama skattaum­hverfi og aðrar grein­ar.

Helstu nið­ur­stöður

Að öllu þessu sögðu eru helstu nið­ur­stöð­urnar þess­ar:

1. Efna­hags­legar aðstæður þjóð­ar­bús­ins og vöxtur ferða­þjón­ust­unnar gera það saman að verkum að ekki er lengur ástæða fyrir skatta­lega ívilnun til grein­ar­inn­ar.

2. Grein­ingar benda til þess að áfram muni vöxtur ferða­þjón­ustu verða kröft­ug­ur.

3. Ein­fald­ara skatt­kerfi og færri und­an­þágur bæta skil­virkni tekju­öfl­unar rík­is­ins.

4. Lækkun almenns þreps kemur neyt­endum og atvinnu­líf­inu til góða.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggurum líkar þetta: