Ein meginástæðan fyrir því að ég lagði fyrir mig stjórnmál var að mig langaði til þess að breyta stjórnmálaumræðunni. Búa til umræðu þar sem menn rökræddu málefni en níddu ekki niður pólitíska andstæðinga. Við í Viðreisn bjuggum okkur meira að segja til reglur um orðræðu þar sem segir meðal annars:
„Við skulum taka höndum saman og tala öðruvísi en hefðbundnir stjórnmálamenn. Góð orðræða er hluti af grunngildum okkar.
Mikilvægt er að við temjum okkur gott orðfæri á netinu sem og annars staðar og hafa í huga að orð eru til alls fyrst og þeim fylgir ábyrgð.
Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við tölum eða sendum skilaboð frá okkur.“
Eflaust hefur okkur orðið á einhvern tíma í hita leiksins, sagt orð sem betur hefðu verið ósögð, skrifað eitthvað sem engum var til gagns eða sóma. Ég get fúslega viðurkennt að oftar en einu sinni þurfti ég að halda aftur af mér í kosningabaráttunni, þegar ég var með eitraða athugasemd á vörunum. En ég held mér hafi tekist það stórslysalaust að fylgja orðfæri Viðreisnar í kosningabaráttunni.
Stundum verð ég gáttaður á hvað fólk sem ég veit engin deili á lætur frá sér. Einhver maður skrifaði á FB-síðu mína nóttina eftir kjördag um mig:
„Þessi maður á ekkert gott skilið.“
Ég þurrkaði ummælin einfaldlega út og hugsaði með mér að þetta væri einhver maður sem ætti bágt. Vinkona mín hafði séð þau og forvitnaðist um hver þessi maður væri með því að fara á heimasíðu hans. Þar kom í ljós að þetta var virðulegur eldri maður sem hélt utan um falleg barnabörn á myndum.
Ég var svosem ekki andvaka yfir þessum ummælum, en man þau þó. Fyrir nokkrum árum skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson grein sem hét Virkur í athugasemdum, þar sem hann rakti ummæli ókunnugs fólks um hann sjálfan.
Líklega hefur þessi maður bara verið búinn að fá sér of mikið neðan í því á kosninganóttina. Öl er oft annar maður.
Í aðdraganda kosninganna skrifaði kunningi minn grein um hlutabréfaviðskipti mín sem hann taldi að Fjármálaeftirlitið hefði átt að taka til athugunar. Eftirlitið birti þá yfirlýsingu um að það hefði einmitt skoðað þessi viðskipti og ekkert fundið athugavert. Kunningjanum til hróss bera að taka fram að hann bað mig afsökunar á skrifum sínum.
Eftir að Viðreisn og Björt framtíð hófu stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn hófust hatrammar árásir á Óttarr Proppé, formann Bjartrar Framtíðar. Ég skrifaði færslu af því tilefni þar sem ég sagði meðal annars: „Við skulum ná okkur upp úr hjólförum gamalla vinnubragða og bera virðingu fyrir okkur sjálfum og pólitískum andstæðingum með því að nota ekki tortryggni, hatur og ofbeldi, allra síst þegar stjórnmál eru í eðlilegum farvegi.“
Ég finn að ég hef litlar áhyggjur af því þegar fólk sem ég þekki ekkert eða hef litlar mætur á skrifar um mig skammir eða dylgjur. En þegar fólk sem er allajafna sanngjarnt og réttsýnt fellur í þann pytt get ég snöggreiðst og gleymi þá góðum áformum um yfirvegaða umræðu.
Þessa dagana gengur nafnlaust myndband um meintan svikaferil minn í viðskiptum og víðar á netinu. Þar eru ýmis atriði úr mínum ferli tekin upp og gefið í skyn að ég sé hinn versti þrjótur. Ég sá að einhverri konu varð flökurt að lesa um þennan ódám.
Ég ætla ekki að fara yfir þau atriði öll hér, atriði sem í besta falli eru villandi og sum röng. Nefni þó tvennt:
Mér er gefið að sök að hafa með einhverjum hætti stuðlað að gjaldþroti Eimskipafélagsins tæplega fimm árum eftir að ég lét af formennsku í félaginu. Hið sanna í því máli er að Landsbankinn, sem þá var viðskiptabanki Eimskipafélagsins, ákvað að leiða fjandsamlega yfirtöku á félaginu. Orðalagið „fjandsamleg yfirtaka“ er oftast notuð í þeirri merkingu að yfirtakan sé fjandsamleg fyrri eigendum, en í þetta sinn var hún beinlínis fjandsamleg félaginu sjálfu sem er óvenjulegt. Flestir stjórnendur voru látnir fara á árunum 2003-4. Einn ágætur félagi minn og fyrrverandi innanbúðarmaður í Eimskipafélaginu sagði af því tilefni: „Eimskipafélagið er svo gott félag að það tekur að minnsta kosti fjögur ár að gera það gjaldþrota, en þá þurfa menn til þess einbeittan vilja.“ Fjórum árum síðar var þetta fyrrum óskabarn þjóðarinnar komið í þrot. Þegar ég lét af formennsku var félagið fjárhagslega sterkt með tíu þúsund hluthafa, en eftir 9. október 2003 hafði ég engin afskipti af félaginu.
Eins er talað um að ég hafi komið Sjúkratryggingum Íslands á laggirnar til þess að einkavæða heilbrigðiskerfið. Hér gætir mikils misskilnings. Sjúkratryggingar Íslands sjá um að greiða fyrir hlut ríkisins í heilbrigðisþjónustu og semja um verð á henni. Þetta hlutverk var áður hjá Tryggingastofnun að mestu. Sjúkratryggingar sjá ekki um neina einkavæðingu, en semja við aðila sem veita þjónustu, hvert sem rekstrarformið er. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG hafði verið skeptískur á Sjúkratryggingar en í upphafi árs 2009 varð hann heilbrigðisráðherra. Það er alþekkt að við Ögmundur höfum ólíka pólitíska sýn, en ég hélt áfram sem formaður allan ráðherraferil hans. Ögmundur er ekki þekktur baráttumaður fyrir einkavæðingu. Mér þykir vænt um þennan tíma því að við Ögmundur kynntumst betur og allt okkar samstarf var með miklum ágætum. Enn einu sinni komst ég að því að hve langt maður getur náð í samskiptum, ef maður aðskilur málefnin og mennina.
Ég sé það er líka lagt mér til lasts að þeir bræður Benedikt og Einar Sveinssynir eru vinir mínir og frændur. Það er ekkert leyndarmál að ég hef frá barnsaldri litið upp til nafna míns. Hann og nafni okkar Blöndal voru litla frænda sínum góðir. Benedikt er mikill mannkostamaður, yfirvegaður og ráðhollur. Af honum hef ég margt gott lært, meðal annars það að skynsamlegt er að sætta sjónarmið eins og kostur er. Einar Sveinsson og Birna kona hans eru persónulegir vinir okkar hjóna, við höfum farið víða saman og af þeim löngu kynnum hef ég gott eitt að segja. Þau eru góðir félagar og traustir vinir. Þegar Einar Sveinsson og Ólafur B. Thors stjórnuðu saman Sjóvá-Almennum var það samdóma álit allra starfsmanna að betri yfirmenn væri ekki hægt að fá.
Eflaust hefur þeim bræðrum ekki líkað allt mitt pólitíska brölt, en það hefur engu breytt um okkar vináttu. Mennirnir og málefnin eru sitthvað.
„Let the bastard deny it,“ sagði Lyndon Johnson, sem löngu síðar varð forseti Bandaríkjanna, þegar hann laug upp á mótframbjóðanda sinn að hann hefði kenndir til svína. Það hefur löngum þótt vænleg leið til árangurs að láta menn neita einhverju neyðarlegu. Það loðir alltaf eitthvað við.
Stundum mæti ég mönnum sem á netinu skrifa hnarreistir um hvílíkt dusilmenni ég sé. Í raunheimum eru þeir niðurlútir og augun leita að brennipunkti fjarri mér.
En af því að Viðreisn vill vera öðruvísi flokkur er ekki vænlegt að svara í sömu mynt. Reglurnar okkar eru ágætar þó að maður fari stundum út af þeim eins og öðrum góðum áformum:
• Við ræðum um málefni en ráðumst ekki á fólk.
• Við notum rök og staðreyndir í málflutningi okkar og styðjumst ekki við gróusögur
• Við notum aldrei hatursáróður eða tökum þátt í hatursumræðu
• Við beitum aldrei dómhörku í málflutningi okkar
• Við tölum af virðingu um fólk og virðum öll trúarbrögð, skoðanir, kynhneigð, störf, stjórnmálaskoðanir, tungumál, uppruna fólks og áhugamál.
• Við leggjum fram vel rökstuddar málefnaskrár og tillögur
• Við tölum aldrei niður til viðmælenda okkar eða lítillækkum þá
• Við notum ekki neikvæð orð eins og „rangfærslur, blekkingar, rökleysur, óþolandi, áróðursstríð, fíflagangur, árásir, skothríð, afturhald, bull, ofsóknir, einnota þingmaður, Alþingi er fíflasamkoma“ svo nokkur dæmi eru tekin úr umræðunni síðustu vikur.
• Við munum að mistök eru til að læra af þeim.
• Við eignum okkur ekki sigra annarra. Við látum okkar verk tala og látum vita af þeim.
Meginhugsunin er: Förum í boltann en ekki manninn.
Benedikt Jóhannesson
PS Þessum reglum má stela og fara eftir sem víðast.