Með góðu fólki (BJ)

Komum í gærkvöldi úr ferðinni miklu um Norðausturkjördæmi. Það var margt skemmtilegt. Að hitta káta fólkið á hjúkrunarheimilinu á Siglufirði. Þar var hlegið dátt.

Ég sendi skeyti á Facebook, meðal annars úr Borgarfirðinum. Þar sagðist ég vera í uppsveitum Borgarfjarðar, en síminn leiðrétti mig og sagði að ég væri í hjómsveitum Borgarfjarðar. Lesendur héldu að ég væri svona lýrískur í sveitinni og enginn gerði athugasemd.

Aldraður skákmaður á Ólafsfirði ætlaði að kjósa Samfylkinguna þangað til að ég sagði honum að ég hefði unnið til verðlauna í síðasta móti sem ég tók þátt í, verið í sveit með Friðriki Ólafssyni stórmeistara. Mér heyrðist þetta snúa honum nokkurn veginn.

Á Dalvík hittum við hressa sjómenn frá Grímsey sem sögðu okkur frá glímu sinni við bankakerfið. Þeir voru á leiðinni út klukkan fjögur um nóttina til þess að „vinna fyrir bankann.“

Við fundum kosningaskrifstofu í hjarta Akureyrar. Þar létu frambjóðendur hendur standa fram úr ermum, gerður sér lítið fyrir og máluðu og fylltu skrifstofuna af húsgögnum á einu kvöldi. Það er gaman að kynnast svona fólki.

Karlarnir í Orkuskálanum á Húsavík ætluðu ekki að láta þennan Reykvíking komast upp með neitt múður og tóku mig í þriðju gráðu yfirheyrslu. Svo fór nú samt í lokin að þeir skrifuðu nánast allir undir sem meðmælendur framboðslistans.

Á elliheimilinu þar hitti ég Frímann kokk sem ég hafði aldrei hitt áður, en bað samt að heilsa konunni hans, því að pabbi hennar var leikfélagi pabba á Norðfirði. Um fólkið á Bakka var mikið og fallega talað heima. Svo er Aðalgeir Kristjánsson, fræðimaður og vinur okkar Vigdísar, búinn að búa á elliheimilinu í nokkur ár. Það var gaman að hitta hann.

Í Kelduhverfinu kom ég í Kílakot þar sem ég var í sveit. Þangað inn hef ég ekki komið í hálfa öld. Björn bóndi Þórarinsson brá búi haustið 1966 og þar var ekki búið þangað til hjónin frá Vogum fluttu þangað fyrir einu eða tveimur árum. Þau Þórarinn og María tóku vel á móti okkur og sýndu okkur allt innanhúss. Þetta var hápunktur ferðarinnar hjá mér.

Á Kópaskeri eru tvö aðalfyrirtæki, Silfurstjarnan (sem nú heitir eitthvað annað) og Fjallalamb. Ekki voru menn sérlega kátir með búvörusamningana á þeim bæ. Ég kom oft í Silfurstjörnuna á hennar upphafssárum og gaman að sjá hvað fiskeldið þar gengur vel, en á sínum tíma kom ég að björgunaraðgerðum fyrir þau fiskeldisfyrirtæki sem áttu sér viðreisnar von. Mörg þau dæmi gengu upp.

Í Gunnubúð á Raufarhöfn hitti ég hana Unu sem sagði við mig: „Þú hlýtur að vera frændi Sveins Ben. Ég man eftir honum frá síldarárunum.“ Sveinn var móðurbróður minn og Unu lá gott orð til hans. Við fengum okkur ís, enda 17 gráðu hiti. Það var 6. október.

Á Þórshöfn er gott hljóð í fólki. Tvö stór skip frá Ísfélagi Vestmanneyja voru í höfn, risastór fannst mér. „Þú ættir að sjá Sigurð, það er alvöru skip“ sögðu menn þá.

Á Vopnafirði er verksmiðja HB Granda. Árni heitinn Vilhjálmsson hefði átt að verða heiðursborgari á Vopnafirði. Þegar allt var í kaldakoli á Íslandi haustið 2008 ákvað Grandi, undir forystu Árna, að byggja upp á Vopnafirði. Íklæddir gegnsærri plastkápu og bleiku hárneti fórum við um alla verksmiðjuna. Þar hitti ég Steinu frænku mína og urðu fagnaðarfundir.

Á Seyðisfirði komum við í Björgvin, sögufrægt hús sem stendur þar sem fyrsta verkalýðsfélagið var stofnað. Nú héldum við fyrsta fund Viðreisnar á Seyðisfirði á þessum stað þannig að ekki minnkar frægð staðarins.

Ívar Ingimarsson knattspyrnukappi er frækinn baráttumaður fyrir veg Austurlands. Það er gaman að spjalla við hann því hann sér ekki bara vandamál heldur bendir líka á lausnir.

Á Egilsstöðum fór kreditkortið að gefa sig. Jóhann, ferðafélagi minn, aðstoðarmaður, bílstjóri og fararstjóri, var svo vinsamlegur að segja svo hátt að allir heyrðu: „Er enn einu sinni búið að loka kortinu hjá þér?“

Við reyndum að fá sem flesta til þess að skrifa undir meðmælendalista, en 300 manns þurfa að mæla með hverjum lista. Það gekk vonum framar, en á Reyðarfirði sagði afgreiðslukonan á bensínstöðinni að hún vildi ekkert blanda sér í pólitík. Hún væri heldur ekki búin að kynna sér þessi nýju framboð neitt. Ég hélt nú ekki að það væri vandamál, ég hefði nægan tíma og myndi örugglega komast langt með að skýra stefnuna á hálftíma. „En svo geturðu líka skrifað undir listann strax og við komum okkur í burtu hið snarasta.“

Sævar gikkur kunningi minn á Eskifirði var að heiman, en refurinn hans lék við okkur. Jóhann vildi ná af okkur mynd saman og ætlar að kalla hana: „Tveir refir.“

Á Norðfirði hitti ég margt frændfólk mitt sem tók mér vel að venju. Ósköp fannst mér samt tómlegt að hitta ekki Reyni frænda lengur.

Við vöknuðum alltaf snemma og fórum í sund, en laugin er ekki opnuð fyrir 10 á laugardögum á Norðfirði þannig að við brunuðum í franska spítalann á Fáskrúðsfirði og skoðuðum sýninguna þar. Sjoppueigandinn sagðist aldrei sjá alþingismenn nema fyrir kosningar. Svo gufuðu þeir upp.

Listasmiðjan í gamla frystihúsinu á Stöðvarfirði er enn í fullum gangi. Þar voru nokkrir útlendingar, þar á meðal kona frá Sviss sem sagðist vera í einhverskonar gjörningalist. Ég sá að við slökkvara á veggnum voru tveir ópalpakkar og spurði hvort þeir væru listaverk og hún sagði: „Það er góð hugmynd.“ Þannig að ef þú sérð innrammaða ópalpakka á alþjóðlegri sýningu, mundu að ég átti hugmyndina. Svo tók ég trommusóló á settið í hljómlistarsalnum.

Ekki er hægt að koma til Breiðdalsvíkur án þess að fara í kaupfélagið. Jói varð bergnuminn þegar hann sá sambandsmerkið á húsinu og fór nánast úr skónum áður en við fórum inn. Þar fengum við einhverja bestu aspassúpu sem ég hef smakkað. Aspassúpa er staðbetri fæða en Rommý (sem er auðvitað afar heilnæmt líka). Í horninu var hún Sigríður Marrow að taka myndir en hún er að festa á mynd síðustu leifarnar af kaupmanninum á horninu.

Þessari fínu reisu lauk svo á Djúpavogi þar sem við komum á mikla fyrirtækjakynningu staðarbúa. Við héldum að hún væri milli eitt og þrjú og keyrðum í loftköstum, en þegar við komum klukkan kortér fyrir þrjú var verið að bera stóla og borð í íþróttasalinn. Á kortéri breyttist hann í sýningarsal og auk þess með borði sem svignaði undan dýrindis tertum og öðru góðgæti. Við hjálpuðum auðvitað við stólaburðinn og átum kökurnar. Þess á milli ræddum við landbúnaðarmál og minjavernd. Þetta var skemmtilegur endir á þessir kjördæmisreisu.

Á heimleiðinni stoppuðum við lítið nema á Kálfafellsstað þar sem Þóra Ingimarsdóttir, frambjóðandi Viðreisnar í Suðurkjördæmi rekur myndarlegt gistiheimili. Kvöddum svo hana og Bjarna og drifum okkur til Reykjavíkur. Jóhann keyrði allan tímann og var frábær ferðafélagi og persónulegur kosningastjóri þessa viku.

Það var gaman að finna hve margt fólk sem maður hafði aldrei hitt áður var vinsamlegt og gott. Allir tóku okkur vel. Svo var það auðvitað leiðinlegt að uppgötva að á sama tíma voru aðrir. sem maður vissi ekki að maður ætti neitt sökótt við, drjúgir við að sýna sínar ljótustu hliðar. Maður lærir margt á að vera í framboði.

Benedikt Jóhannesson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.