Stofndagurinn

Þriðjudagurinn 24. maí var svolítið skemmtilegur. Ég vaknaði snemma því að ég átti að mæta í útvarpið og af því að ég  var í hátíðarskapi flaggaði ég. Aldrei þessu vant var ég kominn tímanlega í útvarpshúsið og gekk rakleiðis að tölvunni til þess að skrá mig inn.

Ég var nánast búinn þegar maðurinn bakvið skenkinn kallaði á mig og spurði: Ertu ekki að fara til Guðrúnar Sóleyjar? Ég rölti í átt til hans og jánkaði því. Hugsaði með mér að hennar gestir nytu greinilega forgangs. Þegar ég var kominn alla leið að borðinu sagði hann: Þá þarftu að skrá þig inn!

Ég rölti tilbaka. Þegar ég kom aftur að tölvunni þurfti ég að byrja upp á nýtt og hugsaði margt ófagurt, en sagði auðvitað ekkert, því nú er ég á leiðinni í framboð og maður verður að vera kurteis við atkvæðin.

Viðtalið gekk vel. Guðrúnu Sóleyju til aðstoðar var Gísli Marteinn, sem tók engar Sigmundar Davíðs syrpur á mig. Á móti var ég líka mjög prúður og rappaði engar klámvísur, enda var þetta fyrsti morguninn hans og engin ástæða til þess að taka hann á taugum.

Viðtalið gekk nokkuð vel. Nokkrir framsóknarmenn móðguðust yfir því að ég sagði að sem betur fer hefði enginn líkt Viðreisn við Framsóknarflokkinn. Einhver spurði á FB: Eru framsóknarmenn eitthvað spilltari en aðrir?

Ég frétti að „Mogginn“ hefði auglýs okkur með því að birta mynd af stofnfundinum í brennandi húsi. Alltaf hafa þeir þessa næmu kímnigáfu sem hittir í mark, jafnvel þó að Davíð sé í fríi.

Í vinnunni reyndi ég að einbeita mér að, tja, vinnu. Það gekk raunar vonum framar, enda var ég búinn að skrifa ræðuna. Maður er ekki enn kominn með ræðuritara enda sagði einn við mig. Þegar þessir pólitíkusar eru búnir að láta alla lesa ræðurnar sínar yfir (sem einhver auglýsingamaður skrifar fyrir þá) þá er enginn karakter eftir.

Mér datt í hug tónlist sem er orðin svo fáguð að hún er nánast eins og suð (Graceland eftir Paul Simon er gott dæmi).

Í hádeginu skaust ég út í Króuna í Nóatúni til þess að fá mér samloku. Á bílastæðinu sá ég mann sem horfði stíft á mig og þegar hann gekk að bílnum renndi ég rúðunni niður. Reyndi eins og ég gat að muna hver hann var, en kom honum ekki fyrir mig.

Fundurinn er í dag, sagði hann.

Jú, klukkan fimm í Hörpu, svaraði ég en hugsaði um leið hvort ég hefði átt að segja 17.00 í Silfurbergi, en maðurinn virtist ekkert þurfa á svo nákvæmum upplýsingum að halda.

Má ég ekki koma? spurði hann og ég hélt nú að hann væri velkominn.

Ég er nefnilega skráður í Vinstri græna, en mig langar til þess að koma.

Ég fylltist bjartsýni. Allt stefndi í að fundurinn yrði fjölsóttur!

Klukkan hálf fjögur var ég mættur niðri í Hörpu. Kynningarnefndin var mætt og salurinn leit glæsilega út. Einhver hafði fengið þá snilldarhugmynd að láta tvo ljóskastara mynda tvílitt V á vegginn bakvið sviðið. Einar Björnsson var mættur í sínu fínasta pússi og hjálpaði til við að dreifa upplýsingum og skráningarblöðum á borðin.

Hjómsveitin mætti um fjögur með Jakob Magnússon í broddi fylkingar. Við ræddum saman um sameiginlega forföður okkar. Ekki Davíð Stefánsson, því að nú er það sannað að hann er ekki forfaðir Jakobs, en enn óvissa með mig að minnsta kosti ekki afsannað. Nei, við töluðum um Kort Þorvarðarson, sem þeir sem þekkja sögun um Írafellsmóra kannast við. Móri gerir afkomendum Korts í níunda lið skráveifur og Jakob er í 5. lið frá Kort (Korti?) og ég í sjötta. Þess vegna virtust sterkar líkur á því að Móri mætti á fundinn. Í því að ég hugsaði þetta heyrðist háreisti og vörpulegur maður kom inn. Er hann kominn? hugsaði ég.

En það reyndist vera Guðbjörn Guðbjörnsson sem kom í salinn spurði: Er þetta allt og sumt? Hafa virkilega ekki fleiri áhuga á þessu?

Mér fannst hann sýna lofsvert fordæmi með því að koma klukkutíma of snemma til þess að tryggja sér gott sæti. Það tókst.

Strax fyrir hálf fimm voru þó nokkrir komnir. Til mín kom kona sem heilsaði mér kumpánlega og spurði hvort ég þekkti sig ekki. Eftir tvær sekúndur áttaði ég mig, enda höfðum við verið saman í bekk allan barnaskólann og vorum nágrannar þar á ofan. Þær voru mættar systur tvær. Það var skemmtilegt að hitta þær, en ekki gafst mjög langur tími til þess að spjalla því að nú dreif sífellt fleiri að.

Sumir höfðu komið á fund til okkar áður. Aðrir voru gamlir kunningjar og vinir. Svo var fólk sem ég þekkti í sjón en ekki enn persónulega. En allmarga hafði ég aldrei séð. Allt var þetta gæfulegt fólk. Vinur minn frá Nóatúnsplaninu var meira að segja mættur.

Ég var auðvitað himinlifandi hve margir voru komnir á staðinn. Einn fannst mér kunnuglegur, en kom honum ekki fyrir mig. Nokkrum mínútum seinna fékk ég aftur þessa tilfinningu. Þegar það gerðist í þriðja sinn áttaði ég mig á að þetta var starfsmaður hússins, sem greinilega gekk í einhvern hring og birtist alltaf aftur og aftur. Á mig sló köldum svita. Var þetta kannski allt sama fólkið sem gekk hring eftir hring til þess að blekkja mig?

Þegar Ingvi Hrafn kom inn ganginn hætti ég að hugsa um þetta. Þú ert mættur, segi ég. Hann umlaði eitthvað á þá leið að hann þyrfti að fylgjast með. Gott hjá þér að vilja vera í sigurliðinu! kallaði ég eftir honum þegar hann gekk inn ganginn.

Sumir voru að koma frá útlöndum, aðrir utan af landi. Ungir og eldri, karlar og konur flykktust að. Allt í einu kom maðurinn sem hafði gengið hring eftir hring og tilkynnti að ekki kæmust fleiri fyrir og það yrði að bæta við stólum.

Nokkrum mínútum seinna sagði hann að ekki kæmust fleiri stólar fyrir og fólk yrði að fara inn að aftan. Þetta var svolítið skemmtilegt. Klukkan var á slaginu fimm og ég ákvað að ganga í salinn.

Bandið var enn að tók að spila sitt síðasta lag, óræða tónsmíð sem fólk áttaði sig ekki vel á. Smám saman kom í ljós að þetta var djössuð útgáfa af Öxar við ána. Skemmtileg byrjun á fundinum.

Langur sláni birtist á sviðinu og kynnti sig sem Geir Finnsson. Geir er einn af ungliðunum sem hafa verið allt í öllu. Hann sagði frá starfinu fram að þessu og sýndi meðal annars nokkrar logo tillögur sem ekki fengu náð fyrir augum dómnefndar. Meðal annars þetta:

Hann skipaði svo Sögu Guðmundsdóttur hagfræðing fundarstjóra. Sannast sagna hefur varla fundist röggsamari fundarstjórn á síðari árum. Á innan við einni og hálfri mínútu var búið að samþykkja lög Viðreisnar, stefnuyfirlýsingu og stjórn. Borið upp í þrennu lagi! Saga á örugglega eftir að verða vinsæll fundarstjóri á aðalfundum.

Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði, greindi stjórnmálaástandið í meitluðu erindi. Að því loknu gat maður ekki annað en hugsað: Það vantar nýjan flokk í stjórnmálin. Það var ótrúlegt hvað hægt var að koma þessum skilaboðum fyrir á hnitmiðaðan hátt.

Næstu kom Bjarni Halldór Janusson. Bjarni er tvítugur og nýkjörinn formaður ungliðahreyfingar Viðreisnar. Hann sagði frá því að hann hefði verið að leita að flokki sem hefði ekki bara viljað hlusta á ungt fólk heldur vildi líka hafa það með í ráðum. Og sannast sagna er ekki hægt að hugsa sér Viðreisn komna á þennan stað án unga fólksins. Bjarni lýsti þeim baráttumálum sem helst snúa að ungu fólki og hugmyndum Viðreisnar að lausnum.

Helga Valfells framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sagði að hér á landi væri umhverfið fyrir sprotafyrirtæki gott, en þegar þau vildu verða stór færi gamanið að kárna. Þau þyrftu að borga miklu hærri vexti en sambærileg fyrirtæki í samkeppnislöndum sem fengju strax frá upphafi forskot. Jafnvel gróin íslensk fyrirtæki lentu í ósanngjarnri samkeppni vegna krónunnar og hennar háu vaxta. Marel og Össur hefðu ekki getað vaxið við þessi skilyrði. En hún sagði gleðiefni að geta nú farið í kjörklefann og kosið flokk sem hún væri sannfærð um að væri besti kosturinn, en ekki bara skásti kosturinn eins og hún hefði þurft að gera hingað til.

Ég flutti síðustu ræðuna. Það var gaman að horfa yfir salinn þar sem setið var í hverju sæti og menn þurftu að standa meðfram veggjum. Dyrnar voru opnar og það var bókstaflega fullt út úr dyrum. Seinna frétti ég að einhverjir hefðu horfið frá. Mínir menn giskuðu á 400 manns og það var örugglega nærri lagi. Að minnsta kosti ef Móri er talinn með. Engar tölur hafa borist frá lögreglunni ennþá.

Maður fann að það var stemning í hópnum. Góður kunningi minn hafði eftir manni sem stóð við hliðina á honum: „Þetta var flott ræða hjá Benedikt. Benedikt kom mér verulega á óvart sem ræðumaður.“ Auðvitað þótti mér lofið gott, en velti því aðeins fyrir mér hvort ég ætti að vera móðgaður yfir því að ræðan hefði komið manninum á óvart.

Það er innskot, en mér finnst alltaf jafngaman þegar fréttamenn spyrja: Áttu von á að eitthvað óvænt gerist? Mig langar þá alltaf til þess að segja: Ef maður á von á því er það ekki óvænt. En segi auðvitað ekki neitt – á leiðinni í framboð og þarf að vera innundir hjá fréttamönnum.

Eftir fundinn og viðtöl í fjölmiðlum klöppuðum við hvert öðru á bakið. Þetta var góður dagur. Fullt út úr dyrum, fín stemning, stutt og snarpt. Einhver sagði: Og meira að segja Ingvi Hrafn mætti! (því miklu lengra verður ekki náð) og annar bætti við: En ég held að hann hafi aldrei klappað. Hvort sem hann gerði það eða ekki er mér sagt að hann hafi talað fallega um okkur.

Stöð 2 var með okkur í beinni útsendingu, en við komumst ekki í yfirlit frétta á RÚV því að vorum svo óheppin að þau voru með fréttina af því að breska skipinu Hood var sökkt fyrir 75 árum. Það hefur auðvitað aldrei verið sagt frá því áður á RÚV. „Mogginn“ sagði svo frá fundinum á forsíðu daginn eftir og í Staksteinum, auk þess sem flestir vildarvinir okkar á Moggablogginu fjölluðu um hann.

Áður en ég sofnaði fékk ég sms frá vini mínum: Konan mín var líka mjög hrifin: „Mér fannst eitthvað ferskt koma með honum“, sagði hún. Og bætti við: „Maður sá einhverja von.“ Þá sagði ég: „Er þetta ekki orðið gott.“

Ég svaf vel þessa nótt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.