Hvers virði er æran?

Lítill vafi er á því að margir tóku fullan þátt í forleiknum að hruninu og sennilega er það rétt sem Steingrímur Sigfússon sagði um daginn að við bærum sem kynslóð sameiginlega ábyrgð á því. þó að ég hefi mikið skrifað um efnahagsmál í mörg ár get ekki einu sinni státað af því að hafa séð Hrunið fyrir eftirá. En sumt fór nærri lagi. Pistilinn hér á eftir skrifaði ég í nóvember 2002 í VísbendinguHana er hægt að lesa á Netinu og þess vegna geta menn séð hvenær ég var nærri lagi og hvenær fjarri. Ég man ekki hver verðbréfasalinn er eða var sem um er talað. Kannski vissi ég það aldrei, því einhver sagði mér söguna:

„Ungur verðbréfasali var um daginn spurður að því hvort kollegar hans færu ekki býsna oft býsna langt inn á gráa svæðið í viðskiptum. Hann svaraði að bragði: „Á meðan dómarinn flautar ekki er leiknum haldið áfram.“ Svarið vekur mann til umhugsunar. Stilla íslensk verðbréfafyrirtæki sig inn á það að hér sé enn villta vestrið og það þurfi engar áhyggjur að hafa af lögum og reglu? Það er rétt að lengi vel skiptu yfirvöld á Verðbréfaþingi og hjá Fjármálaeftirliti sér ekki af öðru en smávægilegum lagfæringum á reglum. Enn þann dag í dag stunda fyrirtæki þann leik að hækka gengi á síðasta degi ársfjórðungsins. Meðan þetta er látið óátalið mun menn halda þessu áfram og líklega færast heldur í aukana. Fyrir nokkrum árum gerðist reyndar hitt að fjárfestingafyrirtæki hagaði viðskiptum sínum á gamlársdag á þann veg að gengi lækkaði í fyrirtæki sem var því ekki þóknanlegt til þess eins að gengi á „þeirra“ fyrirtæki hefði ávaxtast best á árinu. Þetta var látið óátalið og framkvæmdastjóri þess fyrirtækis mun enn sitja í stjórnum fyrirtækja á Verðbréfaþingi.

Þessi leikur að genginu er tiltölulega saklaus miðað við margt annað sem viðgengst. Forstjórar banka sem standa á miðjum Kínamúrnum misnota sér aðstöðu sína, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Þeir eru einfaldlega settir í þá stöðu að vera beggja vegna múrsins. Þetta verður löggjafinn að koma í veg fyrir með því að banna bönkum að stunda verðbréfastarfsemi. Það er verst að siðgæði í viðskiptum fer sífellt hrakandi. Í gamla daga var mikið lagt upp úr því að í viðskiptum þyrfti að ríkja gagnkvæmt traust. Nú virðist gilda það lögmál að sá sem er fyrstur að svíkja félaga sína græði mest.

Starfsmenn sem taka með sér trúnaðarskjöl þegar þeim er sagt upp störfum fá vinnu í fjármálafyrirtækjum. Opinberir starfsmenn gera „vinveittum“ fyrirtækjum greiða með því að valda samkeppnisaðilum vandræðum. En hvað gerist ef dómarinn sem flautar er ekki í stuttbuxum heldur svartri skikkju? Orðstír deyr aldrei og það getur verið erfitt að ná blettunum úr hvítflibbanum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.