Við flugum frá Sankti-Pétursborg með gripaflutningavél. Að minnsta kosti var lyktin eins og í hesthúsi. Bakið í sætunum var þannig að það gaf eftir og
lagðist nánast ofan á næsta sæti fyrir aftan í flugtaki. En flugið var stutt og veðrið gott, þannig að það var ekki nema rétt á meðan flugvélin lyfti sér af jörðu og lenti aftur að maður rifjaði upp bænirnar.
Kænugarður skartaði sínu fegursta þennan dag. Flugfólkið og leiðsögumennirnir báðust margfaldlega afsökunar á því að við þyrftum að fara í gegnum tollskoðun og vegabréfaeftirlit. Hvaða vitleysa er þetta? sögðu þau. Samveldi sjálfstæðra ríkja sem tók við af Sovétríkjunum hafði nýlega verið slitið og Úkraína var orðin sjálfstætt land. Það fannst fylgdarmönnum okkar vitlaust.
Flugfloti landanna hafði ákvarðaðast af því á hvaða flugvelli þær voru þegar Sovétið liðaðist í sundur. Hrossaflutningavélin kom semsé í hlut Úkraínumanna sem voru brosmildir sumarið 1993. Ég var hrifinn af viðtökunum og sendi póstkort til ættingja, kort sem ég fékk þakkir fyrir allan næsta vetur þegar þau loks komust til skila.
Hvað flandur var á mér? Jú ég var í hópi þrjátíu tryggingastærðfræðinga, héðan og þaðan úr heiminum, sem ætluðu að kynna sér ástandið á tryggingum í þessum nýkapítalísku löndum, Rússlandi og Úkraínu. Þarna voru menn á ýmsum aldri, til dæmis gamli Ameríkaninn sem spurði sífellt spurningar um almannatryggingakerfið, sem hann hafði lært sitthvað um árið 1939. Hann átti erfitt með að skilja að það hefði breyst allt í einu.
Svo var þarna kona frá Póllandi sem taldi sig býsna fróða í rússnesku og leiðrétti túlkana sí og æ. Indónesíumaður kom með bústna eiginkonu sína sem var með kreditkort án hámarks. Hún var aufúsugestur í landinu og kom vöruskiptareikningi þjóðanna í lag. Þegar ferðalangarnir keyptu sér eina þjóðbúningadúkku hver bað hún um jafnmargar og allir hinir til samans. Rútubílstjórarnir þurftu oft að bíða meðan hún tæmdi búðirnar og skildi verslunareigendur eftir með nánast ekkert nema bros út undir eyru.
Leiðsögumennirnir, sem allir voru konur, virtust allir vera nýútskrifaðir úr KGB-skólanum, héldu uppi járnaga og brostu aldrei. Þegar við fórum framhjá einhverjum byggingum sögðu þær okkur hversu háar þær væru og hve þungar (þ.e. byggingarnar). Þetta eru gagnlegar upplýsingar, hugsaði ég. Til dæmis ef maður þarf að reikna út hve mikið sprengiefni þarf til þess að jafna þær við jörðu.
Ég veit ekki hvernig útlendingum sem komu til Íslands strax eftir einkavæðingu bankanna leið, en kannski var upplifun þeirra áþekk því sem ég kynntist þarna. Óða austrið kallaði ég það. Það eina sem sameinaði alla þá sem ráku tryggingarfélögin sem við komum í var að þeir vissu ekkert um tryggingar. Einn var kvikmyndaleikstjóri, reffilegur gæi sem raðaði í kringum sig ungum konum. Mér sýndist hámarksaldur vera 25 ár og hámarkssídd á kjólum vera 25 sentímetra frá mitti.
Karlar voru oftast í efnismeiri flíkum, en einn skar sig úr í klæðaburði. Hann var hvorki ungur né glæsilegur heldur leit hann eins og hann væri nýkominn af samyrkjubúinu. Skyrtan þrýstist út og milli hnappanna skein í bert. Bindið sem hefði átt að fela naflann náði ekki nema niður á þriðja hnapp að ofan. Hann vann hjá ríkisrekna tryggingafélaginu, en hann vissi ekkert meira en hinir, hefur væntanlega verið framsóknarmaður sem þurfti að skaffa gott embætti.
Kænugarður er falleg borg. Við sigldum um ána Dnépr og sáum borgina þannig utan frá. Ég var með kíki og svo vildi til að þennan sólskinsdag sem við sigldum þarna höfðu þúsundir manna ákveðið að fá sér bað í ánni. Ég var með kíki og beindi honum að baðströndinni. Einhverjum fannst ég stara þangað lengur en eðlilegt mætti teljast og spurði um klæðnað sóldýrkendanna. Ég lét kíkinn síga, vætti varirnar og ræskti mig áður en ég gaf skýrslu. Það var dauðaþögn í kringum mig og marga var farið að klæja í að fá kíkinn lánaðan. En nei, fólk virtist vera í ósköp venjulegum bolum og skýlum. Það varð spennufall í ferjunni.
Halldór Laxness lýsir gamalli miðaldakirkju í Gerplu og vísar þar í sína för sem hafi verið svipuð því sem gerðist tæplega þúsund árum áður. Mín upplifun var svipuð og ég bendi áhugasömum á frásögnina þar, hún er örugglega ekki miklu síðri en mín hefði orðið.
Ég fór tvisvar í óperuna. Í bæði skiptin var sagan sú sama en í tveimur uppfærslum, eitthvert gamalt ævintýri sem ég held að hafi verið rússneskt. Ég sat á fremsta bekki á báðum sýningum og gat fylgst með hljóðfæraleikurunum í gryfjunni bæði kvöldin. Fyrra kvöldið mættu þeir ógreiddir á bolum og í mussum, stóðu varla upp fyrir hljómsveitarstjóranum og gerðu óspart grín að honum, hvort sem hann sá til eða ekki. Seinna kvöldið var annar stjórnandi, allir voru í kjól og hvítu, stóðu upp þegar hann kom inn og stökk ekki bros allt kvöldið.
Einn ferðafélaginn fékk annan til þess að skipta við sig um sæti til þess að sitja fremst. Ekki af áhuga á hljómsveitinni, heldur hreifst hann svona heiftarlega af einni söngkonunni. Þá heyrði ég í fyrsta og eina sinn orðasambandið: To fall in lust.
Sannast sagna var mikið um útgerð á þessu sviði bæði í Rússlandi og í Úkraínu. Í leiðbeiningum frá skipuleggjendum ferðarinnar var bent á að á börum hótelanna gæfi að líta margar glæsilegar og vel klæddar stúlkur sem litu út eins og módel, en væru í raun og veru gleðikonur.
Strax á Baltic hótelinu í Pétursborg gat að líta glæsilegar stúlkur sem pössuðu vel við þessa lýsingu. Ég hafði sparað mér 500 dali og var með finnskum manni í herbergi. Það var versti sparnaður lífs míns. Strax á fyrsta kvöldi sagði hann mér að hann hefði keypt sé séníver á flugvellinum til þess að varast matareitrun. Síðla kvölds og snemma morguns var hann í fyrirbyggjandi aðgerðum og drakk af stút: For the stomach. Ekki höfðu liðið mörg kvöld þangað til hann var búinn að kynnast rússneskri stúlku og komst ekki með okkur hinum á listviðburð, því hann þurfti að fara á stefnumót. Ég gladdist lítið þegar ég komst að því að það var á herberginu okkar. Kjarakaup sagði hann, hundrað og fimmtíu dalir.
Hann vann í sænsku ráðuneyti eða eftirlitsstofnun. Fljótlega minnkuðu fjárráð hans, þó að heilsan væri prýðileg. Á baðherbergjunum tók hann borða sem settir voru utan um klósettsetur og sögðu Desifeckted eða einhverja aðra afbökun á því að búið væri að sótthreinsa. Ekki þarf að efast um að vinirnir hafa verið himinlifandi að fá svona skemmtilegan minjagrip. Í Moskvu, þar sem ferðin endaði, var hann tekinn af öryggisvörðum þar sem hann ráfaði um þinghúsið, dauðadrukkinn að reyna að kaupa sér drykk fyrir barmmerki frá sænska ríkinu.
Ekki kynntist ég mörgum Úkraínumönnum þessa daga sem ég dvali þarna í Kænugarði. Kona ein var leiðsögumaður hjá okkur og sagðist hafa miklar áhyggjur af syni sínum sem var sex ára. Hann væri grár og gugginn og hún var viss um að það væri vegna Chernóbýl. Ég vorkenndi henni ósköpin öll og hafði orð á þessu við kvöldverðarborðið. Konan við hliðina á mér hnussaði og sagði mér að við sig hefði leiðsögumaðurinn haft áhyggjur af því að sonurinn læsi allt of mikið. Þess vegna væri hann svona gugginn.
Einn daginn týndi ég skjalatöskunni minni. Ég fór aftur á bak yfir allar mínar ferðir og fann hana loks í búð þar sem ég hafði keypt fallegar servéttur. Afgreiðslukonan var búin að loka, en tók á móti mér eins og týnda syninum. Hafði reyndar fundið nafnspjaldið frá framsóknarmanninum og ætlaði að hringja í hann. Sem betur fer gerði hún það ekki því þá hefði ég áreiðanlega aldrei séð töskuna aftur. Hún fékk knús og tíu dali.
Daginn eftir fór ég gangandi heim á hótel úr einhverri skoðunarferðinni, ætlaði að stytta mér leið, en hitti þá hund sem var á stærð við lítinn kálf. Eigandinn lá sofandi undir tré og kærði sig kollóttann þó að hundurinn hlypi geltandi á eftir mér, sem hljóp á methraða og stökk yfir girðingu út á gangstétt. Ekki varð ég var við að nokkur sæi þetta afrek mitt sem líklegast ekki komist í annála nema fyrir mína frásögn.
Ekki veit ég hvaða samninga Kíev-stúlkur höfðu við hótelið, en flestir urðu fyrir því að hringt var á herbergið til þeirra og spurt hvort þeir vildu ekki fara út að ganga. Þegar þeir spurðu hver þetta væri var svarið: Just some girl. Ég verð að viðurkenna að ég var hálfmóðgaður yfir því að það var aldrei hringt í mig. Kannski var herbergisfélaginn bara svona snöggur í símann og málið þar með afgreitt.
Svo fórum við aftur til Rússlands, gegnum toll og vegabréfaskoðun. Í flugvélinni á leið til Moskvu velti ég því fyrir mér hve hátt og þungt húsið mitt heima á Íslandi væri.