Sigurður bróðir minn er fimmtugur í dag. Ég hef alltaf verið þakklátur honum því að hann er sá eini af systkinum mínum sem er enn yngri en ég. Fyrsta setningin sem ég man eftir frá Sigga var: „Ég stígur nú ekki í vitið.“ Strax á unga aldri hafði hann öðlast þetta næmi sem hefur fylgt honum alla tíð síðan.
Paabbi sagði mér að 26. október væri merkilegur dagur. Árið 4004 fyrir Krist var heimurinn nefnilega skapaður. Einhvern biskup hafði dreymt þetta þannig að á því er enginn vafi. Þeir eiga semsé sama afmælisdag Siggi og heimurinn.
Við bræður vorum samrýndir frá unga aldri og gáfum út saman fyrsta blað sem ég koma að, Laugarástíðindi. Þau komu út í einu handskrifuðu eintaki og upplagið seldist alltaf upp.
Ég man ekki vel eftir þessum árum, en Fríða mágkona mín segir alltaf þegar dætur hennar hafa áhyggjur af því að börnin þeirra séu nördaleg (lesa bækur eða eitthvað álíka): „Þetta er ekkert til þess að stressa sig yfir. Svona voru Bensi og Siggi og það rættist úr þeim.“ Ég er ekki viss um hvort þetta er hrós eða ekki.
Siggi lagði fyrir sig hagfræði og var samstiga öðrum þekktum hagfræðingi sem átti eftir að setja mark sitt á Íslandssöguna, Sigurði Einarssyni. Það er athyglisvert að þeir nafnarnir skyldu báðir vinna hjá Kaupþingi. Siggi bróðir vann þar á árunum upp úr 1990 og lagði þar grunn að útrásinni sem skólafélagi hans fullkomnaði með svo eftirminnilegum hætti.
Annars var opinbert verkefni Sigga hjá Kaupþingi að skrifa Vísbendingu. Þar náði hann að móðga alla helstu ráðamenn landsins. Sverrir Hermannsson Landsbankastjóri sagði að nú væru keppinautarnir farnir að beita nýstárlegum aðferðum þegar Siggi sagði að líklegast væri Landsbankinn gjaldþrota í raun. Þetta var nokkrum árum áður en ríkið setti fjóra milljarða í bankann. Í millitíðinni ákváðu stjórnendur banka allra landsmanna að spara í rekstri með því að segja upp Vísbendingu.
Ólafur Ragnar Grímsson sagði eftir skrif Sigurðar: „Vísbending var virt blað.“ Siggi tók því með jafnaðargeði og svaraði ekki: „Ólafur Ragnar var virtur stjórnmálamaður“ enda hefði það verið óviðeigandi.
Eftir að hafa lokið doktorsprófi í Bandaríkjunum kom Sigurður aftur til Íslands. Við bræður höfum gert þrjár atlögur að því að vinna saman og jafnoft hætt því. Tel ég þá ekki með útgáfu Laugarástíðinda. Að þessu leyti þykjum við minna á bræðurna í Oasis.
Vegna þess að Siggi vann hjá Talnakönnun veit ég að margir starfsmenn þar voru sárir þegar þeim var ekki boðið í afmælið hans. Ég reyndi að sefa þá með því að segja að hann hefði aðeins boðið nánustu fjölskyldu. Í boðinu var hins vegar múgur og margmenni og ég kvíði því að þurfa að búa til nýja sögu fyrir vinnufélagana.
Ég verð oft fyrir því að fólk kemur til mín og spyr hvort ég sé ekki bróðir Sigurðar, sem var lengi vel augljóst, en ekki jafngreinilegt eftir að ég fór að lita hárið á mér grátt. Þegar ég jánka því segir það ævinlega: „Siggi, hann er bara lúmskt skemmtilegur“ eins og það sé að trúa mér fyrir einhverri uppgötvun sem fáum sé kunn.
Siggi hefur greinilega sjarma því að hann á ágæta konu, sem er reyndar ekki kona hans heldur barnsmóðir, en saman eiga þau Solveig þrjá skemmtilega stráka. Ég hef reynt að fá Sigurð til þess að ráða bót á þessu með því að giftast Sollu, en án árangurs. Það hefur ekki einu sinni virkað þegar ég hef sagt honum söguna af fólkinu sem var á Hrafnistu og hafði búið saman allt sitt líf án þess að gifta sig. Einn daginn sagði karlinn við konuna: „Heyrðu heillin, ættum við kannski að gifta okkur.“ Konan svaraði: „Það væri kannski góð hugmynd. En hver heldurðu að vilji okkur?“
Til hamingju með afmælið!