Enginn biskup verður óbarinn

Fyrir jólin kom út ævisaga Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, tæplega tveimur árum eftir að hann lést. Bókin, sem ber nafnið Skrifað í sand, byggir á æviminningum sem hann var búinn að skrá og vann að allt fram á síðustu ævidaga. Ekkja hans ákvað það eftir samráð við ýmsa vini og kunningja að þessi bók ætti fullt erindi við almenning. Og það er svo sannarlega rétt. Bókin er afar vel skrifuð. Karl hefur verið mjög ritfær maður sem segir vel frá.

Auðvitað skín í gegnum textann hans trúarlega sannfæring. Karl ólst upp ekki bara í guðsótta og góðum siðum, sonur biskupsins, heldur var lögð alveg sérstök rækt við kristilegt uppeldi þeirra barna allra. Og ekki tilviljun að þeir voru fjórir bræðurnir sem luku guðfræðiprófi af átta börnum.

Æskuár

Í fyrsta hluta bókarinnar segir Karl frá uppvexti sínum á Freyjugötu seytján, eins og hann segir sjálfur. Þó að börnin hafi verið mörg og eflaust ekki verið mjög mikil efni hafa æskuárin verið skemmtileg. Hann á greinilega ljúfar minningar, þó svo að hann hafi auðvitað stundum átt við óknyttadrengi að glíma. Hrekkjusvín voru nokkur í því hverfi eins og svo mörgum öðrum. En Karl eignaðist marga vini og hrekkjusvínin var hægt að forðast.

Þessi kafli bókarinnar er afar skemmtilegur, ekki síst kannski fyrir þá sem muna þessa tíma sem hann lýsir þarna upp úr 1950 og fram yfir 1960, ekki síst vegna þess að hann lýsir þar mjög vel tíðarandanum sem ríkti á þarna í miðbæjarhverfinu þar sem hann bjó. Þarna var ekki ríkasta fólkið, en svo sannarlega heldur ekki það fátækasta.

Hann segir sögur af mörgum. Ótrúlegt minni hans verður til að hann getur talið upp leikfélaga og skólafélaga. Eina sögu er gaman að rifja upp. Kjarval kom einu sinni í heimsókn með mynd sem hann var nýbúinn að mála og ákvað að hengja upp inni í stofu hjá foreldrum Karls og sagðist ætla að fá að geyma myndina þar. Svo þegar síðar var leitað eftir því að skila myndinni, þá þóttist hann ekkert kannast við hana, en taldi þetta þó vera ákaflega góða mynd.

Í uppeldinu fer Karl í KFUM og ýmislegt kristilegt ungmennastarf í skólum. Hann segist samt sem áður aldrei hafa ákveðið það sérstaklega að verða prestur. Það hefði bara einhvern veginn gerst. Hann ætlaði að verða arkitekt. Ekki hafði hann orðið fyrir neinni trúarlegri upplifun, eins og faðir hans á sínum tíma. Sigurbjörn hafði ekki bara verið trúlaus, heldur eiginlega andtrúarhneigður, þangað til að hann sneri gjörsamlega við blaðinu eins og allir þekkja og varð biskup Íslands á endanum.

Eitt segir Karl að hafi komið sér á óvart þegar hann komst að því að hann átti hálfbróður, sem faðir hans hafði eignast á „óregluárum“ sínum. Aldrei var um þennan hálfbróður talað og Karl komst ekki að því að hann var til fyrr en hann var orðinn vel fullorðinn og þá ekki í gegnum föður sinn.

Karl segir frá æskunni, frá dvöl í sveitinni og þetta eru allt saman mjög skemmtilegar lýsingar. Hann fer til Bandaríkjanna á menntaskólaárunum í heilt ár, en ákveður svo að taka bekk utan skóla til þess að útskrifast fyrr og virðist hálft í hvoru sjá eftir því.

Vinstri maður?

Þegar hann er orðinn stúdent árið 1967 tekur hann þátt í ýmiss konar starfi, meðal annars Herferð gegn hungri þar sem það var lögð áhersla á það að þjóðir heims legðu eitt prósent af þjóðartekjum til þróunarmála. Hungurvaka var haldin um bænardagana í Casa Nova og það var merkileg upplifun, segir Karl.

Hann tók líka þátt í hópi sem nefndi sig Tengla, sem vildi mynda tengslahópa við sjúklinga á Kleppi. Sveinn Rúnar Hauksson, sem síðar varð læknir og hefur komið víða við, var stofnandi og driffjöður Tengla.

Hér er Karl vissulega farinn að taka þátt í ýmsu starfi sem flokkaðist þá vinstra megin í tilverunni. Þær pólitísku og hugmyndafræðilegu hugmyndir sem sóttu mest á í þeim félagsskap voru honum þó ekki alls kostar að skapi. „Í þeim efnum skildu leiðir okkar Sveins Rúnars, þótt vinátta okkar væri traust alla tíð. Ég hafði snemma fengið ímigust á pólitík og áherslurnar sem voru efst á baugi út frá marxískum samfélagsgreiningum og jafnvel anarkískum hneigðum beinlínis skelfdu mig. Skynsamt fólk hóf jafnvel Maó formann til skýjanna og talaði fjálglega um það sem hann stóð fyrir, þó að menn mættu vita af þeim ægilegu mannfórnum sem hann stóð fyrir. Mér fannst óhugnanlegt hve grunnt var á réttlætingu ofbeldis og hermdarverkum í þágu málstaðarins. Ég hef ímigust á vopnum en geri mér samt grein fyrir því að misbeitingu valds verður að mæta með valdbeitingu, en þá alltaf með sjálfsgagnrýni og auðmýkt og með sorg í hjarta.“

Þessi kafli kemur kannski einhverjum á óvart sem töldu að Karl væri mjög vinstrisinnaður. Meðal þeirra var Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem snerist öndverður gegn Karli þegar hann leyfði sér að tala um misskiptingu auðs meðal þjóðarinnar. Davíð kallaði þau orð klisjur. Það er greinilegt að Karli hafa sárnað þessi hörðu viðbrögð forsætisráðherrans.

Prestur á örlagatímum

Karl sækir nánast fyrir tilviljun um að verða prestur í Vestmannaeyjum í árslok 1972. Í janúar árið 1973 byrjaði hið eftirminnilega Vestmannaeyjagos sem setti svip sinn á hans prestskap þar í Eyjum og auðvitað líf allra Eyjamanna. Það er fróðlegt að lesa þá lýsingu alla.

Meðal annarra starfa sem séra Karli voru falin þegar hann var í Vestmannaeyjum, var að hann varð bindindisfulltrúi. Þegar framámenn og forkólfar af ýmsu tagi í Eyjum, sem höfðu misst bílpróf vegna þess að þeir höfðu verið teknir ölvaðir við akstur, þá þurfti séra Karl að skrifa upp á að þeim væri treystandi til að setjast aftur undir stýri.

Það fer svo að séra Karl fer aftur í land og tekur við sem sóknarprestur Hallgrímskirkju. Bæði hann og faðir hans höfðu tekið virkan þátt í safnaðarstarfinu og þar var Sigurbjörn prestur. Þeir tóku báðir virkan þátt í því að byggja kirkjuna. Greinilegt er að þeir tímar meðan hann var prestur voru hans bestu stundir.

Karl talar um nýja strauma í guðfræðinni og tekur hann alveg undir það, það hafi vissulega verið umdeilt þetta litúrgíska atferli sem tekið var upp, ekki síst hjá séra Arngrími í Háteigskirkju. En um það segir Karl:

„Það er svo satt sem tónskáldið Gustav Mahler sagði, að maður endurnýjar hefðina með því að blása lífi í glæðurnar, en ekki með því að tilbiðja öskuna. Hættan er fyrir hendi að formin nái yfirhöndinni, að hin rétta stelling, göngulag og framkoma verði aðalatriðið. Presturinn sé sérfræðingurinn, söfnuðurinn óvirkur áhorfandi.“ Það er greinilegt að þetta líkar Karli ekki. Hann vill að söfnuðurinn geti tekið þátt í starfinu.

Hefði betur hlustað á efasemdarraddir

Þegar Ólafur Skúlason biskup segir af sér af alþekktum orsökum, að er farið að stinga upp á nýju biskupsefni og margir nefna Karl Sigurbjörnsson sem heppilegan kandídat. Hann segist ekki hafa verið að hugsa sér það sjálfur, en það hafi vissulega kitlað egóið að margir vildu fela honum þessi ábyrgðarmiklu störf. Og auðvitað grunar mann það að honum hafi ekki verið á móti skapi að feta þannig í fótspor föður síns. En hann segir að þá hafi sótt á sig efasemdaraddir sem hann hefði betur hlustað á í ljósi þess sem síðar gerðist.

Í baráttunni fyrir biskupsdæminu fékk hann töluverðan meirihluta atkvæða. En andstæðingar hans, sem margir voru svonefndir svartstakkar og fríkirkjuprestar, hugsuðu honum þegjandi þörfina, sýnist manni á bókinni. Þeir settu sig sjaldan úr færum við að koma á hann höggi.

Auðvitað varð Karli biskupi eitthvað á eins og öllum, en í stað þess að menn reyndu að koma saman og færa hlutina til betri vegar, varð hann fyrir gagnrýni sem oft og tíðum var ósanngjörn.

Þetta voru líka um sumt skemmtilegir tímar. Hann lýsir því þegar hann fór til Afríku, til Simbave og þar hitti hann ungt, glatt og brosmilt fólk frá ýmsum löndum. Járntjaldið var fallið og ný heimsmynd blasti við undir lok þúsaldar. Hann veltir því þó fyrir sér hvaða framtíðarsýn blasti við á sjónarhóli ungs fólksins í svonefndum þriðja heimi, „sem glímdi við óbærilegan skuldaklafa, viðskiptakerfi á forsendum fyrri nýlenduherra, gegndarlausrar spillingu og ófrið í löndum sínum. Hver frelsishetjan eftir aðra hafði ummyndast í spillta harðstjóra.“ Þetta er mynd sem við könnumst enn betur við nú á dögum.

Hann segir síðar frá ráðstefnu þar sem Pútín var mættur. Þar segir hann: „Það var gríðarlega öflug öryggisgæsla í kringum Pútín og við þurftum að fara í gegnum vopnaleitarhlið áður en okkur var hleypt inn í salinn. Pútín er smávaxinn og ber ekki mikla persónu, fyrrverandi KGB-maður, og það er nú ekki beinlínis geðslegt fyrirbæri. Og ríki hans er gegnsýrt af spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi. Það hefur komið æ betur í ljós. En þarna vildi maður einhvern veginn trúa því að hann væri einlægur í að leiða þjóð sína á réttan veg í samfélagi siðaðra þjóða.“

Þeir sem kynntust Karli biskupi bera honum vel söguna og voru honum velviljaðir. Ég kynntist honum lítillega og er sannfærður um það að þar fór ákaflega vandaður maður í alla staði, góðviljaður og einlægur trúmaður.

Hann segir það sjálfur að stundum hafi hann komist óheppilega að orði, en það er auðvitað erfitt að tala alltaf svo að ekki megi ekki túlka orðin á versta veg ef vilji er til þess. Og fyrir því varð Karl biskup. Hann dregur enga dul á það að stundum hefði hann sjálfur getað hagað orðum sínum betur. Hann rekur til dæmis málefni samkynhneigðra, þar sem hann segist hafa verið meðal þeirra fyrstu sem vildi hafa kirkjulega athöfn til þess að blessa samband þeirra. En hann hafi um tíma verið þeirrar skoðunar að það ætti ekki að vera formleg gifting og fyrir það reiddust honum ýmsir.

Það sem varð honum þó erfiðast voru mál sem tengdust fyrrverandi biskupi, Ólafi Skúlasyni. Konur sem töldu sig hafa orðið fyrir áreiti af hans hálfu leituðu til Karls. Af ýmsum ástæðum sem hann rekur í bókinni höfðu orðið tafir á því að hann hitti þær og það var lagt út sem hann hefði ætlað að hylma yfir með Ólafi, sem greinilegt er að hafi verið honum fjarri.

Karl segir frá hruninu: „Hinn 6. október 2008 er dagur sem seint gleymist. Geir Haarde, forsætisráðherra, ávarpaði þjóðina og tilkynnti um fordæmalausa atburði og lauk máli sínu með því að segja: Guð blessi Ísland. Og menn hæddust að honum þá er hlegið um land allt. Mér hefur verið hugsað til þess enn og aftur, hvað var að gerast? Hvað gerðist í hruninu? Það er nokkuð ljóst að gálaus kynslóð fékk alvarlega áminningu. Hrunið var ekki aðeins bankahrun, gjaldmiðilshrun, efnahagshrun. Það greip miklu víðar inn og snerti öll svið samfélagsins. Það var dómur sem lét ýmislegt í ljós sem áður var hulið; gegndarlausa græðgina og auðæfaoflætið. Fjárhagslegt áfall þjóðarbúsins og heimilanna var stórkostlegt en mun alvarlegra var hið andlega áfall sem þjóðin varð fyrir. Þjóðarbúið rétti ótrúlega fljótt úr kútnum eftir efnahagsþrengingarnar. Það var svo sannarlega Guðs blessun.“

Góður maður á erfiðum tímum

En biskupsárunum lauk. Karl ákvað að hætta sem biskup og það er greinilegt að það eru mikil sárindi sem fylgdu þessum árum í hans huga. Hann vitnar í Billy Graham: „Ævina alla var mér kennt hvernig ég ætti sem kristinn maður að búa mig undir dauðann, en enginn kenndi mér hvernig ég ætti að lifa elliárin. Ellin hefur sínar áskoranir í för með sér og er ekki heiglum hent. Það er orð að sönnu. Tómleiki sat í sál og smánin og sorgin við hjartaræturnar. Hefur, hafa brugðist og verið hafnað. Mér fannst ég vera ærulaus. Non grata, slaufað eins og það kallast nú til dags. Oft leitaði á mig andvarp Jesaja: Ég hef erfiðað til ónýtis, sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn.“

Þannig leið Karli að leiðarlokum biskuptíðar sinnar. Því miður.

Það var nú samt svo að hann þjónaði um tíma í Dómkirkjunni. Hann orti sálma. Honum fannst samt hann hefði getað gert meira og nýst betur. Þannig er nú kannski lífið. Menn búa sig ekki vel undir ellina. Og þjóðfélagið veit ekki alltaf hvernig það á að nýta þá sem eru orðnir aldraðir. Fólk sem er með fullt starfsþrek og gæti gert miklu, miklu meira en það fær að gera.

Eftir að hafa lesið Skrifað í sand situr maður eftir með hugsun um að Karl biskup hafi sannarlega verið góður maður. Hafi viljað veg Krists sem allra mestan. Hafi lifað á óheppilegum tíma. Hafi orðið fyrir harðri og ósanngjarnri andspyrnu innan kirkjunnar þótt hann hafi ekki alltaf hagað orðum sínum með heppilegasta hætti.

En hann lifði líka á tímum þar sem allir leyfðu sér að gagnrýna allt sem miður fór. Og eftir á þá var margt túlkað á verri veg. Ekki bara af andstæðingum hans innan klerkastéttarinnar, heldur líka af mönnum sem töldu sig hafa pólitískan hag af því að gera lítið úr biskupnum.

Bókin er vel skrifuð, falleg saga. Ég hef hitt nokkra sem hafa lesið hana og allir eru á einu máli um það að hún á erindi við marga. Ekki síst þá sem muna vel þessa tíma og eru ekki sannfærðir um það að allt sem menn gera megi túlka á versta veg, heldur að góðir menn reyni að gera sitt besta, þó svo að það takist ekki alltaf.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.