Mamma sagði að hún hefði aldrei séð jafnfallegt nýfætt barn og Halldór Blöndal. Mér skilst að hann hafi alla tíð þótt myndarlegur maður, en ég hef reyndar lítið vit á útliti karlmanna. Man þó að þegar hann var nýskilinn við fyrri konu sína sagði frænka hans að „konur flykktust að honum eins og mý á mykjuskán“. Móðursystrum hans, mömmu og Ólöfu, fannst óviðeigandi að líkja frænda sínum við mykjuskán, en þær voru nú samt svolítið hreyknar af aðdráttaraflinu sem hann bjó yfir.
Halldór skar sig alltaf úr fjöldanum, stór og fyrirferðarmikill, oft úfinn. Danski athafnamaðurinn Søren Langvad lýsti Halldóri sem „en buldrende vulkan af et menneske“ sem hafi barist fyrir hagsmunum kjördæmis síns í heilan mannsaldur. Líkingin við eldfjall var góð. Fjall sem eftir var tekið, gat gosið fyrirvaralaust og ekki alltaf ljóst hvar kvikusletturnar myndu lenda. Hann var oft orðheppinn; stundum talaði hann örstutt og snubbótt þegar lengri skýringa var þörf, stundum óþarflega lengi með útúrdúrum sem erfitt var að átta sig á.
Halldór missti móður sína sextán ára gamall árið 1955 og sagði sjálfur frá því að það hefði komið róti á sitt líf, eins og allir skilja. Guðrún Pétursdóttir, amma okkar, taldi að Þórarinn Björnsson skólameistari á Akureyri gæti komið Halldóri til manns. Þess vegna var hann sendur norður í Menntaskólann á Akureyri. Ekki gumaði Halldór af námsárangri þar, en hann komst til manns. Mér er sagt að hann hafi verið talinn svolítið kallalegur, talaði á málfundum og vildi ræða stjórnmál en hafði lítinn áhuga á dægurtónlist og allra síst rokkbylgjunni, þar sem ungt fólk hafnaði klassískri danshefð og rokkaði villt. Því þótti það spennandi þegar auglýst var að Halldór Blöndal myndi sýna rokk á skólaskemmtun. Þegar svo kom að þessum dagskrárlið gekk Halldór fram með gamlan rokk í fanginu.
Fyrri konu sinni, Renötu Kristjánsdóttur, kynntist Halldór á Akureyri og eignaðist með henni tvær dætur. Um svipað leyti og þau Halldór og Renata gengu í hjónaband festu þeir ráð sitt Benedikt, bróðir hans, og Benedikt Sveinsson, frændi hans og mikill vinur. Guðrún amma sagði við Halldór nýgiftan: „Þið frændur hafið greinilega valið ykkur kvonfang eftir skattskránni“, en hún taldi sig vita að tengdafeðurnir væru allir vel stæðir.
Stjórnmál voru Halldóri nánast í blóð borin, Benedikt afi hans var alþingismaður í áratugi og stóð í stafni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Bjarni móðurbróðir hans var borgarstjóri, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Flestir hefðu talið það sjálfgefið að Halldór gengi í þann flokk, en málið var ekki svo einfalt. Lárus Blöndal, faðir hans, var mikill kommúnisti, var að vísu rekinn úr flokknum í hreinsunum á fjórða áratugnum, en bilaði lítt í trúnni við það. Til er ljósmynd af Halldóri, kornungum manni, við Tjarnargötu 20, höfuðstöðvar Sósíalistaflokksins. Hann gaf ekkert út á það þegar ég spurði hann hvort hann hefði verið að fara á fund. Hafi svo verið, óx hann að minnsta kosti fljótt upp úr því. Þeir feðgar, Lárus og Halldór, voru þó sammála um að hafa lítinn þokka á Ólafi Ragnar Grímssyni. Einhvern tíma sat Lárus í kirkju í jarðarför með sonum sínum, Halldóri og Haraldi. Settist þá ÓRG á sama bekk. Lárus stóð strax upp og færði sig á annan bekk og synirnir fylgdu svo í kjölfarið.
Ég man eftir því þegar ég var í sveit í Kelduhverfi árið 1965 fór ég á héraðsmót Sjálfstæðisflokksins, tíu ára gamall. Á þeim tíma voru fáir Sjálfstæðismenn á þeim slóðum aðrir en Björn í Kílakoti, en það var fullt út úr dyrum í Skúlagarði, sem í minningunni var risastórt samkomuhús, en hefur minnkað með árunum. Halldór var þá kallaður erindreki Sjálfstæðisflokksins minnir mig og ég var auðvitað montinn af þessum frænda mínum í svo fínu embætti.
Árið 1969 var hann kominn með nýja konu, Kristrúnu Eymundsdóttur, sem ég kynntist lítillega þegar þau sóttu foreldra mína heim, en seinna efldust þau kynni þegar við kenndum bæði við Verzlunarskólann. Hún var elskuleg kona. Með þeim hjónum var mikið jafnræði. Þegar Kristrún lést árið 2018 eftir löng og erfið veikindi tregaði Halldór hana mjög og sagði mér að hann skálaði við hana á kvöldin, þótt hún væri látin. Samband þeirra var fallegt.
Vorið 1974 voru fjörbrot vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar í beinni útsendingu útvarpsins. Umræðurnar voru eins og besta spennu- og skemmtisaga. Hannibal Valdimarsson stóð að vantrausti á ríkisstjórnina sem hann hafði áður setið í og Bjarni Guðnason, sem í upphafi kjörtímabilsins var flokksbróðir Hannibals, kallaði hann „rumpulýð“. Sverrir Hermannsson stóð í pontu og sagðist ætla að tala í tíu klukkustundir, en að ræðunni lokinni var búist við meiri átökum. Um kvöldið ákváðum við mamma að fara á þingpalla til þess að fylgjast með þessum sögulegu viðburðum. Þegar við komum að þinghúsinu taldi hún af og frá að fara inn bakdyramegin upp á þingpalla, sagðist alltaf hafa farið inn um aðaldyrnar sem stelpa, en þá var pabbi hennar forseti neðri deildar. Ég var efins um að sú leið væri fær. Þingvörðurinn við dyrnar var greinilega ekki viss hvernig hann ætti að bregðast við þessari innrás virðulegrar miðaldra konu og síðhærðs pilts í vínrauðum rúskinnsjakka. Meðan hann var að manna sig upp í að vísa okkur frá kom Halldór frændi að, vörpulegur varaþingmaður, tók utan um móðursystur sína og bauð okkur í kaffi og fylgdi okkur svo upp á palla, „rétta leið“ samkvæmt mömmu. Svo fór að þingið var rofið um nóttina og efnt til kosninga, en þrátt fyrir mikinn kosningasigur Sjálfstæðismanna komst Halldór ekki að í það sinn.
Við Vigdís fórum utan til náms og starfa eftir stúdentspróf og ég hitti Halldór næst ekki fyrr en haustið 1982 í afmæli mömmu og Ólafar þann 10. október. Þá var hann orðinn þingmaður og skammaði mig fyrir að hafa ekki beðið sig að leggja inn gott orð fyrir Vigdísi sem hafði sótt um og fengið stöðu skjalavarðar Alþingis. Okkur hafði satt að segja hvorugu dottið í hug að slíkt væri nauðsynlegt, enda kom á daginn að svo var ekki.
Þegar Halldór varð landbúnaðar- og samgönguráðherra vorið 1991 bað hann mig að hjálpa sér við ýmis verkefni og þá kynntist ég honum í návígi. Fyrst skrifaði ég fyrir hann skýrslu um fiskeldi sem hafði verið farið í af meira kappi en forsjá á níunda áratugnum og margir milljarðar úr opinberum sjóðum runnu til. Á greininni dundu alls kyns áföll og lítill árangur náðist í eldinu. Fiskurinn óx hægt, sýktist í kvíum, sem voru eins og botnlaus hít, sem héldu hvorki fiski né fjármunum. Niðurstaðan var sú að afskrifa þyrfti nánast allt fjármagn sem til greinarinnar var veitt, en ákveðið að lána 300 milljónir til þeirra fyrirtækja sem von væri til að lifðu af. Halldór barðist af hörku fyrir þessum lyktum og þrátt fyrir að margir teldu líklegt að verið væri að eyða enn meira fé ríkisins í vitleysu endurheimtist obbinn af því fé til baka.
Síðar sama ár kynnti Halldór skýrslu um starfsemi Skipaútgerðar ríkisins, sem sá um strandsiglingar við Ísland en hafði verið rekin með miklu tapi í rúmlega 60 ár. Í skýrslunni var boðað að þetta tap yrði að stöðva með einhverjum ráðum. Sumir töldu Halldór ólíklegan til slíkra aðgerða. Hann var dreifbýlisþingmaður sem talaði oft í bundnu máli og mörgum þótti hann býsna framsóknarlegur í afstöðu til mála í gegnum tíðina. Sem sagt, ekki dæmigerður merkisberi einkavæðingarinnar. Hann átti eftir að koma mörgum á óvart.
Þann 8. nóvember 1991 kom sendiboði með bréf til mín frá samgönguráðuneyti: „Hér með eruð þér, hr. Benedikt Jóhannesson, settur til þess að gegna starfi formanns stjórnarnefndar Skipaútgerðar ríkisins,…, um óákveðinn tíma og þar til annað kann að verða ákveðið. Með yður hafa verið skipaðir í stjórnarnefndina til 15. júlí 1993, Geir Gunnarsson, alþingismaður, og Kristinn H. Gunnarsson, skrifstofustjóri, Bolungarvík. Halldór Blöndal“ Hér voru engar óþarfa málalengingar. Halldór sagði mér að með öllum ráðum skyldi kostað kapps að draga úr kostnaði við reksturinn.
Til þess að gera langa sögu stutta þá var sú stefna mörkuð á stjórnarfundi í lok desember sama ár að selja skyldi eignir og segja upp öllum starfsmönnum. Stjórnarandstaðan tönnlaðist á því að selja ætti (eða gefa) Eimskipafélaginu eignir Skipaútgerðarinnar og það kom því flestum á óvart að tilboð kom frá Samskipum í skip félagsins. Eftir það hvarf öll gagnrýni frá Framsóknarflokknum og svo fór að í lok janúar voru eignirnar seldar.
Það vakti athygli mína hve fáir urðu til þess að styðja við bakið á ráðherranum meðan á móti blés. Í umræðum á þinginu var hann oftast einn til andsvara og ég man eftir því að sumir félagar hans veltu því fyrir sér hvort þetta væri þorandi. Morgunblaðið studdi málið í leiðara sem birtist ekki fyrr en um miðjan mars, þegar allur hasarinn var búinn. Eftir á vildu fleiri Lilju kveðið hafa.

Halldór Blöndal, Þór Magnússon þjóðminjavrður, Guðmundur Einarsson forstjóri og Benedikt Jóhannesson
Halldór Blöndal hikaði aldrei allan tímann. Hann hafði ákveðið að leysa málið og þegar leiðin var ljós var hann mjög staðfastur. Aldrei vék hann að mér styggðaryrði þrátt fyrir að hann yrði stundum að verja það sem ég hafði gert. Hann hafði markað stefnuna í september og hélt henni. Svo fór að frumvarp um niðurlagningu Skipaútgerðarinnar var samþykkt á Alþingi mótatkvæðalaust.
Margt fleira vann ég fyrir Halldór á þessum árum og studdi hann eindregið og reyndi að leggja gott til mála þó að við værum ekki sammála um allt. Meðal annars kom ég að undirbúningi að breytingu Pósts og síma í hlutafélag. Í ársbyrjun 1997 hringdi Halldór og í kjölfar þess samtals urðu samskiptin lítil um stund. Ég hafði skrifað í Vísbendingu að forsætisráðherrann væri á villigötum í áramótaboðskap sínum þegar hann agnúaðist út í Evrópumyntina sem þá var enn ekki orðin að veruleika. Ég sagði: „Kostur við Evrópumyntina [er að] með því að nota hana verða fyrirtæki að laga sig að raunveruleikanum en ekki laga raunveruleikann að sjálfum sér eins og gerist með þeirri tekjutilfærslu sem fylgir gengisfellingu.“ Síðar sagði ég: „Í áramótagrein segir forsætisráðherra tal um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gleðja sig því það sé einkenni góðra stjórna að gera sem minnst. Hér slær saman tveimur hugsunum. Það er ekki gott að gera lítið þegar margt er ógert. Það er einkenni vitra stjórnenda að láta þegna sína sem mest í friði. Það er hins vegar einkenni hins lata að gera það sama í dag og í gær.“ Davíð varð æfur og skipaði Halldóri að losa sig við þennan ófyrirleitna hjálparkokk og ég vann ekki meira fyrir ráðuneyti Halldórs. Mál Halldórs fóru hægt eða ekki í gegnum ríkisstjórn fyrst eftir þetta.
Árið 1999 tók Halldór við sem forseti Alþingis. Ég óskaði honum til hamingju með það og við tókum upp þráðinn á ný. Vegna starfa Vigdísar sótti ég þingveislur í áratugi. Þar var þá jafnan talað í bundnu máli og þar naut Halldór sín vel. Bæði var hann hraðkvæður þegar hann var í besta formi og vísur hans báru oftast af öðrum kveðskap, þótt á fyrri árum væru margir ágætir hagyrðingar á þingi. Minnisstæð er starfsmannaveisla þar sem fólk kvaddi sér hljóðs og meðan það gekk í pontu fór Halldór með stöku þar sem nafn ræðumannsins kom fyrir með smellnum hætti, jafnvel stundum þegar hvísla þurfti nafninu að þingforsetanum nokkrum sekúndum áður. Hann orti fyrir mig tvær jólasveinavísur við lítið lag sem ég samdi. Önnur þeirra er svona:
Brátt á himni hækkar sól
hægt en áfram miðar.
Haldin eru heilög jól
hátíð árs og friðar.
Einu sinni vorum við samtímis í París þar sem Ísland atti kappi við franskt úrvalslið í skák. Um kvöldið var veisla á vegum þingsins þar sem íslensku þátttakendurnir voru og Boris Spassky var heiðursgestur. Ég naut þess að vera fylgifiskur Vigdísar. Halldór stóð upp og ávarpaði heiðursgestinn og Larissu, konu hans. Að ræðu lokinni sagði ég við Halldór: „Þetta var ágæt ræða, en þú veist að Boris og Larissa skildu fyrir 25 árum.“ Svolítið vandræðalegt, því ekkert okkar vissi hvað nýja konan hét, en Halldór stóð upp aftur og afsakaði sig með því að hann ætti alltaf í vandræðum með nöfn.
Þótt Halldór væri í grunninn elskulegur og velviljaður maður vöfðust skapsmunir oft fyrir honum og hann gat verið hranalegur í samskiptum. Ég held að hann hafi sjaldnast áttað sig á því sjálfur. Á árunum eftir hrun hringdi hann stundum í mig og skammaði mig, fyrst og fremst vegna afstöðu minnar til Evrópusambandsins, sem ég veit ekki hvort hann setti sig nokkurn tíma inn í, en fylgdi flokkslínu. Eitt samtalið endaði á því að hann sagðist aldrei myndu tala við mig aftur. Kannski tók ég það óþarflega nærri mér vegna þess að mér þótti vænt um Halldór og fannst ég ekkert hafa til saka unnið sem kallaði á skens frá þessum frænda mínum. Hann sendi mér seinna fallegt bréf þar sem hann baðst afsökunar.
Síðustu árin hittumst við öðru hvoru og spjölluðum lengi. Mest sögur frá ýmsum tímum, drykkjusögur af samherjum og andstæðingum, spjall um ljóðagerð og sögur af forfeðrum okkar. Ein sagan var af þingmanni sem hefði stundum orðið mikið fullur, en haldið svo bindindisræður í þinginu daginn eftir. Ég skaut því inn í að hann hefði auðvitað gert sér grein fyrir áfengisbölinu á þeirri stundu. Þeir komu líka til tals Hannes Pétursson, sem væri án efa besta skáld okkar núna, Kristján Karlsson og Matthías Johannessen, sem oft kæmi með óvenjulegar myndlíkingar. Halldór sagðist hafa þekkt Dag Sigurðarson sem hefði verið ágætis náungi, en hefði viljað láta mikið á sér bera og endað sem róni. Hann sagðist hafa lesið bækur Dags og hefði þótt þær áhugaverðar.
Undir lokin var Halldór orðinn lélegur líkamlega og hann sagðist vera farinn að gleyma. Ekki þó svo að það slægi út í fyrir honum. Ég gaf honum bækur sem ég gaf út, um Reyni frænda og bókina mína nú í sumar. Hann sagðist lítið lesa núorðið.
Nú er Halldór allur og merkilegri ævi lokið. Ævi sigra og sorgar eins og hjá svo mörgum. Krabbinn tók ekki bara frá Halldóri móður hans heldur líka þrjú systkini, Benedikt, Kristínu og Harald, sem létust öll langt um aldur fram. Halldóri tókst að sigrast á sínu krabbameini, sem uppgötvaðist sem betur fer þegar það var skammt á veg komið. Líf Halldórs lengdist um meira en 20 ár.
Afkomendur Halldórs sjá nú á bak einstökum föður, afa og langafa og ég votta þeim einlæglega samúð. Þau, vinir Halldórs og frændfólk sjá nú á bak manni sem var engum líkur.