Á laugardaginn var brugðum við hjón okkur í ferðalag aftur á 13. öldina. Við vorum ekki nema tæplega þrjá tíma á leiðinni, en komum reyndar 5 mínútum of seint á leiðarenda, sem þykir ekki mikið á þeim tímum. Á áfangastað var múgur og margmenni, hópur fólks var saman kominn til þess að heiðra Sturlu Þórðarson, skáld og sagnaritara, að heimili hans að Staðarhóli í Dölum. Sturla var að heiman, en þarna var margt merkismanna, meðal annars Einar Kárason kollega Sturlu og Guðni Ágústsson, leikfélagi hans, en Guðni man vel þegar Þangbrandur hélt honum undir skírn.
Hátíðin hófst á afhjúpun, sem auðvitað kitlaði mann, þangað til ég áttaði mig á því að ekki stóð til að afhjúpa neitt merkilegra en skilti sem sagði okkur að af bæjarhólnum þar sem skiltið stendur er víðsýnt, sem ég get staðfest. Efast þó um að nokkur hefði tekið eftir því ef þetta hefði ekki komið fram á skiltinu. Stjórnarmenn Sturlufélagsins tóku hver í sitt horn á teppinu sem hjúpað var um spjaldið. Af því að hornin voru bara fjögur varð formaðurinn, Einar K. Guðfinnsson, að grípa um miðjuna á dulunni, en allir toguðu í eina og sömu átt og leyndardómurinn varð ljós. Þegar Einar hafði klappað fyrir sjálfum sér að sovéskri fyrirmynd sagði hann okkur að hvergi á byggðu bóli væru jafnmörg skilti á fermetra og á Staðarhóli. Þá var klappað enn meira.
Í hópnum voru ýmis kunnugleg andlit og einn gesta rölti í áttina til mín. Sá var með derhúfu merkta þjóðgarðinum á Þingvöllum og mig rámaði í að þetta væri einn þjóðgarðsvarða, sem var auðvitað vel við hæfi að mætti á slíka hátíð. Hann sagðist eiga að halda erindi, en hann hefði verið búinn að skrifa það svo langt að hann hefði orðið að sleppa tilvitnun í mig. Ég veit auðvitað ekki hver tilvitnunin hefði verið, en til þess að greinin mín gleymist nú ekki alveg birti ég hér eina tilvitnun í hana:
„Í Sturlungu eru margir kappar en engar hetjur. Stundum eru hetjudáðir, en engir sem sagt er frá eru gegnheilir menn sem einhver ætti að taka sér til fyrirmyndar. Menn hika ekki við að drepa menn sem þeir höfðu áður bundist vinaböndum. Svo eiga þeir líka auðvelt með að skemmta sér vel með þeim sem þeir skömmu áður höfðu barist við og sært. Sturlungar voru stjórnmálamenn, menn sem gátu fyrirgefið óvinum sínum, en mundu vel hvar þeir áttu heima.“
Þetta skrifaði ég eftir að hafa verið á námskeiðum hjá Magnúsi Jónssyni, sem auðvitað var mættur á staðinn með Margréti konu sinni, sem árum saman hélt aga á skrifstofu forstjóra Eimskipafélagsins.
Eftir að hafa heilsað þeim sem ég rakst á og kannaðist við, var tímabært að halda í Tjarnarból, félagsheimili Sturlunga. Ég saknaði þess auðvitað að hafa ekki hitt Staðarhóls-Pál, sem auðvitað var ekki á staðnum því hann var uppi á ofanverðri 16. öld. Hann orti til konu sinnar, Helgu Aradóttur, Jónsonar, Arasonar biskups. Fór miklum sögum af því hve heitar ástir þeirra voru og er sagt að þau hafi ekki risið úr rekkju í margar vikur eftir brúðkaupið. En líklega hefur þeim farið eins og einum kunningja mínum sem sagði: „Við höfum eiginlega ekki um neitt að tala þegar, … það er að segja þegar …“ Hann kláraði aldrei setninguna. En Staðarhóls-Páll orti svona fallega til Helgu að leikslokum:
Farðu norður í Gýgjarfoss
og stingdu þér þar á kaf.
Sökktu til botns sem blý
og komdu’ aldrei upp frá því.
Tjarnarból er kirkjustaður og þar er ein sérstæðasta kirkja landsins, en af henni hafa verið skorin öll 90° horn. Samkoman var samt ekki í kirkjunni heldur í félagsheimilinu sem var orðið vel fullt þegar okkur hjón bar að garði. Við létum það ekki halda okkur frá kleinum og öðru góðgæti sem nágrannakonur Sturlu buðu upp á.
Hófst svo samkoman, auðvitað með ávarpi formanns, sem hvatti alla viðstadda til þess að ganga í Sturlufélagið, væru þeir ekki þegar í því.
Þá tók þjóðgarðsvörðurinn sitt mál á því að segjast hafa átt að tala í 20 mínútur, en hefði svo margt að segja að hann myndi tala í 30. Svo hóf hann lesturinn á því að segja okkur eitthvað sem væri kjarninn í því sem hann ætlaði að segja okkur og þeir sem hefðu skilið það gætu farið. Enginn yfirgaf samkomuna.
Eftir hálftíma sagði hann okkur að nú væri erindinu að ljúka, en talaði svo í 20 mínútur enn. Ekki man ég margt nema að Geir Haarde sagði: Eins og flest fyllerí. Eða var það: Þannig enda flest fyllerí? Ekki man ég það og var þó allsgáður.
Næst spiluðu og sungu þær Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona og Arnhildar Valgarðsdóttur píanóleikari ljóð frá dögum Sturlu, Skafl beygjattu skalli. (líklega heitir það Upp skal á kjöl klífa) Það var hressilega gert, en Þórir jǫkull kastaði fram stöku á leið á höggstokkinn, rétt eins og fólk gerir.
Næst sagði Elín Bára Magnúsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, okkur frá kósínus delta aðferðinni við samanburð á stíl handrita. Líklega hef ég verið sá eini í salnum auk kannski ræðumanns sem mundi hvað kósínus er. Niðurstaðan er áhugaverð, hvort sem hún er rétt eða ekki, en Sturla gæti hafa samið Grettis sögu að hluta að minnsta kosti. Öðru hvoru tók hún sér hlé og sagði okkur að nú ætlaði hún að fá sér vatnssopa. Hefur væntanlega talið að fólk sem þarf að lesa á skiltum að útsýni sé gott þyrfti að fá skýringar á hvað væri í gangi.
Aftur komu þær stuðsystur upp og sungu eitthvað eftir Sigga (Breiðfjörð). Siggi klikkar aldrei.
Loks las svo höfundur Sturlungu hinnar síðari, Einar Kárason, nokkra kafla upp úr fyrra verkinu. Meðal annars um aðför Þorvaldssona að Sturlu Sighvatssyni, sem ekki gat tekið á móti þeim því hann var hjá frillu sinni í annarri sveit og þeir riðu burtu erindisleysu. Einar las þó ekki um viðbrögð Sturlu: Þá var Sturla í laugu er þeir sögðu honum tíðindin. Sturla spurði, hvárt þeir gerðu ekki Solveigu. Þeir sögðu hana heila. Síðan spurði hann einskis. Þetta kallaði Matthías Johannessen stystu ástarsögu Íslandssögunnar.
Þorvaldur Vatnsfirðingur, faðir þeirra aðfararmanna, lenti næstum illa í því. Einhvern tíma þegar óvinir hans komu að honum var hann í rekkju með frillum sínum tveimur. Svona var gaman á Sturlungaöld, en um það var ekki talað þennan dag.
Enn var sungið og samkomunni slitið eftir að formaðurinn sagði okkur enn að ganga í félagið sem ég auðvitað hlýddi. Allir héldu glaðir og fróðari heim á leið.
Á flötinni fyrir framan hitti ég Kjartan Ragnarsson, stórleikara og leikskáld, og óskaði honum til hamingju með viðurkenninguna sem hann fékk á Grímunni og gladdi mig mjög að sjá. Hann tók því vel og sagði að gaman væri að fá klapp á bakið. Sagði mér svo að auðvitað ætti ég að vera ráðherra, en þeir nytu sjaldnast eldanna sem kveiktu þá.
Það var fallega sagt af honum, en ég sagðist lítið sakna þess. Það væri miklu skemmtilegra og líklega líka friðsamlegra að vera hér á Sturlungaöld en að berjast í þingsölum á 21. öldinni.