Bók er best vina

Frá því að ég lærði að lesa hef ég verið sílesandi. Smám saman hef ég áttað mig á því að það er býsna margt sem mér finnst skemmtilegt að lesa. Nick Hornby sagði að bækur væru líklegast erfiðasta áhugamál sem maður gæti átt því það væri engin leið að vita allt. Maður getur verið býsna góður í tónlist og þekkt helstu snillinga í bæði klassískri tónlist, rokki, sveitarsöngvum og raftónlist, menn þurfa ekki að vera neitt mjög furðulegir til þess að þekkja allar bílategundir, íþróttaáhugamenn geta þulið sigurvegara í hinum ýmsu keppnum allt frá árinu 1900 og svo framvegis. En bækur eru svo margar að það er vonlítið að hafa góða yfirsýn yfir þær. Bara á Íslandi koma mörg hundruð bækur út á hverju ári. Gúgull segir mér að 2,2 milljónir bóka séu gefnar út á hverju ári og í grein sá ég að frá upphafi hefðu komið út um 160 milljónir bóka (bókatitla eins og stundum er sagt til þess að rugla ekki saman við eintök af bókum). Í greininni stóð reyndar 158,464,880 árið 2023, en sem tölfræðingur er ég skeptískur á þá tölu, en hún er skemmtilega nákvæm.

Vorið 2020 ákvað ég að lesa 100 bestu/merkustu klassískar skáldsögur frá 1700-2000. Ég hef á þeim tæplega fimm árum sem liðin eru síðan smám saman bætt bókum við listann sem þá varð til hjá mér, farið ýmsa króka og útúrdúra, auk þess sem ég hef lesið bækur sem koma þessu verkefni ekkert við. Sumar hef ég fengið gefnar, aðrar eru nýjar íslenskar bækur af ýmsu tagi, ég les þjóðlegan fróðleik og ferðabækur og upplýsingar um staði sem ég ætla á eða langar til þess að fara á. Svo hef ég líka óhuga á að lesa að minnsta kosti eina bók eftir sérhvern Nóbelsverðlaunahöfund og ég á langt í land með það enn.

Aldrei tapa ég þó sjónum af markmiðinu. Nýjustu fréttir af 100 bestu bókunum eru að ég er búinn með 148 af þeim, 8 eru ólesnar. Spurningar vakna: Eru allar bækur topphöfunda klassískar? Svarið er auðvitað nei. Hvenær verða menn klassískir? Ég hef til dæmis lesið nokkrar bækur sem gerast í Þýskalandi árið 1930 eða þar um bil. Er bók Erichs Kästners Leiðin í hundana klassík? Ágæt bók sem kom út fyrir jólin, en slíkar spurningar vakna.

Bækurnar árið 2024

Hvað sem slíkum pælingum líður þá ætla ég að segja hér á eftir frá bókum sem ég las í fyrra, árið 2024. Alls voru þær milli 40 og 50, stuttar, langar og miðlungs. Góðar, slæmar og la, la. Sumar lesnar á pappír, aðrar af upptökum hjá Librivox eða Storytel, lesnar á íslensku, ensku, dönsku eða frönsku. Stundum á frummáli, annars í þýðingum á einhverju af framangreindum málum. Besta bókin fannst mér East of Eden eftir Steinbeck, svo Greifinn af Monte Cristo eftir Dumas og svo Bel-Ami eftir Maupassant, bók sem ég hafði aldrei heyrt nefnda.

Hefst nú frásögnin flokkuð eftir þjóðerni höfunda sem koma víða að:

Frakkland

Germinal eftir Emil Zola. Ég var lengi að lesa þessa bók, en hún er vel skrifuð og spennandi á köflum. Zola er bæði afbragðs rithöfundur og maður með boðskap. Þetta fer ekki alltaf vel saman, því höfundum hættir til að gera vondu karlana mjög vonda og þá góðu hálfgerða engla. Hér varð mikið drama og G. er víst talin ein besta bók Zolas. Ég byrjaði á annarri, Le bête humaine, en hún var of ógeðleg fyrir minn smekk. Get með góðri samvisku vel mælt með Germinal. ****

The Elegance of the Hedgehog eftir Muriel Barbery en hún er franskur rithöfundur. Þetta er falleg bók sem gerist í París. Hana var ágætt að lesa, kannski svolítið léttmeti, en ég hef líka séð að fólk telur að hún né nútíma klassík. Að minnsta kosti fín fyrir mig. ****

Bel-Ami eftir Guy de Maupassant er ein af bestu bókunum sem ég las í fyrra. Söguhetjan er mikill sjarmör sem nýtir sér það til þess að heilla konur upp úr skónum og jafnvel öðrum fatnaði. Þegar hann hefur nýtt sér aðdáun þeirra og vináttu sér til frama hverfur áhugi hans á þeim. Eflaust klassíkt þema, bæði í bókum og lífinu sjálfu, en afar vel gert hér. Eina bókin sem ég hef lesið eftir Maupassant, en þær verða vonandi fleiri. *****

Inferno eftir Henri Barbusse (enn ein frönsk bók sem ég las á ensku) segir frá Gluggagægi, manni sem kíkir á hvað gerist í næsta herbergi við hann á hóteli gegnum holu í veggnum. Barbusse var kommi sem greinilega hefur áhuga á að predika. Ekki beint minn tebolli. ***

Ég lagði loksins í Veginn til Swans eftir Proust, fyrsta bindi verksins Í leit að týndum tíma, sem oft er sögð vera mesta skáldverk sögunnar. Þetta er sú saga sem minnst gerist í af þeim sem ég hef lesið eða hlýtt á og tíminn var enn lengur að líða en ella. Loks er eins og ekkert hafi gerst.Prúst er eins og James Joyce,; þeir eru svo leiðinlegir að það þykir gáfumerki að átta sig á því að þeir séu snillingar. ***

Pons frændi er enn ein snilldarbókin eftir Balzac. Þeir Sigurjón Björnsson þýðandi og Steingrímur Steinþórsson útgefandi eiga mikið hól skilið fyrir að kynna þennan snilling fyrir Íslendingum. Balzac er hliðstæður við Dickens en franskur, en hefur ekki hlotið sömu frægð. Tveir snjöllustu rithöfundar 19. aldar í Vestur-Evrópu. *****

Rauður og svartur eftir Stendahl, franskan höfund á fyrri hluta 19. aldar. Þessa bók var ég mjög lengi að lesa. Hún þykir meistaraverk og byrjaði ágætlega en varð mjög langdregin um miðbikið sem er langt. Hún varð aðeins áhugaverðari í lokin. Lakari en Chartreuse de Parma eftir sama höfund. Hefði haft gott af miskunnarlausum ritstjóra. ***

Greifinn af Monte Cristo eftir Alexander Dumas. Best að viðurkenna það strax að ég las þessa bók fyrst í styttri útgáfu, fyrst á íslensku og svo á frönsku. Kláraði hana núna í upprunalegri útgáfu.

Söguþráðinn sem er æsilegur, drama um hefnd. Flestir átta sig á því að þetta er bara saga, ævintýri sem oft er mjög á mörkum hins mögulega, en einn útrásarvíkingurinn, sem taldi sig eiga harma að hefna, tók hana svo alvarlega að hann kallaði eitt félaga sinna Monte Cristo. Hans saga endaði ekki eins vel og hjá greifanum. Lipur og skemmtileg frásögn. *****

Bonjour tristesse eftir Francoise Sagan kom út árið 1953 í Frakklandi og nokkrum árum síðar kom hún út á íslensku undir nafninu Sumarást. Bókina þýddi Guðni Guðmundsson, hinn eini sanni, sem síðar varð rektor MR í aldarfjórðung. Sagan var 18 ára þegar hún skrifaði bókina sem sló í gegn. Dramatísk ástarsaga. ****

Egyptaland

Í Egyptalandi leitaði ég að bókum eftir Naguib Mahfouz sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1988. Á hóteli í Luxor spurðist ég fyrir um slíkar bækur í gjafabúðinni á hótelinu. Afgreiðslumaðurinn taldi af og frá að slíkar bækur væru til, en sýndi mér nokkrar bækur fyrir ferðamenn. Engar svoleiðis, sagði hann, en við höfðum gengið framhjá litlum bunka þar sem voru einmitt bækurnar sem ég var að leita að. Þegar ég fann þær gekk hann burtu hinn snúðugasti. Af því að ég vissi ekkert um Mahfouz, annað en að hann væri til ákvað ég að kaupa þrjár stuttar bækur, en auðvitað hefði ég átt að taka þær allar af borðinu og ganga út, því þær voru alls ekki til. Mahfouz er góður rithöfundur sem segir áhugaverðar, egypskar sögur frá 20. öld. Bækrunar sem ég keypti heita á ensku: The Search, The Beggar og Autumn Quail. Þær eru allar fremur stuttar, en allar fjögra stjörnu bækur.

Ísrael

Hlébarði í kjallaranum eftir Amos Oz. Hún er ekki jafngóð og hin bókin sem ég las eftir Amoz Oz, Júdas. Hlébarðinn er um strák sem er 12 ára árið 1948 þegar Ísrael fær frelsi. Strákurinn vingast við enskan hermann, sem er auðvitað einn af óvinunum.***

Rússland

Djöflarnir eftir Dostojevsky er bók sem fer mjög hægt af stað og verður svo eins og Rambo mynd í lokin. Eflaust mikil paródía sem ég skildi ekki vel. Ekki sama snilld og Fávitinn, Glæpur og refsing og Karamazov bræðurnir, en ágæt samt. ****

England

Three Men in a Boat eftir Jerome K. Jerome er grínbók frá 1889, léttmeti sem er ágæt til þess að hvíla sig á dramanu. Er á köflum bráðfyndin, reynir stundum svolítið mikið til þess. Sagan er ekki merkileg, passar ágætlega ef maður þarf eitthvað léttmeti. Svo er hún ekki of löng. Mætti fá þrjár og hálfa stjörnu út á einstöku mjög smellna kafla. ***

Silas Marner eftir George Eliot kom fyrst út 1861. Mér fannst þetta frábær saga. Stutt og ekki allt of flókin, en ég kláraði hana á þremur dögum. *****  

Moll Flanders eftir Daniel Defoe sem frægastur er fyrir Robinson Krúsó. Mér fannst þessi bók svolítið skemmtileg þótt aðalpersónan sé ekki virðingarverður karakter. Hún sefur hjá býsna mörgum körlum, giftist mörgum þeirra og á með þeim börn sem eru síðan með einni undantekningu úr sögunni. Þau sem lifa skilur hún eftir einhvers staðar eða lætur frá sér. Hún ákveður svo að verða þjófur og eins og í sumum svona sögum hefur maður samt samúð með henni, jafnvel þó að hún eigi það alls ekki skilið, stelur frá börnum og fólki sem treystir henni vel. Ég átti líka erfitt með að skilja að fólk var hengt fyrir að stela (ef það náðist), en hikaði samt ekki við það. Aðstæður hafa verið býsna ömurlegar þegar fólk tók þannig sénsa.

Ég sé að einhverjir líkja Moll Flanders (persónunni) við Madam Bovary og Önnu Karenínu. Það finnst mér vafasamt. Madam Bovary fannst mér frekar leiðinleg kerling sem hugsaði sífellt um næsta elskhuga, en var algjörlega óáhugaverð sjálf, meðan Anna Karenina var óhamingjusöm kona sem giftist fyrst gömlum karli af einhverri neyð og hreifst svo af flagara sem var henni ekki samboðinn, en varð hennar ógæfa. Ég raða þeim þannig upp: Anna Karenína er snilldarverk (nema síðasta bókin af átta sem er eiginlega ofaukið), Moll Flanders hélt mér vel við efnið og um Madam Bovary hugsaði ég stöðugt: Fer þessu ekki bráðum að ljúka.

Það var sagt í lok bókarinnar að hún hefði verið skrifuð 1687, sem líklega er hluti af skáldskapnum, en bókin var gefin út árið 1721 og ekki eignuð Daniel Defoe fyrr en 50 árum síðar. Daniel Defoe er frægastur fyrir söguna um Robinson Krúsó. Moll Flanders er ágætlega skrifuð og hélt mér hæfilega spenntum. Kannski ætti hún að fá þrjár og hálfa stjörnu en ekki fjórar, en ég var mjög sáttur við hana.****

Pólland

Nostromo eftir Joseph Conrad (pólsk-enskan) er fín bók, kannski skemmtilegasta bók Conrads sem ég hef lesið. Lýsing á ástandinu í Suður-Ameríkulandi þar sem tryggð við stjórnendur er lítil og ástandið ótryggt. Ekki ósvipað því sem er í uppsiglingu í Bandaríkjunum. ****

Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk, pólskan Nóbelsverðlaunahafa. Hálfgerð leynilögreglusaga sem er líka með boðskap um dýravernd. Mér fannst hún ágæt, vel skrifuð. ****

Bandaríkin

Invisible Man eftir Ralph Ellison frá 1953 er þroskasaga svertingja í New York sem lendir í öfgafélagsskap sem Emerson gefur ekki mikið fyrir. Merkileg bók, en eina bókin sem Emerson hafði fram að færa.****

The Murders in the Rue Morgue eftir Edgar Allan Poe er sögð vera ein fyrsta leynilögreglusagan. Líklega hef ég lesið hana áður, en ég var að minnsta kosti ekki mjög hrifinn. Hún hefur örugglega verið betri í augum lesenda þegar svona gátur voru nýnæmi. **

Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe var ein áhrifamesta bók 19. aldar. Hún lýsir aðstæðum þræla, þrælasölum og eigendum, góðum og vondum. Nú er hún sett á svartan lista af mörgum svörtum vegna þess hve skilningsríkur Tómas var og tók sínum örlögum. Hún er svolítið svart-hvít í lýsingum á persónum, en mér fannst sagan ágæt. ****

Moby Dick eftir Herman Melville kom út árið 1851 er stórvirki. Bókin er allt of löng og margir þekkja hana eflaust í gegnum bíómyndir eða Sígildar sögur, sem voru teiknimyndahefti í gamla daga. Ég fór oft hratt yfir sögu og sleppti heilu köflunum, en mig grunar að hún komi oft út í styttum útgáfum. Samt áhrifamikið drama milli manns og dýrs og Melville var fínn rithöfundur. Bókin hefði haft gott af  ritstjóra með þykkan tússpenna, sem hefði strikað út marga kafla. Mæli óhikað með því að hraðlesa stóra hluta. Um 600 bls. Fjórar stjörnur út á dramað og hvalinn. Hlustaði nú (2024) á alla bókina. Hún er mjög vel skrifuð og veiðiferðirnar í lokin voru ekki eins margar og mig minnti, en þetta er undarleg blanda af fróðleik um hvali og hvalveiðar og dramað alkunna. ****

East of Eden eftir John Steinbeck kom út um 1952. Ein besta bók sem ég hef lesið. Nánast frá upphafi var ég spenntur að heyra hvað gerðist næst, vonaði það besta fyrir sumar persónur, en sannarlega ekki allar. Líklega birtist ein versta söguhetja fagurbókmennta þarna á síðunum. Bókin er með svolítinn forlagatrúarkeim, kannski mikinn, en ekki truflaði það mig. Sagan hefst í austurríkjum Bandaríkjanna og leikurinn berst svo á heimavöll Steinbecks. Ónotatilfinningin sem stundum greip mann minnti mig á Dickens upp á sitt besta. Ég átta mig á því að það eru ýmsar tilvísanir og örugglega miklu fleiri en ég kom auga á.

Ég hef lesið þó nokkrar af bókum Steinbecks, ekki síst þær stuttu, Mýs og menn, Kátir voru karlar og fleiri. Frábærar bækur, en þessi er langbest. Miklu betri en Þrúgur reiðinnar sem er ein allsherjar ömurleikasónata frá upphafi. Undir lokin var bókin orðin svolítið fyrirsjáanleg, en þó endaði hún aðeins öðruvísi en ég bjóst við. Minnti á Citizen Kane. Vel skrifuð bók og tímanum vel varið í að lesa hana eða hlusta á. *****

Þýskaland

Hvað nú, ungi maður? eftir Hans Fallada gerist í Berlín í kringum 1930 og lýsir dapurlegum aðstæðum ungs fólks á þessum tíma. Fallada var fyrst andnasisti, svo lét hann undan þrýstingi og breytti bókum sínum til þess að þóknast nýjum herrum, flýði ekki frá Þýskalandi. Eftir stríðið gaf hann svo út eina, andnasíska bók. Bókin birtist í Alþýðublaðinu í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og kom út sem sérstök bók árið 1934. Mér fannst ýmislegt í bókinni fyndið, held að það sé ekki óvart. ****

Berlin, Alexanderplatz eftir Alfred Döblin er erfið bók og fellur eflaust í flokk gáfumannabókanna sem þykir fínt að hafa lesið og talið hana meistaraverk. Ég mæli ekkert sérstaklega með henni sem skemmtilestri, enda hefur hún líklega átt að vera eins konar samsvörun við Jobsbók, þar sem sífellt meiri þrautir eru lagðar á söguhetjuna. Ég hef gefið henni fjórar stjörnur, en í endurminningunni er það ríflegt. ****

Töfrafjallið eftir Tómas Mann er löng bók frá um 1924 og ekki auðlesin. Það eru fáir kaflar þar sem eitthvað skeður. Í mörgum (flestum) er fólk bara að tala saman, oft á heimspekilegum nótum, sem voru kannski áhugaverðar fyrir 100 árum, en mér fannst þær fyrst og fremst leiðinlegar. Mann virðist hafa lesið sig til um ýmis málefni og fellir þau svo inn í bókina. Afstæðiskenningin, Freud, stærðfræði um hvers vegna ekki er hægt að skrifa töluna pí sem hlutfall og svo undir lokin langar útlistanir á óperum, sem minntu á það þegar Guðmundur Jónsson óperusöngvari sagði frá söguþræði ópera í útvarpinu í gamla dag. Auðvitiað afar vel skrifað (um lítið efni) en óstytt útgáfa er tormelt. Buddenbrooks er miklu skemmtilegri bók. Jafnvel Dauðinn í Feneyjum, sem er reyndar um heldur ógeðfellt efni, ást gamals manns á ungum dreng, hefur þann kost að vera miklu styttri en Töfrafjallið. Hef samt ekki gefist upp á Tómasi Mann. ***

Leiðin í hundana eftir Erich Kästner kom út árið 1931. Þetta er mjög góð bók. Þriðja bókin sem ég las árið 2024 sem gerist í Berlín um 1930. Í raun og veru sorgleg bók sem er samt sögð af vissri gleði, ólíkt hinum bókunum tveimur (Berlin Alexanderplatz og Hvað nú, ungi maður?). Ástandið var þó fjarri því að vera gleðilegt og fróðlegt að lesa þessar bækur sem koma út rétt áður eða um það leyti sem Nasistar tóku völdin. Ég las á sínum tíma Emil og leynilögreglustrákana, Ögn og Anton og Lísa eða Lotta, þrjár bækur sem í minningunni voru skemmtilegar. Þessi bók er fyrir fullorðna og ég spái því að margir muni hafa gaman af því að lesa hana. ****

Ítalía

Family Lexicon (Lessico famigliare) eftir Nataliu Ginzburg, ítalskan höfund, er fjölskyldusaga höfundarins sjálfs. Vel skrifuð bók, engin kaflaskil en samt ekki óþægileg að lesa. ****

Brasilía

Macunaima eftir Mário de Andrade, brasilískan höfund. Þetta er súrrealísk bók frá 1928. Eflaust mjög symbólsk, en með leiðinlegustu bókum sem ég hef reynt að lesa. Veit ekki hvers vegna hún fékk tvær stjörnur hjá mér. **

Svíþjóð

Leiðin í Klukknaríki eftir sænska höfundinn Harry Martinsson sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1974. Bókin byrjaði á allt annarri braut en hún tók svo, rétt eins og höfundur hafi fyrst ætlað að skrifa eina bók, en skrifað svo aðra. Um tíma fannst mér hún ansi hægfara, en svo vandist ég hraðanum og hafði svolítið gaman af henni. Hún fjallar um líf förumannsins í Svíþjóð og byggist upp á smá frásögnum af ævintýrum og atvikum, sennilegum eða yfirnáttúrulegum. Kannski er í þessu einhver djúp þjóðfélagsádeila, en fyrir mig er alveg nóg að þetta sé saga af förumönnum sem stundum eru miklir vitringar. Helst fannst mér þetta blanda af Sulti og Pan, eftir Hamsun, sem eru báðar hinar ágætustu bækur. Höfundurinn, Harry Martinson, fékk Nóbelsverðlaun árið 1974, en því hafði ég alveg gleymt, ef ég vissi það þá einhverntíma. Þau urðu honum ekki til neinnar gæfu og fjórum árum síðar svipti hann sig lífi með harakiri, sem er skáldlegur dauðdagi, en ekki algengur í Svíþjóð. Heimir Pálsson þýddi og það var vel gert. Ég hlustaði á bókina á Storytel í upplestri Gunnars Stefánssonar. Það var áheyrilegur lestur. Auk Leiðarinnar í Klukknaríki hefur komið út á íslensku bókin Netlurnar blómgast, sem Karl Ísfeld þýddi og kom út árið 1958. Ég er alveg til í að lesa hana líka. ****

Gösta Berlings saga eftir Selmu Lagerlöf var skrifuð rétt fyrir aldamót 19. og 20. aldar. Lagerlöf fékk síðar Nóbelsverðlaunin. Þetta er alvöru saga þar sem eitthvað er um að vera. Sumir kaflarnir koma fyrir eins og smásögur sem hefur þurft að koma fyrir, en það er yfirleitt vel gert. Boðskapurinn er að allir eigi að vera góðir og trúa á guð, en inn á milli koma fyrir ýmsar yfirnáttúrulegar verur, tröll, skógarpúkar og sá svarti sjálfur. Gösta er ekki flatur persónuleiki heldur sveiflast hann á milli þess að vera góður og verri, fullur og edrú, ástfanginn og svikull. Vel þess virði að lesa þessa bók en þetta er auðvitað 19. aldar rómantík með predikunarívafi, ****

Niðurlag

Sem sé níu franskar bækur, fimm frá Bandaríkjunum, fjórar þýskar, fjórar enskar, færri frá öðrum löndum. Fjórar fengu fimm stjörnur, flestar hinna fjórar. Þær sem fengu þrjár eru upp til hópa ágætlega skrifaðar, sumar jafnvel heimsfrægar bókmenntir, en mér hefur leiðst lesturinn á köflum. Færri stjörnur en þrjár þýðir að mér hefur fundist bókin hrútleiðinleg eða ómerkileg.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.