Conservative Liberalism
North & South
Grundtvig, Einaudi, and their Relevance Today
Eftir HANNES H. GISSURARSON
Hannes H. Gissurarson er mjög afkastamikill rithöfundur. Hann var á sínum tíma einn af helstu frumkvöðlum frjálshyggjunnar á Íslandi. Þau Margaret Thatcher og Ronald Reagan, sem voru leiðtogar austan og vestan Atlantshafsins, sveigðu stjórnmálin og sér í lagi efnahagsstjórnina til hægri sem kallað var. Mörg ríkisfyrirtæki í Bretlandi voru seld, skattar lækkaðir og verkalýðsfélög misstu vald sitt yfir stjórnmálamönnum. Thatcher hreinsaði til í ráðuneytum, lét ráðuneytisstjóra taka pokann sinn og neitaði að koma með „pakka“ frá ríkinu á borðið þegar samtök vinnuveitenda og verkalýðsfélög gengu frá samningum. Reagan lækkaði skatta og vísaði til Laffer-kúrvunnar sem segir að lægri skattprósenta geti leitt til meiri skatttekna. Þessi hugsunarháttur var Íslendingum framandi og þau Thatcher og Reagan urðu eins konar Grýla og Leppalúði hjá vinstri mönnum.
Í þessu umhverfi hóf Hannes að skrifa greinar sem predikuðu frelsi í viðskiptum og lítil ríkisafskipti. Vísað var til kenninga sem vissulega voru ekki nýjar af nálinni, John Locke, Adam Smith og John Stuart Mills, höfðu boðað þær allar hundrað, tvö hundrað eða þrjú hundrað árum fyrr. En á Íslandi þóttu þær byltingarkennt hægri ofstæki og vinstri menn töluðu með fyrirlitningu um „nýfrjálshyggjuna“ og spámann hennar á Íslandi, Hannes H. Gissurarson. Hannes lét þetta lítt á sig fá og kynntist persónulega mörgum af boðberum kenninganna á 20. öldinni, til dæmis Friedrich Hayek og Milton Friedman. Sá síðarnefndi kom hingað til lands árið 1984 og tók þrjá af helstu hugmyndafræðingum vinstrimanna á Íslandi, Stefán Ólafsson, Birgi Björn Sigurjónsson og Ólaf Ragnar Grímsson, í eftirminnilega kennslustund í frjálshyggju.
Hannes er mjög vel ritfær og á ágætt með að taka saman efni þannig að það verði skiljanlegt, en hann hefur lag á að koma andstæðingum sínum úr jafnvægi og stundum jafnvel skoðanabræðrum sínum líka. Ég hef það á tilfinningunni að Hannes hafi alltaf verið svolítið íhaldssamur, en sá eiginleiki hafi með árunum frekar vaxið á kostnað frjálslyndisins. Að sumu leyti er þetta þróun sem margir verða fyrir á lífsleiðinni og svo er það líka ágætt að bera virðingu fyrir gömlum gildum, ekki síst í sögu og menningu þjóða. Bókin sem kemur út núna heitir Conservative Liberalism – North & South – Grundtvig, Einaudi, and their Relevance Today.
Bókin í heild er lipurlega skrifuð og auðlesin þeim sem áhuga hafa á efninu. Fyrstu þrír hlutarnir eru fróðleg yfirferð um hugmyndaheim frjálslyndra fræðimanna. Auðvitað kemur þar fram mat höfundar á hverjum um sig, en mér líkaði það ágætlega, kannski vegna þess að ég er í grunninn sammála því að frelsi til orðs og athafna sé grundvöllur velsældar þjóða og einstaklinga.
Síðasti hlutinn finnst mér sístur, eflaust líka vegna þess að ég tel að náin samvinna þjóða sé æskileg og líkleg til þess að draga úr líkum á erjum þeirra á milli. Vissulega er ánægjulegt að Hannes er hlynntur Evrópusambandi og frjálsum viðskiptum, en hann telur að það sé orðið of náið. Eftir þriðja kaflann, um ítalska Evrópusinnann Einaudi, hefði gagnstæð niðurstaða verið rökréttari, náið samband Evrópuþjóða er æskilegt og jafnvel nauðsynlegt.
Riddarar frelsisins
Stór hluti bókarinnar er skrifaður út frá sjónarhóli Norðurlanda, sem er auðvitað áhugaverður vinkill. Fyrsti hlutinn fjallar um hugmyndasögu að baki frelsi og frjálslyndi. Hannes segir frá nokkrum af helstu hugsuðum sem hafa verið boðberar frelsis í gegnum tíðina. Snorri Sturluson hefur yfirleitt ekki verið talinn í hópi með þeim sem nefndir eru hér að framan, en Hannes telur að Snorri hafi talað fyrir eignarrétti, fyrir viðskiptum og viljað takmarka vald konunga. Þetta finnur Hannes með túlkunum á frásögnum í Heimskringlu.
Flestir hinna segja sína meiningu án þess að túlka þurfi þeirra skoðanir sérstaklega. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því að Svíinn Anders Chydenius hefði verið einn af fyrstu boðberum frelsis og frjálsra viðskipta á undan Adam Smith. Mér fannst áhugavert að lesa um hann og hans boðskap, ekki síst í ljósi þess hvernig sósíaldemókratar héldu utan um sænska pólitík, menningu og viðskiptalíf á seinni hluta 20. aldar.
Eins og ég hef vit til fannst mér þessi hluti fróðlegt og gagnlegt yfirlit um frelsið og brautryðjendur þess á fyrri öldum, þegar flestar þjóðir máttu búa við stjórnlyndi. Á okkar tímum sjáum við einmitt eitt af því sem oft hefur verið varað við, misnotkun meirihlutans á valdi sínu gagnvart minnihlutanum. Hópar sem nú eru kenndir við öfga hægri, en eru í raun nær öfgum sem kenndar hafa verið við sósíalisma og stjórnlyndi, hafa víða náð skelfilegum ítökum. Þetta sést um alla Evrópu og nú síðast í Bandaríkjunum, sem lengst af voru brimbrjótar frelsisins og Reagan kallaði síðasta virki þess (sem reyndar var ofmælt).
Menntaði þjóðernissinninn
Næsti hluti fjallar um Grundtvig hinn danska forvígismann uppfræðslu almennings með lýðháskólum. Grundtvig (1783-1872) var á öndverðri 20 öldinni í meira uppáhaldi hjá Framsóknarmönnum en öðrum á Íslandi. Hriflu-Jónas horfði til fordæmis hans við stofnun héraðsskóla. En Hannes hefur haft taugar til Framsóknarflokksins og lagði á sínum tíma til að hann og Sjálfstæðisflokkurinn sameinuðust, sem enn hefur þó ekki orðið. Hannes segir að Grundtvig hafi verið sterkur persónuleiki sem vildi heldur hafa áheyrendur en vera í þeirra hópi.
Grundtvig var þjóðernissinni og bar mikla virðingu fyrir dönskum menningararfi sem hann taldi þjóðinni skylt að varðveita. Hann varaði við hættunni af Þýskalandi því „þýskur Napóleon“ gæti orðið miklu hættulegri en sá franski þegar hann var verstur. Þetta hafa örugglega fæstir séð fyrir á miðri 19. öld. Það virðist hafa verið mikill rígur milli Þjóðverja og Dana á þessum tíma. Grundtvig talar um andstöðu þjóðsagnasafnarans og málfræðingsins Jakobs Grimms og kommúnistahugsuðarins Friedrichs Engels við Danmörku sem frjálst land. Engels skrifaði Karli Marx félaga sínum: „Betri er minnsti Þjóðverjinn en mesti Daninn.“
Hannes telur að Grundtvig hafi með þjóðernisvitund sinni blásið athafnamönnum og fjárfestum metnaði í brjóst. Þetta er ekki ótrúlegt ef litið er til þess hvað gerðist á Íslandi í upphafi 20. aldar þegar þjóðin fékk sína fyrstu viðurkenningu á sjálfstæði með innlendum ráðherra. Hannes vitnar í kvæði Matthíasar Jochumssonar um Sigfús Eymundsson, sem fékk eftirfarandi ráð frá dönskum vini sínum:
Ég býð ekki Íslandi ölmusu-náð;
ég ætla að gefa ykkur heillaráð:
Sá blessaðist aldrei í heimi hér,
sem hafði ekki trú á sjálfum sér.
Þið eigið sjálfir að leysa landið,
losa ykkur sjálfir við okurbandið.
Í hugann koma líka hvatningarorð Einars Benediktssonar í Íslandsljóðum:
Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.
Frederik Borgbjerg, menntamálaráðherra Dana, sagði í ræðu árið 1933 að ástæðan fyrir því að Danir hefðu ekki ánetjast nasisma og fasisma hefði verið framtak Grundtvigs til þess að mennta þjóðina. Enginn vafi er á því að menntun minnkar líkurnar á því að fólk falli fyrir lýðskrumurum, en dæmið frá Þýskalandi kreppunnar og nú síðast Bandaríkjunum sýnir að menntun er ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að hættulegum mönnum sé lyft á æðsta valdastól.
Hannes er hrifinn af norrænni samvinnu og það með réttu. Hann rekur hvernig myntbandalag milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur (og Íslands) leið undir lok í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Rétturinn til þess að ferðast milli landanna án vegabréfs var tekinn upp árið 1954, nema hvað Ísland fylgdi ekki á eftir fyrr en 1966, en jafnframt var milli landanna sameiginlegur vinnumarkaður. Að þessu leyti urðu Norðurlönd fyrirmynd að sameiginlegum vinnumarkaði í Evrópu og Schengen-samkomulaginu um ferðalög innan svæðisins.
Sameinaðir stöndum vér
Þriðji hluti bókarinnar er ekki síður fróðlegur og kannski sá besti í bókinni, en þar fjallar Hannes um ítalska hagfræðinginn og stjórnmálamanninn Luigi Einaudi (1874-1961). Einaudi var miklu nær því að vera frjálslyndur í þeirri merkingu sem nú hefur orðið ofan á en Grundtvig. Sá fyrrnefndi lagði miklu áherslu á frjáls viðskipti og frjálsa för milli landa. Hann varar við hættunni af verndarstefnu og bendir á að atvinnugreinar sem njóti verndar verði aldrei fullorðnar, þær lagi sig að verndarstefnunni.
Í kaflanum eru ýmis spakmæli. Til dæmis er vitnað í hina ágætu bók Hlébarðann: „Allt þarf að breytast svo allt verði óbreytt.“ Kirkjunnar menn vöruðu við uppgangi kommúnista og sögðu fyrir kosningarnar: „Guð sér hvað þú kýst, en Stalín ekki.“ Og loks: „Hagvöxtur gerir fólk kannski ekki hamingjusamt, en hann býr til tækifæri.“
Hannes tekur dæmi af Bandaríkjunum annars vegar og Sambandslýðveldinu Þýskalandi hins vegar sem vel heppnuðu og æskilegu fyrirkomulagi sambands milli ríkja. Einaudi, sem var ákafur fylgismaður nánari samvinnu og sambands milli ríkja, lagði áherslu á að löndin mættu ekki vera fullkomlega óháð hvert öðru og halda fullveldi á öllum sviðum. Slíkt samband væri dæmt til þess að liðast í sundur. Samt sem áður yrðu ríkin að halda stjórnmálalegu sjálfstæði. Á hans tíma væru þjóðirnar ekki tilbúnar undir sambandsríki. Hann talar líka um vandann við sameiginlega skatta og sameiginlegar varnir.
En helstu rökin fyrir myndun efnahagsheildar eru þau að hagsmunir ríkja færast, úr því að vera hættulegir draumar um drottnun yfir öðrum, yfir í vonina um hagnað af gagnkvæmum viðskiptum.
Hvenær er of langt gengið?
Í síðasta hlutanum talar Hannes um Evrópusambandið. Hann minnir á danskt máltæki: Elskaðu nágrannann, en taktu ekki niður girðinguna. Hann telur að Evrópusamvinnan hafi gengið of langt.
Íslendingar hafa nú í um 30 ár kynnst kostum Evrópusambandsins í gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES). Með því njótum við nú fjórfrelsisins svonefnda, frjálsum flutningum fólks, fjár, vöru og þjónustu milli landa, auk þess sem við fáum á silfurfati löggjöf sem Íslendingar hafa ekki bolmagn til þess að búa til sjálfir. Hannes vitnar til orða Einaudis um að kosturinn við sameiginlegan gjaldmiðil sé ekki bara að auðvelda viðskipti þjóða á milli og lækka kostnað við þau heldur ekki síst að taka frá stjórnmálamönnum peningaprentunarvaldið sem geti leitt til gengisfellingar og verðbólgu, tveggja góðra kunningja Íslendinga. Hannes telur að enn sé of stutt um liðið til þess að segja hvernig evrunni reiði af. Aldarfjórðungur sé ekki nægur tími.
Á því er ekki vafi að innganga Íslands í EES á sínum tíma undir verkstjórn þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra og Björns Bjarnasonar, formanns utanríkisnefndar, var gæfuspor og það sem lengst mun halda frægð fyrsta ráðuneytis Davíðs Oddssonar á lofti. Undir EES-samningnum eru Íslendingar þó fyrst og fremst þiggjendur en „sitja ekki við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar“ svo vitnað sé til orða Harðar Sigurgestssonar, forstjóra Eimskips í rúmlega 20 ár.
Hannes vitnar til sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, en lætur þess ekki getið að samkvæmt henni byggir rétturinn til veiða á hefðarrétti, sem þýðir að Íslendingar sem setið hafa einir að veiðum við Ísland í bráðum hálfa öld myndu hafa hér allan rétt. Vissulega þyrfti áfram að semja um veiðar úr flökku- og deilistofnum, en þar væri væntanlega ekki lakara að hafa Evrópusambandið í liði með sér gegn Bretum og Norðmönnum, sem keppa við okkur á því sviði.
Það er líka galli á þessum kafla að Hannes tekur upp ýmis dæmi ættuð úr breskum síðdegisblöðum til þess að sýna hve vitlaust Evrópusambandið sé og embættismenn þess valdamiklir. Embættismenn eiga að stýra í samræmi við lög og reglur og eru þess vegna oft þyrnir í augum stjórnmálamanna, sem vilja láta geðþótta ráða, eins og við sjáum nú vestan hafs.
Í bókinni segir að hreyfanleiki vinnuafls sé miklu meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu vegna sameiginlegs tungumáls og eflaust er talsvert til í því, en engu að síður sjáum við til dæmis á Íslandi hvernig stórir hópar af erlendum uppruna hafa safnast í ákveðnar atvinnugreinar, þrátt fyrir fákunnáttu í íslensku.
Hannes er ekki á móti Evrópusambandi, en telur að núverandi samband sé of náið. Vænlegra sé að horfa til samvinnu Norðurlandanna sem fyrirmyndar að bandalagi með frelsi í viðskiptum og samvinnu, en meira sjálfstæði þjóðanna. Auðvitað er eðlilegt að hugsað sé um það hvernig slíku sambandi sé best háttað, en þótt samband Norðurlandaþjóðanna sé náið, þá eru þau líka öll þátttakendur bæði í sameiginlegu hernaðarbandalagi, NATO, og Evrópska efnahagssvæðinu. Nú fer að vera erfitt að skilja að þá þætti samvinnunnar, en ofan á efnahagssamvinnuna bæta Norðurlandaþjóðirnar menningarsamvinnu og oft pólitískri samstöðu.
Evrópusambandið er ekki heilagt eða óumbreytanlegt. Bretar gengu úr því og sýndu þannig fram á að klúbburinn er ekki Hótel Kalifornía. Með uppgangi lýðskrumsflokka í stórum Evrópuríkjum er hugsanlegt að fleiri ríki muni fylgja fordæmi Breta. Ef slíkt gerist bætir það ofan á óvissuna vegna hættulegra foringja í stórveldunum í austri og vestri. Heimsmyndin öll mun þá riðlast og þá er alls óljóst hvað verður um Ísland í þeim ólgusjó. Kannski fáum við sjálf minnstu um það ráðið.