Er eitthvað að marka spár um Covid?

Ég held enn áfram að rýna í Covid-tölur. Eftir stutta umfjöllun um tölur dagsins fjalla ég um spálíkan sérfræðinga, en niðurstöður hafa sveiflast mikið.

Nýjustu tölur um smitaða eru í takt við það sem hefur verið undanfarna daga. Próf ÍE eru aftur komin inn í myndina og samkvæmt tölunum hafa bara þrír af tæplega 1.000 undanfarna þrjá daga greinst smitaðir þaðan. Þetta hlutfall er því aðeins 0,3%. Það bendir til þess að aðgerðir hafi haft tilætluð áhrif.

Tvennt vekur athygli mína. Nú eru heldur fleiri aldraðir með staðfest smit, en þau eru engu að síður fá eða aðeins fjórir eldri en áttræðir og 28 á milli 70 og 80 ára.

Annað. Nýjustu tölur um sóttkví sýna 1.600 óstaðsetta. Það væri mjög gagnlegt til þess að sjá hvert stefnir í útbreiðslu sjúkdómsins á ákveðnum svæðum að þessum tölum sé við haldið.

Spálíkön

Að undanförnu hafa birst spár um útbreiðslu kórónuveirunnar, staðfest smit og innlagnir á spítala. samkvæmt spálíkani sem vísindamenn frá Háskóla Íslands, embætti Landlæknis, og Landspítala unnu. Fyrsta spáin birtist 19. mars, sú næsta 22. mars og svo ein í gær, 25. mars. Helstu niðurstöður í spánum eru sýndar á súluritum hér á eftir.
Þó að stutt sé á milli spánna þá má segja að flöktið sé afar mikið. Svo dæmi sé tekið gerði fyrsta spá ráð fyrir því að líklegast væri að 600 myndu mest hafa veiruna á sama tíma en svartsýnisspá gerði ráð fyrir að þeir yrðu flestir 1.200. Sérfræðingar ákváðu strax að vinna eftir svartsýnu spánni og það reyndist skynsamlegt.

Ekki liðu margir dagar þangað til fjöldi smitaðra slagaði hátt í 600 og 22. mars var talið að líklegast væri að 2.000 yrðu smitaðir samtímis þegar mest væri, eða nærri tvöfalt fleiri en svartsýnisspáin gerði ráð fyrir þremur dögum áður.

Þremur dögum seinna eru tölurnar svo þannig að líklegast sé að 1.200 verði flestir smitaðir í einu, en í versta falli 1.600, það er svartsýnisspáin er nú lægri en líklegasta spá nokkrum dögum fyrr.

Varnaglar

Einhverjir telja þetta kannski sýna að ekkert sé að marka spár, en rétt er að hafa í huga varnaðarorð teymisins sjálfs á heimasíðunni covid.hi.is:

„Greiningarvinnan mun halda áfram og spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum. Hafa ber í huga að vegna fámennis geta tölurnar um fjölda greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hefur áhrif á niðurstöður spálíkansins. Líkanið verður þó stöðugra eftir því sem á líður.“

Önnur viðvörun er á síðunni er enn mikilvægari:

„Hafa ber í huga að aldursdreifing smitaðra einstaklinga á Íslandi er hagstæð enn sem komið er. Ef fjöldi smita eykst meðal aldraðra einstaklinga mun það hafa veruleg áhrif á spálíkanið í átt að auknu álagi á heilbrigðiskerfið.“

Þessi seinni viðvörun segir mikið um hve mikilvægt það er að vernda aldraða fyrir veirunni. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að þegar mest er verði 5 einstaklingar yfir áttrætt smitaðir. Þeir eru núna fjórir sem hafa smitast. Þarna er veikasti hlekkurinn.

Er eitthvað gagn að svona spám sem sveiflast svona mikið?

Svarið er , því að á hverjum tíma þarf að gefa sem réttasta mynd af stöðu og horfum. Nokkrir talnaglöggir leikmenn hafa sett fram mjög djarfar spár um fjölda smitaðra, eflaust í góðum hug til þess að hvetja yfirvöld til dáða. Sést hafa yfirlýsingar eins og : „Tugir þúsunda gætu smitast“ og „smitið gæti náð til milli 60 og 70% þjóðarinnar.“

Í þessu sambandi er hollt að minnast orða Hjálmars Gíslasonar sem er með tölugleggstu mönnum:

„Hver sá sem þykist geta fullyrt að hann (já, eru þetta ekki allt karlar?) viti betur en spár yfirvalda, án þess að byggja þá fullyrðingu eða hafa unnið sína greiningu með fólki sem hefur sérþekkingu í heilbrigðismálum er svo gott sem ómarktækur. Í besta falli er sá í aðstöðu til að spyrja góðra spurninga, en alls ekki til að fullyrða eitt né neitt.“

Hann bætir við:

„Eina fólkið sem er alveg örugglega ekki mark á takandi við þessar fordæmalausu kringumstæður er fólkið sem efast ekki hið minnsta um að það hafi rétt fyrir sér. Mörg okkar eru hrædd, óörugg og leitandi í þessum kringumstæðum. Undir slíkum kringumstæðum eru dómadagsspár eða óhófleg bjartsýni byggð á litlum grunni, en miklu sjálfsöryggi því miður líkleg til að fá mikla athygli. Þau geta hins vegar verið stórskaðleg.“

Meðan við erum að fást við fyrirbæri sem við öll vitum jafnlítið um og raun ber vitni þarf að vanda til, hvorki setja fram dómsdagsspá eða óskhyggju.

Einstakar spár sérfræðinga HÍ, Landspítalans og Landlæknis

Áður en lengra er haldið er rétt að vekja athygli á því að þetta líkan er stærðfræðilegt og byggir á ákveðnum forsendum. Þess vegna geta sveiflur í sýnatökum haft talsvert að segja og skortur á pinnunum frægu hafði áhrif, en nú virðist það vandamál úr sögunni í bili. En jafnvel þó að líkön séu stærðfræðileg má ekki gleyma þeirri þekkingu sem sérfræðingar hafa, en kemur ef til vill ekki inn í stærðfræðilegu forsendurnar. En jafnframt þarf að varast að láta óskhyggju ekki hafa áhrif á niðurstöðurnar. Öll viljum við að sem fæstir smitist og að nánast engir lendi á gjörgæslu, en spálíkön verða að byggja á staðreyndum og raunsæjum forsendum.

Sú tala sem mesta athygli vekur dag frá degi er fjöldi smitaðra. Það er eðlilegt því það er sú tala sem er hverjum um sig nærtækust. Fyrsta spáin er þegar orðin röng, samkvæmt tölum á miðnætti í gærkvöldi eru 737 í einangrun. Fjölgun smita um 65 frá því í gær getur aftur á móti vel fallið að nýjustu spánni, það er að 1.200 verði smitaðir í fyrstu viku apríl.

Mynd 1 26.3

Það má skjóta því hér inn í að Bandaríkjaforseti sem lýsir sjálfum sér sem „a very stable genius“ hefur að sögn í huga að aflétta um það leyti öllum takmörkunum í Bandaríkjunum svo kirkjur verði troðfullar um páskana. Hann hefur verið miklu uppáhaldi hjá mörgum þeirra sem telja að hér á landi sé allt of lítið gert til þess að stöðva útbreiðslu smits.

Spá um smitaða alls sést á myndinni hér á eftir. Hér eru sveiflurnar líka miklar á skömmum tíma. Athygli vekur að svartsýna spáin hefur tiltölulega lítið breyst frá fyrstu til þriðju spár.

Mynd 2 26.3

Hvað verður álagið á sjúkrahúsum mikið?

En þótt spárnar hér að framan skipti auðvitað miklu þá er það álagið á sjúkrahúsin sem mestu skiptir. Þar var í fyrstu spáð 60 innlögnum, svo 170 og loks 100 sem er nýjasta spá. Þær eru nú 17.

Mynd 3 26.3
Eins og margoft hefur komið fram er áhersla lögð á að álagið dreifist þannig að sjúkrahúsin ráði við hjúkrun mjög veikra. Hér að framan er sagt frá því að þeir eru nú 17, en nýjasta spáin gerir ráð fyrir því að flestir verði um 60 í fyrstu viku apríl.

Mynd 4 26.3

Loks er fjallað um um hve margir fari á gjörgæslu sem eru auðvitað þeir veikustu og þeir sem hættast er við að séu í lífshættu. Þar er líklegasta spáin að milli 13 og 23 muni lenda á gjörgæslu og flestir verði þeir milli 5 og 11 eins og sést á neðstu myndinni. Þessar tvær myndir eru að því leyti ólíkar þeim fyrstu að sveiflurnar eru mun minni, sérstaklega um fjölda á gjörgæslu.

Mynd 5 26.3

Munurinn á þessari mynd og myndinni hér að neðan er að efri myndin sýnir heildarfjöldann á löngum tíma, en sú seinni hve margir verði á gjörgæslu þegar álagið er mest. Rétt er að benda á að samkvæmt öllum spánum nær álagið hámarki í fyrri hluta apríl.

Mynd 6 26.3

Niðurlag

Þessi grein sýnir að það er vandasamt að spá um fyrirbæri sem við þekkjum illa og sérstaklega þegar inngrip geta haft (og eiga að hafa) áhrif.

Eins og kom fram á fundi þríeykisins fræga í dag (26. mars) með Thor Aspelund hefur það mjög mikið að segja að vernda aldraða gegn smiti. Ef smit berst í þann hóp geta forsendur líkansins breyst til hins verra.

Að þessu sögðu sýnist mér nýjasta líkanið líklegt til þess að gefa raunsæjar niðurstöður miðað við það sem við vitum í dag.

 

 

 

One comment

  1. Gott að þú hafir tekið saman tölurnar úr þessum fyrstu þremur keyrslum á líkaninu. En varðandi þá hugmynd að tugir þúsunda kynnu að smitast þá er hún ekki frá einhverjum jólasveinum úti í bæ heldur sóttvarnalækni sjálfum. Hann sagði síðast í gær að „við fáum hjarðónæmi“. Samkvæmt öllum venjulegum skilgreiningum á hjarðónæmi þýðir það að tugir prósenta myndu þurfa að smitast. En væntanlega sér Þórólfur fyrir sér að sjúkdómurinn sé alltaf mjög vangreindur þannig að jafnvel þótt aðeins 3000 greinist með smit hafi kannski 100.000 raunverulega smitast. Það er að minnsta kosti mín besta ágiskun um það hvernig hægt sé að samræma það sem hann segir.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.